Kvenmannsveskið - þetta hræðilega, hræðilega svarthol.......

Jú, það er í veskinu mínu segir konan. Það sprettur út á mér kaldur angistarsviti sem á augabragði er búinn að breyta bolnum mínum í óundna skúringartusku. Kalda.

Í veskinu!

Ég verð að fara í VESKIÐ! Handtöskuna hennar!!! 

Ég tek það fram að ég hef ekki verið talinn kveif síðan ég komst til manns en hvert einasta mannsbarn á sín mörk. Að vera á sjó í kolvitlausu veðri, klífa fjöll, vinna erfiðisvinnu í 2 og hálfan sólarhring samfleytt. Verða fyrir alvarlegum áföllum, slysi. Missa næstum löpp, slíta framan af fingri. Skilja, missa ástvini.

Já já ég hef upplifað þetta og það er sagt að tíminn lækni öll sár. Eg er ekki endilega sammála því en það sem ég er að reyna að segja er að ég get tekist á við ýmislegt og sumt mjög erfitt.

En ekki kvenmannsveski.

Fyrir það fyrsta þá eiga konur aldrei OF MIKIÐ að veskjum og ef þú heldur að veskið sem var svo flott fyrir 3 mánuðum síðan sé enn málið ertu fáviti.

Í öðru lagi þá eru þessar skjóður sem fyrir þér eru bara pokar fyrir drasl viðkvæmur hlutur fyrir konur. Sko gagnvart öðrum konum. Þær vita alveg að þú hefur ekki hundsvit á kvenmannsveskjum. Og ef þú hefur það ertu bara vinkona.

Kvenmannsveski geta verið á alla vegu og ég veit ekki hvort það sé árstíðarbundið trend eða bara kemur og fer með minipilsum eða hvaða litir eru í tísku hverju sinni en sum kvenmannsveski finnst mér bara flott og önnur ekki.

En þessi grein fjallar ekki um það. Hún fjallar um þessar ógnvekjandi stundir þar sem okkur karlmönnunum er sagt að EITTHVAÐ sé bara í VESKINU!

Eitthvað sem við þurfum að sækja ÞANGAÐ!

Það gætu verið verkjatöflur, lyklar, sólarvörn, varasalvi, farsími (sem er samt gott af því að það er hægt að hringja um leið og maður leitar).

Engum karlmanni sem hefur verið sagt að það sé „bara í veskinu“  kæmi á óvart þó að hann myndi finna gamla myndaalbúmið úr brúðkaupinu sínu þar. Eða ársbókhald fjölskyldunnar með athugasemdum endurskoðandans. Eða varadekkið af bílnum sem þið selduð í fyrra.

„Það er í veskinu“ er ógnvænleg setning......  Samt er konan bara að meina veskið sem er í notkun núna. Ekki hin 52.

En hræðsla okkar karlanna sem væntanlega fær enga samúð þeirra kvenna sem gætu lesið þetta blogg á sér skýringu.

Við erum hræddir. Eiginlega skíthræddir!

Ef að kona getur verið með lyfjaskáp fjölskyldunnar, skó til skiptanna, varadekkið af bílnum, extra ábreiðu ef það skyldu koma gestir, afganginn af hádegismatnum, snyrtidótið, sokkabuxur, hárbursta og blásara, ársskýrslu fyrirtækisins og sólarvörn númer 2+4+6+12+36 auk sólarbrunakrems þe. before and after burn í einni skjóðu, hvað verður um okkur við að teygja handlegginn þarna niður?

Við gætum týnst ekki satt?

Og það er alveg óvíst hvort við gætum fundið yfirborðið aftur áður en veskið er komið úr tísku.

Mér finnst að konur sem lesa þetta ættu að hafa það í huga. Ef mennirnir þeirra skila sér ekki heim væri gott ráð að hvolfa úr gamla veskinu og skoða.....

....sko ef þær vilja fá þá aftur heim.

Konan mín bjargaði þessu að vísu alveg gagnvart mér. Ég er með GPS staðsetningartæki á mér og fer brosandi í veskið hennar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Góður  Gleðileg jól bæði tvö!

Valgerður Halldórsdóttir, 21.12.2007 kl. 22:40

2 Smámynd: Helga

Hvaða hvaða, þetta er svo hentugt. Enda erum við oftast með það sem ykkur strákana vantar ... í veskjunum okkar!

En gleðileg jól til ykkar beggja, hittumst vonandi hress og kát áður er langt um líður.

kv. Helga

Helga, 22.12.2007 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband