Er ég hálfviti? Lítil saga af smíðum.

Fyrir ári síðan sat ég fyrir framan tölvu og hannaði auglýsingar laus við þessa vosbúð og aðbúnað sem ég þar til nú hafði hingað til aðeins kynnst á sjó. Ég hafði að miklu leiti ráðið hvenær ég vann, ráðið kaffipásu, ráðið hvað ég tók að mér. Verið minn eigin herra. Að ég hélt.

Ég ligg á hnjánum við járnabindingar og frostið sem skellur á mér er hætt að trufla vinnuna. Mér svíður í kinnarnar eftir 16 klst. vinnu í yfir 30 m/sek. vind allan tímann. Stundum með hríðarbyl, stundum rigningu og stundum stuttum stillum. Sem eru alger guðsgjöf eftir að hafa henst um í rokinu ekki verandi fær um að fóta sig vegna þess. Hnén voru byrjuð að kvarta kl. 10 um morguninn enda dagurinn á undan hreint helvíti þar sem ég bograði á hnjánum og batt saman járn og nelgdi mót í 15 klst. Jaxlinn sem við vinnum hjá  lét sér fátt um finnast og ítrekaði að við þyrftum að klára. Kl. átta á morgun yrði steypubíll kominn og grunnarnir yrðu allir að vera tilbúnir fyrir steypu.

Við lögðum af stað á mánudagsmorgun í Borgarnes nánar tiltekið Fossatún þar sem við ætluðum að slá upp sökklum fyrir 3 sumarhús sem verkkaupinn hafði ráðið okkur í. Veðurspáin var að vísu ekki mjög hagstæð og frostið þennan dag auk væntanlegs storms ekki uppörvandi. Við komuna beið okkar Bensvörubíll frá fyrri hluta síðustu aldar og vinnuskúr á hjólum. Á palli vörubílsins var efnið í sökklana. Efnið sem átti að vera tilbúið og flokkað á hverjum byggingastað. Krani bílsins var í stíl við hann og virkaði eftir geðþótta. Sem var mestmegin þannig að virka ekki. Þannig að fyrstu klukkutímarnir fóru í burð og umstöflun á timbri og járni eða allt annað en smíðar.

Klukkan 2 vorum við farnir að urra af hungri en verkkaupinn var ekki alveg klár með gistingu og hvar við áttum að nærast og þessi "hádegismatur" endaði sem 2 kaldar pulsur á mann í Reykholti. Ég lofaði mér því að ef það yrði framhald á þessu mataræði væri ég farinn og sennilega hafa fleiri hugsað þannig. En þetta var skárra en ekkert og haldið áfram að vinna.

Ég fór með verkkaupanum að skoða gististaðinn. Fallegt fjögurra herbergja veiðihús. Innandyra beið okkar minnst 2ja vikna óhreint leirtau og tvö herbergi upptekin. Þarna gistu 3 pólskir smiðir. Átti ég að samþykkja þessa gistingu með okkur 6 í 2 herbergjum auk pólverjanna í 60m2 veiðihúsi? Nei ekki að ræða það og landeigandinn studdi mig. Það var hringt um alla sveit og reynt að redda gistingu fyrir 6 smiði. Í síðustu dagsskímunni skoðaði ég 3ja herbergja sumarbústað sem var ákveðið að láta duga þrátt fyrir að kyndingin væri í ólagi. Til að fullkomna daginn brunaði verkkaupinn með allan matinn sem var keyptur fyrir kvöldið með sér í bæinn. Hann var svo veðurhræddur að það komst ekkert annað að en að komast sem fyrst frá þessu veðravíti.

Á byggingarstað fyrsta bústaðarins var veðrið orðið svo vitlaust að það var ekki um neitt að ræða annað en að fergja timbrið og hætta.  

Morguninn eftir byrjaði með morgunmat á bæ sem fæðir litháana, lettana, ungverjana, pólverjana og okkur íslendingana sem vinna við bústaðina í nágrenninu. Matseljan var ekki alveg að trúa því að vera með svona hóp sem væru ALLIR íslendingar enda orðið jafnsjaldgæft og rjúpa á jólaborði.

Rok, rigning og slydda í bland við frost er ekki  draumaveðrið til að vinna við smíðar í. Sérstaklega ekki þegar gallinn þinn og föt eru orðin gegnblaut.  Með vinnuskúr sem er bara upphitaður í stuttan tíma í einu til að spara bensín og bústað eingöngu með geislahitun eru ekki mörg ráð til að þurrka vinnugallann og rakur galli að morgni er eitthvað sem manni langar ekki að klæðast.

En við vorum í kapphlaupi við tímann og veðrið. Það var tekinn hádegismatur en kaffitímarnir voru stuttir enda dagsbirtan dýrmæt á þessum árstíma. Rúmlega fjögur er hún horfin og við taka vinnuljósin. Í myrkrinu heyri ég hamarshöggin frá næsta byggingarstað meðan ég og tveir aðrir vinnum við járnabindingu þess fyrsta. Blautur í fæturnar í blautum galla með 3ja parið af vettlingum orðið blautt á höndunum er aðeins eitt sem maður getur gert. Unnið sér til hita. Bara djöflast áfram. En það að vinna á hnjánum þrátt fyrir hnépúða er erfitt og 15-16 tímar af því er martröð.  Myrkrið sem umlykur mann og kyrrðin ásamt stjörnunum þrátt fyrir veðurofsan og hamarshöggin  gera upplifunina svolítið sérstaka.

Þarna í myrkrinu og kuldanum með slydduna lemjandi á andlitinu á mér hugsaði ég einmitt: "Hvern djöfulinn er ég að gera hér"!

En svarið er mjög einfalt: Ég vil þetta og líkamlega þreytu ásamt sjáanlegri sönnun fyrir mínu verki frekar en daga þar sem ég var andlega örþreytttur og vissi varla hvað ég hefði afkastað yfir daginn.  

Miðvikudagurinn varð 17 tíma törn en við náðum að komast nánast á áætlun. Með því að sleppa kvöldmat og stoppa aldrei.  Rúmlega ellefu um kvöldið var farið að taka saman. Jaxlinn var tiltölulega ánægður. Þetta myndi sleppa.

Matseljan hafði verið svo væn kvöldinu áður að hengja kvöldmatinn okkar á hurðarhúninn. 3 kalda kjúklinga sem voru étnir þá kl. 12 um kvöldið. Þetta kvöld þegar við komum heim lá kvöldmaturinn okkar við dyrnar. Með um 10% af honum horfinn og um 300 músaskíta yfir restina auk þess að þurfa að hasta á mýsnar til að koma þeim ofan af matnum var það nokkuð sjálfgefið að okkur langaði ekki í rest.

Daginn eftir steyptum við 2 sökkla. Steypumenn neituðu að reyna að athafna sig við þann þriðja enda háspennumastur yfir honum. Um nóttina hafði aftur gert vitlaust veður og þakplötur á bústað rétt hjá okkur voru lausar. Frauðplast sem hafði verið frosið í yfir 10 cm. klaka og með nokkra stóra steina ofan á var dreift um sveitina. Fáni byggingaraðila í tætlum. Vinnuskúrinn okkar stóð enn enda bundinn við Bensinn frá síðustu öld.

Núna eigum við bara 6 sökkla eftir og 9 sumarbústaði......... 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Góða kvöldið Ævar, góð saga hjá þér, ekki er þetta nauðungarvinna er það? Hvers vegna ertu í þessari vinnu ef þú ert í henni en þá? Kær kveðja frá Eyjunni fögru.

Helgi Þór Gunnarsson, 16.12.2007 kl. 21:41

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ég held að þú vitir það manna best verandi í þinni vinnu!

Ævar Rafn Kjartansson, 17.12.2007 kl. 00:31

3 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Eins og sonur minn unglingurinn orðaði svo heppilega um fólk sem stundar svona vinnu eins og þú: "Þetta eru einu alvöru hetjurnar á Íslandi sem höndla að vinna úti við svona aðstæður."

Birgitta Jónsdóttir, 17.12.2007 kl. 10:04

4 Smámynd: Birgir Guðjónsson

Sæll Ævar,

Góð lýsing, ég fékk löngun í heitt kakó eftir lesturinn.   Samt sem áður,  held ég,  að engin börn komi undir í þessari sveit næsta sumar !!!

Birgir Guðjónsson, 20.12.2007 kl. 00:20

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Svona er að vera alvöru maður...

En henda fínum músarlegnum kjúlla ?

Ertu svona mikill matgikkur, girlí ?

Steingrímur Helgason, 20.12.2007 kl. 23:49

6 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Neiiiiiiiii kjúllinn slapp....... þetta voru innnagaðar fiskibollur með 300 músískum kryddslaufum.

Ævar Rafn Kjartansson, 21.12.2007 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.