Steingrímur fjármálastjóri í sláturhúsi frjálshyggjunnar.

Þaulþingseta fyrir hvern?
Tveir æðstu stjórnendur ríkisstjórnar eiga samanlagt að baki um 60 ára þingsetu. Nánar tiltekið 59 ár. Engu að síður eru þau núna í valdamestu embættum sem þau hafa gengt. Og valdalaus í þeim ef marka má Lilju Mósesdóttir. Strengjabrúður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hafnar lyklafrumvarpi hennar. Kallar aðstoðarmann dómsmálaráðherra á teppið fyrir að reyna úrbætur fyrir skuldara.

Það hlýtur að vera aumt fyrir þessa ráðherra að enda pólitíska ævi sína þannig að verða minnst í sögunni sem fótgönguliða björgunarsveitar alþjóðagræðgisvæðingarinnar. Starfa í sláturhúsi frjálshyggjunnar, blóðugur upp fyrir haus í aftökum heimila og fyrirtækja.
Hafa stokkið á tækifærið til að baða sig í sviðsljósi rauða dregilsins sem bjargvættur en lúta í lægra haldi fyrir alþjóðlegri bankastarfssemi og enda sem slátrari á færibandi Deutsche bank og skyldra fyrirtækja.

Öll markaðssetning um annað breytir ekki dóm sögunnar. Enginn Einar Karl getur skrifað þau út úr þessu hlutverki. Persónur í sápuóperum geta lifnað við í miðju sturtuatriði, breyst í skúrk eða hetju, sigrast á banvænum sjúkdómum og orðið tvíburi sinn. Það á hvorki fyrir Jóhönnu né Steingrími að liggja. Frekar en meðreiðarsveinum og fraukum.

Erlendar bankastofnanir notuðu aðferðir fíkniefnasalans við að gera örríkið Ísland háð dópinu sínu. Dældu inn dópi í formi ódýrs fjármagns sem ósvífnir fjárglæframenn ánetjuðust auðveldlega. Og náðu að gera þá eins háða og aðra fíkniefnaneytendur. Þeir fóru að stela. Ljúga upp verðmæti eigna sinna til að geta fengið lánað fyrir næsta skammti. Lugu að foreldrum sínum og öðru gömlu fólki að sparifé þess væri best fólgið hjá sér. Gerðu varðhunda lífeyrissjóðanna að svallfélögum sínum. Eins og með aðra fíkla var ekkert heilagt. Ekkert framar því að tryggja sér næsta skammt.

Þessir fíklar gerðu stjórnvöld meðvirk. Embættiskerfið. Það þorði enginn að mótmæla fíklinum enda ákveður hann verðlagningu alls sem er til sölu á landinu í dag. „Hann á etta - hann má etta“.
Þeir sem mótmæla, leita sanngirnis og réttlætis geta gleymt því að lifa og starfa í norðanverðri Evrópu. Í ofanálag virðist pólitísk framtíð heilu stjórnmálaflokkanna háð hans skaplundargeði.

Í þessu umhverfi sitja jarðfræðingur og flugfreyja í æðstu embættum ríkisstjórnar. Bæði með um og yfir 30 ára reynslu af klækjapólitík, hrossakaupum, katta- og kosningasmölun, slægð, pólitískri markaðssetningu, flokkseigendahollustu.

Bæði sannfærð um að þau séu að gera það besta í stöðunni. Svona eins og Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde voru og eru.

Þau tvö og gullskeiðarkálfar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafa misboðið þjóðinni núna í 2 ár með sandkassaati sem verður ekki liðið lengur. Hefði aldrei átt að líðast.

Jóhanna og þið hin. Ykkar tími er liðinn. Hann leið þegar þið fóruð í hanaslag um Icesave og ESB meðan við vildum bara björgunarhring. Okkur getur nefnilega greint á um þá hluti en stærsti hluti þjóðarinnar er sammála um það að hér eigi að ríkja sanngirni og réttlæti. Eðlilegir viðskiptahættir miðað við þær þjóðir sem við berum okkur saman við.
Við eigum ekki að þurfa að lesa um að við séum á sama stað og Simbabwe í neinu tilfelli. Eða að viðskiptasiðferði hér sé líkt því sem Nígería státar af. Samt er þetta staðreynd í dag.

Þið hafið komið fram í fjölmiðlum og sagt að nóg sé að gert fyrir heimilin. Á sama tíma að úrræði ykkar dugi kannski 5.000 heimilum af 23.000 sem þurfa alvarlega aðstoð.  Þið bjóðið fólki sem ræður ekki við 110.000 afborganir lausnir eins og það að leigja fyrrverandi heimili á 330.000 krónur. Þið segið að heimilin þurfi ekki að lifa á tekexi í öll mál. Þið segið að lengri opnunartími sýslumanna sé úrræði.

Jóhanna, hafi þinn tími einhvern tímann komið var það á öld örbrigðarinnar þegar ungbörn fengu kúamjólk og fiskistöppu í fæði. Ungbarnadauði var þá 70%. Þér finnst kannski 70% gjaldþrot ásættanlegt?

Stigið til hliðar. Viðurkennið vanmátt ykkar. Það þarf fólk með sterk bein og sterka réttlætiskennd til að taka til. Skrúbba öll illa lyktandi hornin eftir áratuga spillingu og einkavinavæðingu. Skafa upp skítablettina. Spillingarsveppagróin. Það þarf fólk sem er ferskt. Ekki rótgróið í ég klóra þér og þú mér pólitíkina sem þið eruð  partur af.
Segið af ykkur og biðjið liðið sem tekur við um að falla ekki í sömu gryfju og þið. Gryfju flokksins.

Ísland þarf stjórnmálamenn eins og Lilju Mósesdóttir. Þingmenn Hreyfingarinnar. Innan Framsóknar eru meira að segja þannig þingmenn. Við þurfum ekki Pétur Blöndal, Árna „Hellu“ Johnssen, krónprinsa, klækjarefi eða fyrrverandi fréttamenn á þing.

Ísland þarf heiðarlegt uppgjör við fortíðina. Uppgjör laust við flokkslínur, meirihluta og ítök í fjölmiðlum. Við þurfum uppgjör án þess að raka hárið af hórunum og tjarga þær. Án þess að taka „ætlaða“ föðurlandssvikara af lífi. Það er fáránlegt að Geir H. Haarde skuli einn sæta niðurstöðu Landsdóms. Davíð Oddsson, Finnur Ingólfsson, Valgerður Sverrisdóttir og Halldór Ásgrímsson glotta framan í þjóðina og bera öll margfalda sök Geirs.

Meðan þessi vinnubrögð tíðkast og ríkisvaldið kemst upp með eru engar líkur á því að við förum að horfa fram á veginn.

Reiðin sem kraumar í samfélaginu er eins og spár jarðfræðinga. Þeir gefa næsta gosi nokkrar vikur. Hugsanlega er styttra í gos íslensku meðvirku, langlundargeðsþjóðarinnar.

Og það verður ekki búsáhaldabyltingargos.

bolur6.jpg


mbl.is Óánægja vegna skuldavanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Steingrímur J. Sigfússon hefur ekki þekkingu á sínum pólitíska jarðvegi, hefur gleymt úr hvaða jarðvegi hann sjálfur er sprottinn og hann varðar ekki um það þótt hann sé nú að tortíma þeim jarðvegi sem nærir gott íslenskt samfélag.

Hann er útbrunninn jarðfræðingur og hann er útbrunninn í flestu tilliti.

Jóhanna Sigurðardóttir er í senn flugkapteinn og flugfreyja þeirrar breiðþotu sem þýtur nú stjórnlaus með íslenska þjóð til örbirgðar og tortímingar.

Veitingarnar um borð eru þannig matreiddar að farþegarnir eru búnir að afþakka þær.

Þakka magnaðan pistil sem ekki verður misskilinn.

Það er mikill kostur.

Árni Gunnarsson, 1.10.2010 kl. 20:10

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Sammála Árni. Nýkominn heim eftir mögnuð mótmæli með blöðrur á fingrum. En smá von. Stelpurnar sem skipulögðu þetta voru sáttar við 50 manns í kvöld. Við urðum 8000 minnst.

Kannski kemst þetta til skila til flugfreyjunnar og jarðfræðingsins. Og kannski gerist eitthvað.

En mikið rosalega er ég ánægður með að ekki hafi farið verr.

Ævar Rafn Kjartansson, 4.10.2010 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband