Við erum hið raunverulega Alþingi!

Á síðasta borgarafundi framdi Ingibjörg Sólrún pólitískt Harakiri með ummælum sínum um að fundarmenn væru ekki „þjóðin.“ Kom þá í ljós hve djúp gjáin er á milli atvinnupólitíkusanna og þjóðarinnar.

Úr fílabeinsturni sínum sjá þau 5-7000 manns mótmæla á Austurvelli. Ófær um að sjá hverjir sitja heima en hugsa það sama. Ófær um að gera sér grein fyrir því að á bak við hvern þann sem mætir á mótmælin eru fleiri sem komast ekki. Ófær um að sjá reiðina í þjóðinni. Ófær um að viðurkenna að þessi Þyrnirósarríkisstjórn hafi vaknað of seint. Og kostað okkur of mikið.

Það er enginn Íslendingur sáttur við að vera orðinn skuldari gagnvart grandvaraleysi íslenskra stjórnvalda og fjársukki svikamyllna sem svo sannarlega hefur verið stofnað til af fámennum fjárglæfrahóp. 

Köllum hlutina bara réttum nöfnum: Í skjóli fákeppni og þöguls samráðs (Einnar krónu verðmunur á Bónus og Krónunni) hefur íslenskur almenningur verið blóðmjólkaður af kaupmönnum sem  vita að almenningur hefur um ekkert annað að velja en versla við annan hvorn aðilann. Þetta er næg ástæða til að setja yfirmann Samkeppnisstofnunar og umboðsmann neytenda af.

Í skjóli krosstengsla hafa bankar, eigendur þeirra og skyldra fyrirtækja logið upp verðmæti sitt með krosskaupum og blekkingum sem Kauphöllin og Fjármálaeftirlitið hafa litið fram hjá. Það er næg ástæða til að setja yfirmenn þessara stofnanna af. 

Seðlabankinn þrátt fyrir að segja núna að hann hafi varað við ástandinu, létti bindiskyldu bankanna á eigin fé. Davíð Oddsson mærði útrásina þó hann kannist ekki við það í dag. Vaxtastefna bankans og verðbólgumarkmið hafa aldrei virkað. Það er næg ástæða til að þeir eigi að draga sig í hlé.

 Fjármálaráðherra, já hvað er með hann. Ég myndi ekki einu sinni vilja að yxna kú yrði á vegi hans.

Viðskiptaráðherra þó að ég  hafi mikið álit á honum sem manneskju og framtíðarpólitíkus á að segja af sér. Af hverju? Jú hann stóð ekki vaktina. Kannski vissi hann ekki, kannski var lífið og tilveran bara „jollý“ en þeir sem taka að sér embætti eins og þetta bera ábyrgð. Og hann féll á prófinu. Svo er spurning hvort hann fái að taka sjúkrapróf.

Jóhanna Sigurðardóttir fellur líka á prófinu með því að setja plástur á svöðusár eins og Gunnar Tómasson orðaði það. Við missum heimilin okkar, verðum gjaldþrota og flýjum land en úrræði félagsmálaráðuneytisins snúast öllum um að vernda lífeyrissjóðina og íbúðalánasjóð. Við megum drepast en ekki þessar stofnanir.

Sjálfstæðismenn, framsókn  og Kristján Möller vilja virkja. Heimska, heimska, heimska. Landsvirkjun eins og Ísland nýtur ekki lánstraust lengur. Álverð sem ákvarðar raforkuverð til stóriðju hefur lækkað um 36%. Af hverju þurfum við að halda áfram að fara í gegnum gjaldþrota úrræði Framsóknar?  Er ekki komið nóg af því að markaðssetja okkur sem betri úrræði fyrir álver en þróunarlönd? Eða stöndum við þeim neðar?

Geir og Davíð dreifa smjörklípum en fólk sem á ekkert til að smyrja smjörinu á er hætt að taka við þeim.  Á svona tímum leitar fólk að leiðtoga. Traustum og staðföstum foringja sem leiðir þjóðina á besta hugsanlega hátt gegnum fárviðrið. Leiðtoga sem stendur með þjóðinni og öslar í gegnum flóðbylgjurnar með henni. Ekki möppudýr sem frosið í framan segir þjóðinni að því miður sé það óumflýjanlegt að þið missið húsið ykkar og skuldið milljónir eftir það. Leiðtoga sem gerir ekki gerviumbætur á eftirlaunasvindli lénsstéttarinnar. Leiðtoga sem biður ekki kjararáð um eitthvað sem hann veit að kjararáð hefur ekki umboð til að samþykkja án lagabreytinga. Er að slá ryki í augu fólks. Og þó að norski hernaðarráðgjafinn sé farinn er enn farið eftir handritinu hans. Þó að síðasti karamellufréttafundur hafi farið fram þannig að fréttamenn hafi haft tíma til að vinna úr honum þá er svo komið að fréttamiðlar á Íslandi eru líka búnir að missa tiltrú fólks.

Mbl.is birtir tittlingaskít um mótmælin ma. að 100-200 manns hafi mætt á Arnarhól. Má vel vera en hvaðan fá þeir ALLTAF upplýsingarnar. Frá lögruglunni.

Einu raunverulegu fjölmiðlarnir í dag eru á netinu. Eyjan, Smugan, Nei og fleiri. Getuleysi Rúv, mbl, visis og þessarra sem eiga að vera OKKAR miðlar er algert!

Það er ekki rétti tíminn nú til að leita að sökudólgum dynur á okkur. Svo er sagt að hverjum steini verði velt við. Af sömu mönnum og áttu þessa steina!

Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að fá Sjálfstæðisflokkinn til að skipa Sjálfstæðisflokkinn til að rannsaka Sjálfstæðisflokkinn og þátt hans í Sjálfstæðisflokknum. Framsóknarflokkurinn er í tilvistarkreppu án þess að gera sér grein fyrir ástæðunni (með Finn Ingólfsson með milljarða í rassvasanum) og spillingarstimpil sem meira að segja 5 ára krakkar skilja og Samfylkingin er eitt spurningarmerki í framan. Kannast ekkert við að hafa verið með í partýinu. Svo höfum við glottandi Steinrík krefjast kosninga. Hvurslags helvítis vanvita höfum við kosið yfir okkur? Við eigum þetta varla skilið þrátt fyrir að hafa flotið sofandi að feigðarósi.

 Við ykkur málfundafélagsmenntaskólastjórnmálamenn sem hafið stefnt að áhrifum frá 15 ára aldri vil ég segja eitt: Við viljum ykkur ekki! Ekki lengur. Þið hafið fengið ykkar tækifæri. Og skitið upp á bak. Við hin þetta venjulega fólk sem þið kallið kjósendur þurfum að þrífa þennan illa lyktandi viðbjóð sem þið skilduð eftir ykkur. Og ekki halda eitt augnablik að við viljum það. En við gerum það. Með það í huga að þetta endurtaki sig ekki. Og til þess að það gerist ekki þarf að útiloka ykkur. Til allrar framtíðar.

Nýtt Ísland verður sterkt. Samkennd og samhugur. Skilningur á góðri menntun. Skilningur á samfélagslegri þjónustu. Skilningur á að manneskjan komi fyrst. Efnahagur seinna. Félagsleg gildi þar sem það verður ekki vandamál að semja um kjör við ljósmæður. Eða þörf fjármálaráðherra til staðar til að stefna þeim.

Við leyfum græðgisvæðingunni ekki aftur að kaffæra okkur.  Milton Friedman er lærifaðir Davíðs Oddssonar, Hannesar Hólmsteins og Geir H. Haarde. Lærifaðir þess sem við erum að upplifa núna. Ég hafnaði kommúnisma á sínum tíma. Ég hafna líka nýgræðgisfrjálshyggju Friedmanns og félaga. Núna er okkar hlutverk að koma þessum atvinnupólitíkusum frá! Hvort sem þeir eru grænir fúlir eða bláir gráðugir....... og allt þar á milli.

Nýtt Ísland byggist á einstaklingum kjörnum á þing sem menn - ekki flokksræflar


mbl.is Formaður fram að flokksþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ég spyr pabba við tækifæri að því!

Ævar Rafn Kjartansson, 4.12.2008 kl. 17:11

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Flott færsla! Sýnist að ég gæti tekið undir allt sem kemur fram hér.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.12.2008 kl. 18:19

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ævar, varst þú ekki samfylkíngarkona fyrrum ?

Kví minnir mig sem svo ?

Góð grein, góð grein ....

Steingrímur Helgason, 5.12.2008 kl. 00:32

4 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Jú jú, ég er sekur um að kjósa Alþýðubandalagið, alþýðuflokk, kvennalista, samfylkingu og Íslandshreyfinguna. En ég hef aldrei verið legremba.

Ævar Rafn Kjartansson, 5.12.2008 kl. 00:46

5 identicon

Frábær lesning!

Þetta gerðist síðast fyrir 25 árum á meðan framsókn og sjálfstæðisflokkur voru við stjórn og margir eru enn þann dag í dag að súpa seyðið af vitleysunni í gegnum lánaafborganir á hundgömlum lánum - fólk sem varð gjaldþrota og missti húsnæði sitt!

Munum við aldrei læra af sögunni? 

Burt með þessa vitleysingja - ég er löngu búin að reka þá en þeir mæta samt til vinnu!

Hvað er málið með þessa valdasjúku og athyglissjúku ráðamenn? Er fégræðgin algjörlega búin að steikja á þeim heilann?

Burt með spillingaröflin!

Martha Elena Laxdal (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 04:32

6 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Flottur pistill

Veistu...ég spurði 10 fullorðins manneskjur í gær hvað við værum að fá margra milljarða lán. Vissi það enginn

Heiða B. Heiðars, 5.12.2008 kl. 11:49

7 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

 Þetta var upphæðin í byrjun nóvember:

 Til hvers þurfum við 1.160.000.000.000 krónur?

Ævar Rafn Kjartansson, 5.12.2008 kl. 12:31

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég kann ekki einu sinni að lesa út úr svona hárri tölu Þær hafa enga merkingu hvað þá að ég geti raungert þær. Ég hallast m.a.s. frekar að því að ég geti komist í samband við guð en svona stjarnfræðilegar tölur...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.12.2008 kl. 03:20

9 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Þetta er flottur pistill en ég er þeirra skoðana að það verði ekki byggt upp samfélag á flokka einstaklingar sem kosnir verða á þig sem einstaklingar eiga mjög kaldan topp og ekki  nett apparat til að leita álits hjá þegar mál eru í skoðun. Góðir stjórnmálaflokkar verða til með því að allir verði pólitískir og dembi sér í flokkana og láti til sín taka þannig verður til flokkur fólksins því flokkar eru ekkert annað en þeir sem í honum  starfa þeirra skoðanir.

Það hefur ekki verið í tísku síðustu 20 ár að fólk gengi í stjórnmálaflokkana nema í kringum prófkjör einsakra manna og kvenna mest af þessu fólki hefur aldrei mætt á fund eða sagt sína skoðun hvað þá unnið í málefnaskrá flokkanna.

Það hefur verið þankagangur  í þjóðfélaginu að ég er ekkert að skipta mér að þessu. hvað fæ ég í staðin?. Það hefur verið einstaklingshagsmunir ofar öllu í þjóðfélaginu það gengur líka illa að manna björgunarsveitir líknar félög og klúbba sem vinna að hagsmunum almennings svo sem Kiwanis Layons og hvað þeir heita allir og ef maður er að kynna slíkt starf þá er oft viðkvæðið ég hef ekki tíma eða hef ég eitthvað útúr svona starfi.

Þjóðin verður að skilja að það gerist ekkert nema maður geri það sjálfur og hafi áhrif á það sem verið er að gera. Þeir sem ekki skipta sé af lýðræðinu geta í raun ekkert sagt þeir hafa verið stikkfrí, og kenna svo öðrum um, það er líka ábyrgð að skila auðu.

Það þíðir ekki að sitja heima í eldhúsinu og nöldra farið á fundi í stjórnmálaflokka og berjist þar ef ykkur er ekki vel tekið þá stofnið flokk og gerið það sem þið viljið, en ekki gera ekki neitt.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 6.12.2008 kl. 14:51

10 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Rakel, ég hef jafn mikinn skilning og þú á þessarri tölu.

Jón Ólafur, til að flokkarnir virki þarf ALGER umskipti í öll sæti, ráð og nefndir og við vitum að það gerist ekki.

Nýir flokkar og nýtt fólk, samtrygginguna og spillinguna burt er krafan. Svo á að vera hægt að kjósa staka menn af listum stjórnmálaflokkanna án þess greiða flokknum atkvæði. Það að yfirstrikanir um 20% kjósenda á Birni Bjarnasyni og Árna Johnsen hefði svona lítil áhrif er hneyksli eitt og sér.

Ævar Rafn Kjartansson, 6.12.2008 kl. 18:54

11 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Ég get verið sammála því að rýmka verulega reglur um útstrikanir þannig að þær séu raunveruleg ógn við þá sem á framboðslista eru, þá er alveg spurning hvort ekki eigi að kjósa ráðherra beint svo sem Forsætisráðherra og hann skipi stjórn.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 6.12.2008 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.