30.3.2009 | 10:58
Hvaða lit af fisk má bjóða þér?
Panga flökin fást í 5 mismunandi litum eins og frú Pham Thi Dieu Hien, sýnir hér á myndinni. Hann er litaður með kemískum efnum allt upp í alhvítan. Á bak við hana sést vatnið sem fiskurinn er ræktaður í. Sama vatnið og tekur við öllum úrgangi frá íbúunum svo sem saur og matarafgöngum. Það tekur víst aðeins nokkrar vikur að rækta fiskinn í sláturstærð. Hér á Íslandi eru þessi flök seld á nánast sama verði og ýsa. Ég keypti einu sinni svona fisk fyrir kettina mína sem eru sólgnir í allan fisk. Nema þennan. Þeir hnusuðu að honum, klóruðu yfir hann og horfðu á mig með fyrirlitningarsvip. Ef kettirnir mínir vilja hann ekki er hann ekki hæfur til manneldis. Svo vil ég ekki hugsa þá hugsun til enda að veitingahús séu að bjóða þetta í staðinn fyrir þorsk eða ýsu.
Þróunaraðstoð ógnar norskum sjávarútvegi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.3.2009 | 11:11
Mannskrattinn er fasisti!
The Smiths gáfu út plötu sem bar heitið Meat is murder. Þá voru Morrissey og félagar í uppáhaldi hjá mér. En að heyra það að kallinn sé svona mikill fasisti gagnvart umhverfinu fær mig til að missa alla löngun á að hlusta á hann jarma framar. Ég get virt skoðanir annarra á kjötáti en ætlast til að fá að hafa mína blóðugu steik í friði fyrir gráguggna fölleita fólkinu sem svífur um eins og heilsuveilar blómkálslitaðar vofur.
Vill ekki sjá kjöt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.3.2009 | 22:38
Komið í veg fyrir græna stóriðju.
Lögruglan hefur nú verið uppvís um að standa í vegi fyrir sprotafyrirtækjum landsins trekk í trekk. Ekki einasta hefur hún stöðvað græna og vistvæna gjaldeyrisskapandi stóriðju frumkvöðla með þjösnalegum inngripum sínum heldur einnig komið í veg fyrir að æska vor kynnist heilsusamlegum hugsanaútvíkkandi áhrifum þess að svæla í sig íslenskar afurðir þrautseigra ræktenda og viðskiptajöfra á sviði nýsköpunar. Það segir sig sjálft að þessir herramenn ef þeir hefðu verið látnir óáreyttir hefðu borgað hátekjuskatt Steingríms með bros á vör og létt okkur hinum tilveruna. Til muna. Þess vegna hlýtur það að vera skýlaus krafa okkar skuldjónanna að fíkniefnalögreglan breyti sínum fíkniefnahundum í rjúpnaveiðihunda og hætti að bregða fæti fyrir frumkvöðlastarfssemi í landinu.
Ef Davíð Oddsson gat sagt húrra, húrra, húrra við þá sem settu landið á hausinn er ekki spurning að þessir nýju blómaræktendur landsins eiga skilið næstu útrásarverðlaun viðskiptaráðs. Þá getur forseti vor komið fram og jarmað um hversu ofboðslega færir þessir menn séu í sínu fagi.
Það er nefnilega svo á Fagra Íslandi að kynferðisglæpamenn, handrukkarar, hvítflippaglæpamenn og dópsalar vita að hverju þeir ganga. Skilorðsbundnu skammi..... á sama tíma og óreglu- og útigangsmenn sitja í nokkra mánuði inni fyrir að stela skinkubréfi.
Stórfelld kannabisræktun stöðvuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.3.2009 | 13:16
Vonandi fá þeir útibúin.
Ef eignir Spron kæmust í hendurnar á frændum okkar og þeir byrjuðu starfssemi hér mætti búast við að hér gæti komist á eðlilega samkeppni á einu sviði. Best væri svo að fá tryggingarfélagið þeirra líka sem hefur lýst áhuga á að opna útibú hér. Svo eitt stk. matvöruverslunarkeðju takk. Já osvfrv.
Þetta er traustur banki og segir ma. í ársskýrslu þeirra þetta um árið 2008: Føroya Banki improves core earnings in 2008 and delivers the promised results. The Bank has a strong solvency ratio and ample liquidity, making it well equipped for the future. The Bank maintains its focus on profitability, optimisation and sound credit management Download the 2008 Annual Report in PDF here
Þetta gætu orðið fyrstu skrefin í að losa almenning úr okurkrumlu fákeppnis og þöguls samráðs fámenningarklíkunnar sem rændi okkur, börn okkar og barnabörn réttlátri framtíð.
Eignir SPRON freista Føroya banka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 11:02
Þessi ríkisstjórn er fallin á tíma!
Þó að kosningavíxill Framsóknarmanna og sumra Sjálfstæðismanna um 20% niðurfellingu fasteignaskulda sé kannski ekki raunhæf leið hefur henni verið komið á framfæri og hún kynnt með rökum. Þessi ríkisstjórn sem lofaði okkur raunhæfum úrlausnum hefur hingað til ekki komið frá sér raunverulegum lausnum. Það bíða þúsundir heimila eftir því að geta endursamið um skuldirnar en það vantar leikreglurnar sem á að spila eftir.
Bankarnir eru ekkert að breyta neinu að því leitinu til að þeir eru reknir með hámarksávöxtun að leiðarljósi. Enda eðli bankastarfssemi.
Þessi ríkisstjórn er búin að eyða alltof miklum tíma í mál eins og lög um persónukjör (sem ég styð) en komast svo ekki í gegn. Á sama tíma vantar nýjar leikreglur fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu. Það eru sennilega fleiri en ég að spila lagið Should I stay or should I go með Clash meðan við bíðum örlaga okkar.
En mín kæra Jóhanna: Þessi bið er okkur fólkinu í landinu rándýr!
Hafnar flatri niðurfærslu skulda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.3.2009 | 20:54
Þetta segir ýmislegt um álit umheimsins á íslenska stjórnkerfinu.
ÖSE segir að almenningur hér á landi virðist treysta á framkvæmd kosninganna. Það gildir ekki það sama um Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu sem vill senda eftirlitsmenn til að fylgjast með kosningunum. Þetta er bara eitt af ótal dæmum um hvernig umheimurinn treystir okkur ekki eftir að fámennum flokkshollustuklíkum og leikfélögum þeirra tókst að mergsjúga ekki bara Ísland heldur nánasta umhverfi. Og sex mánuðum seinna eru íslensk stjórnvöld og stofnanir enn að haarda. Sjálfsagt fáum við svo Framsóknar- Sjálfstæðismanna stjórn eftir kosningar og dæmum okkur endanlega út úr korti alþjóðasamfélagsins. Og flokksgæðingar fá áfram að fitna.
Þetta er yndislegt land. Land sem tekur lán sem það notar ekki og borgar hærri vexti af en það fær fyrir að geyma það í bandarískum banka. Land þar sem rætt er um á þingi hvort selja eigi áfengi í verslunum þegar reitt atvinnulaust og ráðvillt fólk ber bumbur fyrir utan Alþingi og krefst aðgerða. Land þar sem allar lögmannastofur og endurskoðendur landsins virðast hafa tekið þátt í blekkingum pappírstígrisdýranna sem þóttust eiga landið skuldlaust fyrir utan tíund til rétta flokksins.
ÖSE eins og Eva Joly eru hissa og forviða á því hvað hefur verið gert og hvað ekki. Það gildir það sama um umheiminn. Rétt eins og þegar fyrrverandi forsætisráðherra ætlar að láta hvítbókina sína ákvarða hvort hann hafi gert eitthvað rangt. Við vitum það öll að hann stóð ekki vaktina. Ekki frekar en Ingibjörg Sólrún, viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra, fjármálaeftirlit, seðlabanki, lífeyrissjóðirnir, verkalýðshreyfingin, forseti landsins, samtök atvinnulífsins eða við.
En við bárum ekki ábyrgðina. Við kusum fólk á þing sem réð svo aðra til að láta kerfið virka. En kerfið virkaði ekki betur en þetta og þeir sem bera ábyrgð á því eiga að viðurkenna það strax. Ekki bíða eftir syndakvittun frá nefnd sem þeir sjálfir skipa.
Það hlýtur að vera krafa okkar allra að kona eins og Eva Joly eða þeir sem hún treystir til fái fullkomna veiðiheimild á vargana sem komu landinu á þann stað sem það er núna. Sérstakur saksóknari er kettlingur úr röðum Sjálfstæðismanna og það eina sem frá honum mun koma er klór með vandræðum yfir stærstu stykkin í sandkassa útrásarblóðsuganna sé það flokknum þóknanlegt.
Heyrði í dag viðtal við mann sem vann við finnskar kosningar í nokkur skipti. Þar velur þú mann eftir númeri og um leið þá hans flokk. Þeir sem fá efstu sætin skipa þá efstu sæti flokksins á þingi. Þetta er kannski ekki gallalaus hugmynd en gefur fólki möguleikann á því að kjósa þann sem það treystir burtséð frá hvaða flokki hann tilheyrði.
ÖSE fylgist með kosningunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.3.2009 | 14:55
Faglegu ráðherrarnir eru að standa sig!
Himin og haf skilur á milli flokkseignarráðherra sl. ríkisstjórna og þeirra tveggja sem gegna nú stöðu dóms- og viðskiptaráðherra. Ekkert gaspur í gangi þar heldur verkin látin tala. Þessi ráðning Evu Joly gerir rannsókn á því sem gerðist í fyrsta sinn trúverðuga og faglega.
Það væri aldeilis munur ef við gætum ráðið svona fólk í ráðherrastólana í staðinn fyrir vanhæfa framapotara allra flokkeigendafélaganna.
Eva Joly sérstakur ráðgjafi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.3.2009 | 10:07
The Girl Who SILENCED THE WORLD at the UN for 6 MINUTES
Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér | |
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana. |
28.2.2009 | 13:02
Fyndið myndband..... eða ekki.
27.2.2009 | 21:45
Sá síðasti sem á eftir að víkja.
Ólafur útrásarrós er einn eftir af þeim sem ábyrgð bera á að blekkja umheiminn og okkur með íslenska ENRON hneykslinu. Hann jarmaði við allar sínar opinberu athafnir um hversu miklir snillingar þetta væru sem komu landinu á höfuðið. Til að bæta gráu á svart hefur hann hneykslað og móðgað vinaþjóðir okkar. Með því að neita að skrifa undir fjölmiðlafrumvarpið gerði hann forsetembættið pólitískara en það hefur nokkurn tíman verið. Ég ætla ekki að reyna að dæma um hvort það hafi verið rétt. En framkoma hans og framlag sl. vikur er svo á skjön við þá mynd sem við höfum haft af hlutverki forseta landsins að ég get hvorki né nenni að halda kjafti.
Tveir embættismenn: Seðlabankastjóri og forseti landsins hafa farið langt, mjög langt útfyrir verklýsingu starfa sinna. Annar er farinn. Ég krefst þess að hinn segi af sér líka.
Tæpur þriðjungur ánægður með forsetann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |