Geymt en ekki gleymt!

 „Það er ólíklegt að nýir leiðtogar sem væru valdir af handahófi í símaskrá gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða og núverandi stjórnvöld,"

 Hér er enn eitt dæmið um að stjórnvöld VISSU HVERT STEFNDI en kusu að setja hausinn í sandinn og vona hið besta.

IMF er ekkert björgunartæki fyrir almenning heldur kapitalískt tæki til að einkavæða og mjólka þjóðarauðlindir. En kannski betri kostur en flokksgæðinga- og auðjöfrablóðmjólkun sl. ára.

Ef ekki kemur til fullkomið og heiðarlegt uppgjör við það sem gerst hefur sl. vikur eru stjórnmálamenn og sökudólgar að misskilja íslensku þjóðina.

Það er hægt að gleyma dugleysi flokka. Það er hægt að gleyma misvitrum ummælum. Jafnvel láta nokkur hundruð milljóna skrumauglýsingar fá þig til að gleyma dugleysi flokksins.

En þjóðin gleymir ekki þeirri alþjóða auðmýkingu sem hún stendur frammi fyrir né fjármagnshlekkjum sem á hana hafa verið settir. 

Gálginn, gapastokkurinn og fallöxin bíða þeirra. Í einni eða annarri mynd.

Reiðin sem nú kraumar í þjóðinni á eftir að sjatna. En ekki fyrr en uppgjör við banka- og útrásarmafíuna og ábyrgð stjórnmálamanna og opinberra stofnanna hefur átt sér stað.

Það uppgjör getur ekki orðið annað en blóðugt.

 


mbl.is Stjórnvöld skilningslaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir álhausar komir aftur af stað

alverd.jpg

Íslenskum álhausum væri hollt að fara að hugsa útfyrir málminn. Innkoman af álframleiðslunni er háð álverði. Það að auka hlut álsins í útflutningi er ekki skynsamlegt. Ég er ekki fjallagrasafræðimaður en ferðamennska, hrein náttúra og fyrst og fremst VATN eru sóknarfæri Íslendinga. Ekki kannski á morgun en á næstunni. Og tannlausar rollur útaf flúormengun álvera passa illa inn í þá mynd.

 

 

 

Fréttablaðið, 18. okt. 2008 08:00

Úr einu ruglinu í annað

mynd
Andri Snær Magnason

„Á þessum viðsjárverðu tímum nota hagsmunaaðilar tækifærið til að ota að okkur „lausnum" og bjargráðum. Núna felst hún í því að „aflétta öllum hömlum" og skuldsetja opinber orkufyrirtæki sem nemur 300 til 400 milljörðum fyrir tvö til þrjú ný álver.

Þetta vilja menn gera þegar heildarskuldir OR og LV eru þegar orðnar 550 milljarðar - að mestu leyti vegna Alcoa og Norðuráls. Þetta er ástæðan fyrir því að bankarnir boðuðu alltaf stóriðjustefnu - meiri skuldir - meira stuð. Það stendur upp á álverð að endurgreiða þessi lán en álverð hríðfellur og stigi offramleiðslu er þegar náð.

Orkuverð til almennings hefur verið hækkað. Þjóðin trúir því að töfraorðið ÚTFLUTNINGSTEKJUR séu gjaldeyrir sem endar í vasa þjóðarinnar. Fréttir um útflutningstekjur og gjaldeyristekjur hafa ítrekað verið beinlínis rangar og skaðlegar“
.Öll greinin hér


mbl.is Fylgjast náið með niðursveiflu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur, haugur, Gaumur, Glaumur, Hagar og magar...

Eignahald og tengsl fyrirtækja Jóns Ásgeirs eru eins og að horfa ofan í pott af spagettí. Einhvernveginn svona orðaði ein fjármálamaður eignahaldsflækju Baugsfyrirtækjanna.

Þessi „leiðrétting“ breytir engu um að Baugur eða haugur eða Hagar eða Glaumur eða.... hafa blóðmjólkað neytendur. Hvaða nafn sem var eða er notað.


mbl.is Baugur á engar eignir á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Smásöluverslanir Baugs á Íslandi séu mjólkurkýr fyrirtækisins“?

Árum saman hafa forsvarsmenn Baugs haldið því fram að hér sé lítil álagning hjá þeim. Hér ríki grimm samkeppni. Samkeppni sem snerist um þögult samkomulag tveggja aðila um að skipta milli sín markaðnum með einnar krónu verðmun í verslunum. (Krónan-Bónus).

Samkeppni milli 2ja risa sem hafa sölsað undir sig stærsta hluta verslanalífs landsins.

Þess vegna er gott að sjá þessa staðfestingu á því að íslenskir neytendur hafa verið blóðmjólkaðir til að eigendur fákeppnisverslana geti fjárfest í erlendum tuskubúðum

 „One banker described the Iceland supermarket business as Baugur's “cash cow”, bearing in mind its renaissance under Mr Walker. Again, it is thought that Baugur owns only a minority stake in the business.“ Greinin í TimesOnline


mbl.is Viðræður um fjármögnun Mosaic Fashions
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þyrnirós rumskar - rúin trausti ásamt bönkunum, möppudýrunum, fjármálalífinu, Davíð og ofurhetjunum...

Ég hef sleppt því síðastliðna mánuði að tjá mig hér. Sumpart vegna þess að ég hef haft nóg að gera við að hafa ofan í mig og mína. Sumpart vegna þess að mér fannst bloggið vera búið að breytast í eitthvað vinsældalistakjaftæði sem snýst um að segja sem minnst um sem flest. Og ekki endilega sem gáfulegast.

Núna er þetta sama blogg orðið vettvangur reiðinnar sem ólgar í Íslendingum. Reiðinnar yfir því hvernig komið er, sökudólgunum, áhyggjum af framtíð sinni og sinna. Ásamt reiðinni yfir úrræðaleysi ríkisstjórnarinna, hryðjuverkaárásum forsætisráðherra bretlands á sjálfstæði okkar og virðingu. Þögn og flótta fjármálaglæframannanna sem hafa stungið af. 

Í færslu sem ég setti hér inn vildi ég skýra ríkisstjórnina Þyrnirós.

þyrnirós var að rumska. Sennilega of seint og of lítið. Það dylst engum þrátt fyrir biðraðir við nýjar verlunarmiðstöðvar að meiripartur þjóðarinnar er ekki bara uggandi um sinn hag heldur á leið á hausinn. Þó að Geir Haarde og Björgvin Sigurðsson hafi loksins sl. daga farið að sýnast vera að vinna fyrir kaupinu sínu þá er óbætanlegur skaði sinnuleysis þeirra og Seðlabankans ásamt hrokagaspri herra Oddssonar þegar orðið óyfirstíganlegt nema með blóði og svita skuldsettra ófæddra Íslendinga.

Ef þessi sannleikaskeining sem þeir boða verður raunveruleg þe. gerð heiðarlega, á enginn framsóknar- samfylkingar- sjálfstæðisþingmaður eftir að komast ósekur frá henni. Ekki frekar en fjárglæframennirnir sem blekktu bankafólkið til að blekkja innistæðueigendur í bönkunum. 

Ríkisstjórnin sem var yfir 70% meirihluta, bankakerfið með sína bullandi góðærisstarfslokasamninga, seðlabankinn með Davíð Oddsson, Halldór Blöndal og Hannes Hólmstein Gissurarson sem helstu starfsmenn eru allir með kreppuskitu upp fyrir háls.  Hér eru myndir af stjórnendum Seðlabankans. Hefur einhver þeirra verið ráðinn á FAGLEGUM forsendum?gissurarsonoddsson.jpghalldorblondalmynd_700006.jpg

 

Hvort þessi fjármálakreppa sé herra Oddssyni,  ofurhugum íslenskrar útrásar, amerískum fjármálablöffum eða gerfigjaldmiðli 300 þúsund mörlanda að kenna er nokkuð sem ég nenni ekki að velta fyrir mér.

 Veruleikinn sem blasir við mér og fjölmörgum öðrum hefur ekkert með starfslokasamninga, ofurlaun, forkaupsrétti, gjaldeyriskort og það að 200 milljarða króna eignir geti orðið að engu yfir kaffipásu. Raunar nenni ég ekki einu sinni að velta fyrir mér hvernig íslenska útrásin hefur getað blekkt umheiminn svona lengi.

 Ég nefnilega veit það að þegar þú blæst í blöðru þá þenst hún út. Meðan hún getur. Og þegar hún hættir að geta þanist út..... já þá spryngur hún.

 Þetta sem er að gerast núna er ekkert surprise. Það þarf ekki hagfræðinga til að spá til um að þetta myndi gerast. Ég er ekki einu sinni mikil stærðfræðingur. En vissi þetta. Ég ætlaði að láta hér fylgja með skýrslu frá Willam Buiter, prófessor í London School of Economics þar sem hann varr við íslenska bankakerfinu. (þar sem ég kann ekki að setja pdf skjöl hér inn tengi ég á skýrsluna hjá Láru Hönnu Einarsdóttur. Skýrslunni var stungið undir stól vegna þess hversu viðkvæmt efni hennar var. Góð grein hér hjá Láru Hönnu

Hér er einnig fyrirskipun breska fjármálaráðuneytisins um frystingu eigna Landsbankans. Það eru fullt af íslenskum útflutningsfyrirtækjum sem fá ekki gjaldeyrinn sinn heim þrátt fyrir að heyra ekki undir þessi lög. Bretar láta þetta eins og danir nefnilega yfir alla Íslendinga ganga.

 Þyrnirós fær ekki bara falleinkun. Það eiga eftir að líða áratugir áður enn almenningur treystir aftur stjórnmálamönnum, bankakerfinu, seðlabankanum og spútnik peningamönnum landsins.

Það sem gerist á næstu dögum skilur á milli manna og músa. Í augnablikinu virðist meira um mýs en menn á stjórnmálasviðinu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem er ekkert annað en bandarískur einkavæðingarhrægammur má aldrei ná tökum á þjóðinni. Frekar en rússneskir öfgamenn. Við erum þegar búin að leyfa fjármálaglæframönnum og gersamlega vanhæfum „báknið burt“ ríkisjötukjöftum koma okkur og afkvæmum okkar á kaldan klakann.

Þegar verðtryggingunni var komið á var það til að skuldsetja komandi kynslóðir til að borga skuldir Drakúlakynslóðarinnar sem í óðaverðbólgunni byggði sér hús þar sem lánin brunnu upp. Þú bara skuldaðir sem mest og græddir. þynnkan lenti á okkur. Nú eru verðbréfaglæponar að gera það sama við börnin okkar.

Við látum það ekki gerast. Þessir menn verða dregnir til ábyrgðar. Ef ekki af næstu stjórnvöldum verður það gert af almenningi. Og þá kannski eins óábyrgt og óvandað eins og í uppgjöri andspyrnuhreyfinga seinni heimstyrjaldarinnar við samverkamenn nasista.

Við erum heimsk....... en ekki svona heimsk.


mbl.is Mjög róttæk viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagra Íslandi sturtað með laxerolíu...........

Björgvin G. Sigurðsson sagði á fundi í Þingborg fyrir kosningar að eignarnám væri ekki valmöguleiki fyrir Landsvirkjun vegna virkjana í neðri-Þjórsá. Síðan þá hefur hann sem ráðherra tekið skóflustungu að nýju álveri í Helguvík.

Ef virkjanaáform Landsvirkjunar í Þjórsá ná fram að ganga verður partur af henni aumkunnarverður lækur með innan við 4% rennsli eftir. Afleiðingarnar verða skelfilegar. (Sjá greinar hér og hér).   

VG er að biðja Samfylkinguna um að standa við kosningarloforðin. Við hin sem héldum að Samfylkingin væri að meina það sem þau voru að segja erum að biðja þau um það líka.

Það eru allar líkur á því að Landsvirkjun (ríkið í ríkinu), ólöglegt framsal Títanvatnsréttindanna að Þjórsá þremur dögum fyrir síðustu þingkosningar, valdasýki Samfylkingarinnar, ólögleg eignarnám gagnvart bændum sem neita að lúta ægivaldi Landsvirkjunnar og ósveigjanleg stóriðjustefna Sjálfstæðismanna verði til þess að lækurinn Þjórsá verður að veruleika. 

Stærsti drullupollur Evrópu er orðinn að veruleika. Hann heitir Kárahnúksvirkjun. Stærsti þjóðgarður Evrópu við Vatnajökul felur ekki þennan drullupoll. Sagan á eftir að dæma og ef þessir þröngsýnu fáráðlingar sem vilja virkja allt fá að ráða þá eiga Evrópubúar bara eftir að segja eitt við okkur: Af hverju? Þið sáuð hverju við klúðruðum. Af hverju að endurtaka það?

Það er greinilegt að með stjórnarsamstarfinu hafa Samfylkingarmenn fengið laxerandi. Miðað við hvað þeir eru happý með gang mála. 

Kínverjar opna 2 ný kolakúin raforkuver í hverri viku og það að halda það að gera Þjórsá að læk breyti einhverju um gang mála á alþjóðlegum grundvelli er svona eins og þegar utanríkisráðherra heldur að hérlendar sviða- og hvalspiksætur eigi raunhæfan möguleika á að stilla til friðar milli ísraela og Palestínumanna.

Óendurunnið ál Bandaríkjanna sem vilja ekki endurvinnslu dósa nægir í fimmfaldan þann flugflota sem smíðaður er árlega.  Svona mætti lengi telja. Náttúruverndarsinnar hafa það til síns máls og á eftir að sannast að hrein náttúra, hreint loft og hreint vatn verða mestu auðlindir framtíðarinnar. Og þá verður dýrt að hafa selt þetta á spottprís.

Ég mæli með því að fólk fari á tónleika næsta laugardag. Láti veruleikafyrrtu valdasjúklingana vita að við séum ekki sátt. Forstjórar og framkvæmdastjórar sem standa sig ekki eru reknir. Við sitjum uppi með vanhæft lið í 4 ár.

 


mbl.is VG: Vilja bjarga Þjórsá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þyrnirós skal þessi ríkisstjórn heita.......

Undangengnar ríkisstjórnir hafa flestar fengið á sig nafn eins og Viðeyjarstjórnin, Stefanía, Hágengisstjórnin, Fullveldisstjórnin, Stjórn hinna vinnandi stétta, Ólafía I og II, Nýsköpunarstjórnin, Viðreisnarstjórnin, Einkavæðingarstjórnin (ríkisstjórnir Davíðs Oddsonar).

Það hefur enginn hingað til nefnt þessa ríkisstjórn þannig að ég ætla að koma með tillögu: Þyrnirós! 

Af hverju?  Hefur einhver ríkisstjórn landsins til þessa verið í jafn föstum blundi meðan yfir landið ganga eins margbreytilegir erfiðleikar eins og nú?

Jarðskjálftarnir fyrir austan voru afgreiddir þannig að daginn eftir að forsetinn skoðaði skjálftasvæðið sáu Solla og  Geiri sig tilneydd til að kíkja líka og láta taka af sér myndir til sönnunar um að þau væru með í málunum. Þetta var fjölmiðlaferð fólks sem skiptir meira máli að vera í fréttum fyrir að vera en fyrir að gera.

Viðskiptaráðherra sem hingað til hefur eytt tíma sínum í að afnema hálft stimpilgjald hjá fólki sem getur ekki keypt íbúðir hefur ákveðið að sjálfsábyrgð fólks á tjónasvæðinu sé of há og þurfi að breyta. En bara þar sem skaðinn varð núna. Þetta heitir þröngsýni.

 Lausafjárvandinn er í nefnd og Seðlabankinn hækkar vexti þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að raunveruleikatenging hans við íslenskan veruleika sé finnanlegur. Ekki einu sinni í nákvæmustu smásjám íslenskrar erfðagreiningar.

Samgönguráðherra  er í tómu tjóni með að réttlæta jarðgöng um Séstvallavíkur sem þingmenn hafa fengið í gegn til að halda sér á þingi. Vegakerfið er á sama tíma sprungið og flutningabílum kennt um. Ekki heimskulegum ákvörðunum.

Heilbrigðisráðherra er á fullu við að einkavæða heilsu landsmanna og sér mörg sóknarfæri í stöðunni. Innan skamms verða fjárhagslega óhagkvæmir sjúklingar sendir til  læknadeildar Háskólans sem æfingaverkefni.

Umhverfisráðherra stamar út úr sér að henni finnist miður að ráða minna en gráðugir sveitastjórnarmenn sem fá betra gsm samband frá Landsvirkjun gegn afhendingu náttúrunnar. Og hefur svo ekkert meira um málið að segja.

Fjármálaráðherra ræður glottandi vildarvini frjálshyggjunar í dómarastöður með hliðsjón af því að hafa vandlega farið yfir hæfni þeirri meðan hann borðaði Cheriósið sitt.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilar veiðar á óseljanlegum hval. Samþykkir ósamrýmanlega Ýsu- og Þorskkvóta og hlustar á ráðgjafa sem hafa haft áratugi til að sanna mál sitt með því einu að ráðgjöfin skilar minni og minni þorskafla. Ef þessir menn væru ekki opinberir starfsmenn væri búið að henda þeim. Út á hafsauga.

Iðnaðarráðherra er í stjórnarandstöðu. Eftir kl. 20.00 á kvöldin. Þess utan reynir hann að sópa "Fagra Íslandi" Samfylkingarinnar undir teppið með "vistvænum tölvubúum" sem réttlætingu virkjanaæðis Álhausanna.

 Utanríkisráðherra er erlendis á sinni einkaþotu að kenna Ísraelum og Palestínumönnum að vera góðir við hvern annan um leið og hún sannfærir þjóðir heimsins um að torfkofabörnin sem fóru frá súrmeti og sviðahausum í Mcdonalds og Kentucy Fried á sekúndum séu réttu aðilarnir til að stilla til friðar í heiminum. Hún þvælist allavega ekki fyrir Sjálfstæðisflokknum meðan hún er í þessum óraunveruleikaleik.

 Forsætisráðherra er brosandi úti á túni. Já, já, það eru erfiðleikar en þjóðin hefur áður gengið í gegnum þá. Olíuverð, matarokrið, gengisfelling krónunnar, frysting fasteignamarkaðarins og gjaldþrot einstaklinga eru afgreidd með brosi og því að bráðum komi betri tíð með blóm í haga.

Dómsmálaráðherra heldur sínu striki og stofnar leyniheri, varalið og  aukaextralandhelgisgæslu út og suður ásamt því að gera björgunarsveitamenn að herliðum. Ísland SKAL hafa menn til að verja eða fela gjörðir föður hans og það sem hann sjálfur kann að gera í framtíðinni. Eða til að berja á náttúruverndarsinnum sem virðast vera Talibanar Íslands skv. skilgreiningum Sjálfsöluflokksins.

Menntamálaráðherra hefur hæst látið í sér heyra við að réttlæta greind fjármálaráðherra við bittlingaúthlutun.  Sem er synd. Virðist klár og jarðbundin en greinilega múlbundin af flokkssvipunni. Kemur örugglega með frumvarp um að bjóða menntunina út. Og nýstofnað fyrirtæki flokkssystkynanna hlýtur hnossið í boði fjármálaráðherra sem fékk sér Cherios aftur.

Félagsmálaráðherra er eins og vin í eyðimörk. Það er hægt að svala sér á því að hún sé að meina það sem hún segir. Og berst fyrir því. Sleikjuháttur samflokks hennar við völd og embætti gera hana þó að hjáróma rödd.

Já tilveran er dásamleg. Hjá einhverjum. 

 

 

 


4 milljónir í verðlagseftirlit - 100 milljónir í tindátaleik......

Ég hef svo sem haft ýmsar skoðanir á ríkisstjórnum þessa lands gengum tíðina en þessi er sú fyrsta sem ég skil ekki. Með allan þennan meirihluta bak við sig myndi maður ætla að upp væri runninn tími stórra skrefa og djarfra ákvarðana. Tími sem endurspeglaði væntingar kjósenda Sjálfstæðis- og Samfylkingarmanna. Nýir tímar í íslenskum stjórnmálum þar sem samhugur meirihluta þjóðarinnar og þeirra sem hún kaus yrðu í sögunni minnismerki frábærrar stjórnar sem léti eftir sig mörg merkileg þjóðþrifaverk.

En nei. Ríkisstjórnin er á tali. Næst ekki í hana. Er erlendis. Útaf einhverju mjög mikilvægu. Utanríkisráðherra ætlar nefnilega að verða eins og Gandhi, King, móðir Theresa og Mandela til samans fyrir hönd þjóðarinnar. Herra Haarde er líka að reyna að sýna að hann þekki jafn marga merkilega menn og forsetinn. Restin af ríkisstjórninni er í tómu tjóni með hvort þau séu að koma eða fara. Og tala eins og borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík. Út og suður. Norður og niður en voru öll sammála.

Það er ekkert að gerast hjá þessari ríkisstjórn sem lýtur að hag landsmanna. Hörmungunum sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir  var mætt með 4 milljón króna framlagi í AUKIÐ VERÐLAGSEFTIRLIT!

Á sama tíma eru franskir þotuflugmenn að spóka sig um miðbæ Reykjavíkur. Þeir tóku þoturnar með sér og íslenska ríkið leggur út 100 MILLJÓNIR til að þeir geti djammað hér í 6 vikur. Eða er ég að misskilja eitthvað? Á landið yfir höfði sér innrás? Loftárás? 

Hvað er hægt að gera við 100 milljónir annað en að vera í tindátaleik eða kaupa pláss fyrir sendiráð í Tókíó?  

Það er hægt að minnka biðlista dauðvona fólks í aðgerðir. Það er hægt að koma í veg fyrir að öldruð hjón séu aðskilin og þurfi að búa með ókunnum í herbergi. Það er hægt að finna ótrúlega margt þarfara. Og þá er ég ekki að meina að einhver ráðherranefna geti látið bora í gegnum fjall við Séstvallavík til að hljóta endurkjör.

Það er td. hugmynd að fara eftir kosningarloforðum þessara flokka og EFNA ÞAU sem virðist ekki vera ofarlega í huga sveimhuga ráðherra í útlöndum.

Fyrir Samfylkinguna heitir eitt þeirra „Fagra Ísland“ og sum okkar muna enn eftir því meðan glottandi forstjóri Landsvirkjunar segir ekki tímabært að ræða eignarnám vegna Urriðafossvirkjunar. Nokkurs sem ráðherrar Samfylkingarinnar hafa sagt að kæmi aldrei til greina. Og Dagfinnur dýralæknir í fjármálaráðuneytinu sagði á fundi á Þingeyri að væri ekki raunhæft að ræða. Fyrst þyrfti að finna kaupendur af orkunni.  

Er fólk í stjórnmálum til þess að geta sent kjósendum sínum puttann?  Ég bara spyr?


Þolir Landsvirkjun ekki eigin meðöl?????

Það er aumt þegar svona ósvífið fyrirtæki eins og Landsvirkjun sem í áróðri sínum og þvingunartilraunum(1) skælir undan því að fá ekki að stjórna umræðunni einhliða.  Níu af tíu landeigendum austan við Þjórsá hafa sagt AÐ ÞEIR ÆTLI EKKI AÐ SEMJA VIÐ LANDSVIRKJUN! Landsvirkjun lætur eins og það sé ekki einu sinni vandamál enda hafa þeir alltaf fengið sínu fram. Meira en helmingur kosningabærra manna í Flóahrepp ERU Á MÓTI URRIÐAFOSSVIRKJUNINNI. Það skiptir Landsvirkjun engu máli. 75.000 tonnum af jökulleir eða stóru fjalli verður dælt upp úr lóninu á hverju ári sem mun skapa mikið sandfok. Landsvirkjun áréttar að virkjunin hafi STAÐIST umhverfismat.

Núna eru þeir í fýlu af því að fólk er að koma saman og ræða þessi mál án þess að þeir fái að stjórna því hvað verður ofan á.

Ég tók saman greinar um þessar virkjanir á sínum tíma og kynnti mér allar skýrslur Landsvirkjunar. Þær eru það hriplekar, aðallega af upplýsingaleysi að í hverju siðmenntuðu landi hefðu þær verið sendar til föðurhúsanna og beðið um að þær yrðu KLÁRAÐAR áður en tekið yrði mark á þeim. Þannig var td. jarðfræðiskýrsla um áhrif virkjananna 5 BLAÐSÍÐUR! Og dugðu til að koma virkjununum gegnum umhverfismat þrátt fyrir að í þeim stæði að rannsaka þyrfti svæðið betur!!

Greinarnar eru hér: Lækjarsprænan Þjórsá og vald Landsvirkjunar

Lækurinn Þjórsá - Um kunnáttu þrastarins í japanskri Kamakazi hernaðarflugtækni 

 Hér er önnur um vinnubrögð Landsvirkjunnar á Kárahnjúkasvæðinu: 

en fólk getur leitað skjóls í trjám.......... 

 

Nokkrar góðar frá Ingibjörgu Elsu Björnsdóttir jarð-og umhverfisfræðing:

Varasöm jarðfræði við Þjórsá

Vatnsmesti foss Íslands hverfur

Nokkrar athugasemdir vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár

 Svo mæli ég með að fólk kynni sér málin á Þjórsá.com

 
1. „það verður engin raforka fyrir netþjónabú nema við fáum að virkja í neðri-Þjórsá“.


mbl.is Landsvirkjun gagnrýnir fræðaþing um Urriðafossvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var óumflýjanlegt að höggva mann og annan....

Nýi lögreglustjórinn okkar birtist mér skelleggur sl. sumar þar sem ég lagði ólöglega við Laugarveginn og tilkynnti mér að ég væri að brjóta lögin. Þurfti nauðsynlega að skila af mér timbri utan löglegs tíma.

Ekki það að gáfnafar mitt sé takmarkaðra en svo að ég vissi upp á mig skömmina en mér fannst það að yfirpáfuglinn væri á vappi í miðbænum vera merki um breytta og væntanlega betri tíma.

Til þessa hafa þessir breyttu tímar og áherslur aðallega snúist um að ónáða fólk í hlandspreng.

Óumflýjanleiki þess að lögruglan gerði sig almennt að athlægi við Rauðavatn er aftur annað sem ég á erfitt með að skilja. Td. af hverju menn mættu vopnaðir piparúða sem var greinilega ekki búið að segja víkingunum að væri úði en ekki gas, hjálmum, skjöldum og kylfum. Við mótmæli vörubílstjóra!

Lögreglustjóri sem ég hingað til hef haldið  skynsaman og vel gefinn lætur út úr sér í drottningarviðtali við 24stundir: „Menn mættu vopnum búnir, tilbúnir að takast á við lögregluna MEÐ ÚÐABRÚSA OG KVEIKJARA!!!!!

Ef að menn eins og sá sem þetta mælir og sá sem æpir gas, gas, gas þegar hann spreyjar PIPARÚÐA eru uppistaðan í Lögruglu höfuðborgarsvæðisins er spurning hvort það ætti ekki að skera fjárveitingar til hennar niður um ca. 110%?

Og ef að þessir sömu hugsuðir hugsa eins og ályktun lögruglumanna  um daginn um að rafbyssur séu nauðsynlegasta tæki dagsins í dag til löggæslu já þá erum við í vondum málum. Ég vil ekki vita af rafbyssu í höndunum á Gasboy. Raunar ekki neinum af þessum mönnum.

Ég geri mér alveg grein fyrir að það að hafa afskipti af dauðadrukkinni ofbeldisfullri amfetamínætu á sinni 20-30 klukkustunda neyslu er ekki  árennilegt. Eða erlendum glæpahópum sem virðast vera að koma sér fyrir hér. Oft með þjálfuðum fyrrverandi hermönnum innan sinna raða. Ég hef fulla samúð með lögreglunni fyrir sumt af því sem þetta fólk þarf að upplifa og ganga í gegnum. Nokkuð sem ég væri aldrei til í.

En það réttlætir ekki rafbyssur sem hafa hingað til verið valdar af tugum ef ekki hundruðum mannsláta auk þess að lögreglan í Bandaríkjunum hefur orðið uppvís um að nota þessar byssur sem pyntingartæki. Það er ekkert sem segir að íslenskar lögruglur með stuttan þráð geri ekki það sama. Öðru eins hef ég orðið vitni af.

Það er samt skyldleiki og tengsl innan lögreglunnar og dómsmálaráðuneytisins við 24stundir og Morgunblaðið sem mér finnst athyglisverðast við drottningarviðtalið við Stefán. Ef að fólk gæfi sér tíma í að kynna sér þetta sést samhent klíka. Og ef að Stefán fékk ekki símtal frá Birni Bjarnasyni um hvernig hann ætti að bregðast við Sturlu og félögum þá er það af því að hann vissi alveg til hvers væri ætlast af honum.

 Svo er hlutur fjölmiðla athyglisverður í þessu samhengi. Eigum við að trúa fjölmiðlum sem sprikla eftir handriti lögruglunnar?  Sérpöntuð drottningarviðtöl eins og 24stunda við Stefán, tök dómsmálaráðherra á Morgunblaðinu og 24stundum og aumingjaskapur þessarra fjölmiðla og 365 miðlanna við að taka afstöðu í málunum og upplýsa, gera þessa miðla jafntrúverðuga og Samfylkinguna í umhverfismálum. 

Hvað er þá eftir af heiðarlegum hlutlausum fréttaflutningi?  RÚV? Jamm..... líklegt.

Einn vinur minn varð vitni af aðgerðum lögreglunnar við Rauðavatn. Þekkir 3 af lögreglumönnunum sem þar voru. Þeir fullyrða að þetta hafi verið nauðsynlegt. Enda var þeim sagt það. Vinur minn sá engan byrja þetta. Annan en lögrugluna. 


mbl.is Það sem gerðist var óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband