Á einhver til myndir af ungabörnum?

Það er mér nokkuð áhugamál að fá að sjá mynd af þessu fyrirbæri sem ég hef aldrei hitt þrátt fyrir mikla viðleitni. Annar hver fréttamaður á Íslandi hefur hitt eða skrifað um fyrirbærið og þess vegna ættu að vera til myndir af því. Ef einhver vildi vera svo væn/n og leyfa mér að upplifa að sjá þó ekki væri nema eina óskýra mynd af ungabarni yrði ég ákaflega glaður og skiptir þá engu þó hún sé eins óljós og myndirnar af Loch Ness skrýmslinu eða fljúgandi furðuhlutum. ungabarn

Ég hef sjálfur kynnst fyrirbærinu ungbarn frá fyrstu hendi og haft mikla ánægju og gleði af þeim kynnum. Ég á meira að segja til mynd af einu slíku sem fylgir hér með. Þess utan er ég faðir tveggja slíkra fyrirbrigða en það er allt önnur saga.  

Svo er það annað mál að það er enginn læknir á Íslandi titlaður "Ungabarnalæknir". Það eru ekki til ungabarnaföt osvfrv.

ungabarn2

Þegar blaða- og fréttamenn landsins eru búnir að smita þessa málvillu svona rækilega inn í þjóðina finnst mér vera kominn tími til að prófarkalesarar og málfarsráðunautar fái aftur atvinnu á fjölmiðlum. Ef þeir eru þar þarf greinilega að skipta þeim út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já, þetta eru greinilega ungabörn. En án gamans þá er þessi orðmynd afar gömul. Ég þekkti konu sem var fædd 1893 og hún talaði um ungabörn. Annars er málfar okkar ágætu þjóðar oft farið að minna á dönsku innflytjendurna, ég þekkti nokkra í æsku minni. Þeir töluðu hvorki dönsku né íslensku en hæfilega blöndu af hvorutveggja sem oft var unun á að hlýða. Stefán fréttamaður segir frá einum sem hann þekkti á Djúpavogi. Sá var svo heiðarlegur að hann harðneitaði að selja fátækum barnamanni stígvél því hann sagðist ekki eiga nein almennileg til að selja honum og ráðlagði að kaupa þau heldur í Kaupfélaginu. Hinn átti þá ekki fyrir þeim en sá danski lánaði honum þá bara aurana svo hann gæti keypt. Stefán sagði að þessi maður hefði talað þessa yndislegu blöndu tungumálanna tveggja. 'Astæðan sagði hann að hefði áreiðanlega verið sú að honum hefði fundist vera búið að ljúga svo miklu á báðum þessum tungum að hann hefði bara ekki haft geð í sér til að nota þau.

En um fimmleytið í dag sleit ég hásin í hægri fætinum. Það ætti enginn maður að gera, þú mátt bera mig fyrir því. Ég lét aka mér upp á Bráðamóttöku til að meira bæri þó á þessu. Þar hitti ég fyrir yndislegan kvenlækni sem skoðaði á mér löppina og spurði meðal annars: "Gerist svona lagað oft fyrir þig?"

Með hásinarkveðju! 

Árni Gunnarsson, 14.5.2007 kl. 21:46

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Þú átt alla mína samúð! Ekki bara út af hásininni heldur líka því að fara á Bráðamóttökuna. Ég var nokkuð reglulegur gestur þar sem púki og man alltaf eftir einu skipti þar sem ég beið eftir að komast að. Það kom maður út frá þeim og ég hafði séð þegar hann fór inn. Búinn að missa mikið blóð með opið beinbrot í handlegg. Þegar hann kom út og riðaði, við að missa meðvitund snerist þetta hjá konunni í afgreiðslunni bara um að hann kláraði að borga áður en liði yfir hann. Honum tókst að borga og hné svo niður til þess eins að vera trillað inn aftur. Þetta var áður en heilbrigðiskerfið rukkaði þig fyrir að hósta. Það endaði með því að ég lét mömmu taka saumana úr mér frekar en koma aftur.

En svona til að hífa móralinn upp hjá þér á ég nokkrar setningar úr sjúkraskýrslum. Auðvitað dagsannar: 

Sjúklingur hefur átt við gott heilsufar að stríða.....

Sjúklingur hefur skilið hvítu blóðkornin á öðrum spítala....

Sjúklingur hefur verið niðurdreginn alveg síðan hann byrjaði að hitta mig....

Sjúklingur er tilfinningalaus frá tá og niðrúr.......

Sjúklingur fékk sér vöflur í morgunmat, var kominn með lystarsol í hádeginu..

Sjúklingur er fertug, að öðru leiti ekkert athugavert

 Á öðrum degi var hnéð betra og þriðja alveg horfið..........

Þannig að þú skilur að um fullkomlega eðlilega spurningu var að ræða.

Góðan bata! 

Ævar Rafn Kjartansson, 14.5.2007 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.