Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skilja bara útlendingar glæpinn?

Auðvita eru bretar að rannsaka bankaglæpamennina. Þeir tala við fyrrverandi starfsmenn viðskiptavini og fjárfesta. Hér á Íslandi eru glæpamennirnir beðnir um að kíkja í kaffi þegar þeim hentar til að spjalla um málið og útskýra sína hlið. Svo verður gefin út þykk og útbelgd skýrsla með lokaniðurstöðunni að þeir hafi farið óvarlega og þetta megi ekki koma fyrir aftur. Hins vegar sé ekki nægilega skýr lagaákvæði til að ákæra. Amen.

Kæmi mér ekki á óvart að breskir sérsveitarmenn yrðu sendir til að sækja siðleysingjana.


mbl.is Rannsaka íslensku bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við að koma saman upp um þá?

Öll vitum við sem erum núna að fá reikninginn fyrir ótrúlegt sukk siðlausra manna að atferli þeirra gat ekk viðgengist nema með samleik jafnsiðlausra pólitíkusa og embættismanna. Embættismanna sem var plantað í áhrifaríkar stöður ekki útfrá kunnáttu og menntun heldur flokkshollystu og ættartengslum. Okkur er sagt að reikningurinn vegna aðgerða flokksgæðinganna sé okkar að greiða. Kurteisislega.

Okkur er vinsamlega bent á það að fáir fjármálaspekúlantar sem náðu að gera fjármálagjerninga sína á kostnað þjóðarinnar hafi skitið á sig. Og það sé okkar að skeina þá. Íslensk stjórnvöld virðast ætla að kyngja þessarri skilgreiningu burtséð frá ólyktinni en er ekki að skilja að almenningur er ekki til í að skrifa undir ólyktina. Þar kemur tvennt til. Annars vegar sanngirnissjónarmið og hins vegar þjóðarstolt gagnvart nauðarsamningum við þjóðir sem eru þekktar fyrir að þvinga aðrar þjóðir.

Vantraustið á embættis- og stjórnmálakerfi landsins er algert. Þannig hafa fáir trú á að rannsóknir sérstaks saksóknara og sannleikanefndar verði neitt annað en allra nauðsynlegasta yfirklór.  Það sagði mér manneskja sem þekkir til starfssemi utanríkisþjónustu Íslands að flestir þeir sem ráðnir væru í störf ma. við mannúðarmál væru dætur og synir embættis- og stjórnmálamanna sem yrðu þannig áskrifendur að launum án þess að gera handtak. Eins hefur verið gagnrýnt að stuttbuxnasjálfstæðismenn hafi sjálfkrafa getað gengið inn í Landsbankann í notarlegt starfsöryggi. Kannski sem partur af greiðslu fyrir bankann? 

Þetta sem ég skrifa hér að ofan eru ekkert annað en dylgjur. Eins og Er. En er ekki hægt að breyta því og komast að hinu sanna? Er ekki til fólk sem hefur aðstöðu, nokkurn afgangstíma og hæfileikana til að raða saman púslunum í púsluspilinu Spilling á Ísland? 

Nú þegar hafa Lára Hanna Einarsdóttir, Hvítbók, Tíðarandinn og Eyjan ásamt fleirum birt mikið magn upplýsinga sem hægt er að vinna upp úr. En það þarf að tengja það saman og raða upp.  Ég er ekki að mæla með neinum nornaveiðum einfaldlega leggja til að almenningur í landinu framkvæmi sína eigin rannsókn og birti það sem út úr henni kemur.  Þeir sem hafa eitthvað að leggja til bendi ég á netfangið hrun2008@gmail.com.


mbl.is Danir æfir yfir lekanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru landráð verðlaunuð með Fálkaorðu?

Því miður sýnist mér sem svo að Iceslave samningurinn sé okkar eini kostur en velti fyrir mér um leið hverju ég hafi að tapa? Bankahrunið, verðbólgan og óðavextirnir gera það að verkum að ég og fullt af fólki sem ég þekki koma til með að missa húsin sín eða borga margfalt verðmæti þeirra til bankanna án þess að um eignamyndun verði að ræða. Látum vera þó maður tapi hreinni eign sinni í húsinu. Látum vera að hafa takmarkaða atvinnu og 25% launalækkun. Látum vera skattahækkanir sem auka enn við greiðslubyrðina. Látum vera  þó maður skuldi allt í einu miklu meira í eigninni en hún er verðmetin á.

En ef ekki gerist eitthvað á næstu mánuðum í því að upplýsa og draga til ábyrgðar þá sem urðu heillri þjóð að falli spái ég blóðugum átökum með haustinu. 

Þessi ríkisstjórn er enn föst við það heygarðshorn að nóg sé að gert fyrir heimilin. Hún getur ekki haft minna rétt fyrir sér. Miðað við það sem ég hef heyrt frá öðru fólki eru td. viðmið ráðgjafastofu heimilanna þannig að ef þú ert með 19 ára ungling í menntaskóla sem fær enn meðlag telst hann ekki á þínu framfæri. Þetta er bara eitt dæmi um gjánna milli raunveruleika landsmanna og möppudýra hins opinbera.

Málið með Iceslavereikninginn er einfaldlega þetta: Ef við skrifum ekki undir segja sumir að evran fari jafnvel í 2000 kr. sem dæmi. Landið verði gjaldþrota. Kannski. En ég spyr á móti: Hef ég einhverju að tapa? 

Madoff var dæmdur í 150 ára fangelsi. Hér ljúga frussandi hrokafullir fyrrverandi bankastjórar út úr sér að nægar eignir séu til fyrir skuldum þrátt fyrir að heilu sveitarfélögin erlendis séu rústir eftir þá. Og stofna svo ráðgjafafyrirtæki.

Lofið sem borið var á þessa loftbólufjársvikara dæmir forseta okkar, seðlabankastjóra, FME og pólitíkusa þess tíma sem ömurlegustu „þjóna“ Íslands fyrr og síðar. Megi þau öll skríða undir stein og koma ekki aftur fram.


mbl.is Undirbúa lögsókn gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núna ætla ég að endurtaka mig.....

Það er mér nokkuð áhugamál að fá að sjá mynd af þessu fyrirbæri sem ég hef aldrei hitt þrátt fyrir mikla viðleitni. Annar hver fréttamaður á Íslandi hefur hitt eða skrifað um fyrirbærið og þess vegna ættu að vera til myndir af því. Ef einhver vildi vera svo væn/n og leyfa mér að upplifa að sjá þó ekki væri nema eina óskýra mynd af ungabarni yrði ég ákaflega glaður og skiptir þá engu þó hún sé eins óljós og myndirnar af Loch Ness skrýmslinu eða fljúgandi furðuhlutum. ungabarn

Ég hef sjálfur kynnst fyrirbærinu ungbarn frá fyrstu hendi og haft mikla ánægju og gleði af þeim kynnum. Ég á meira að segja til mynd af einu slíku sem fylgir hér með. Þess utan er ég faðir tveggja slíkra fyrirbrigða en það er allt önnur saga.  

Svo er það annað mál að það er enginn læknir á Íslandi titlaður "Ungabarnalæknir". Það eru ekki til ungabarnaföt osvfrv.

ungabarn2

Þegar blaða- og fréttamenn landsins eru búnir að smita þessa málvillu svona rækilega inn í þjóðina finnst mér vera kominn tími til að prófarkalesarar og málfarsráðunautar fái aftur atvinnu á fjölmiðlum. Ef þeir eru þar þarf greinilega að skipta þeim út.


mbl.is Aukin þjónusta við ungabörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er dómur ekki samningur!

Núna þegar loksins kvissast út sannleikurinn um samskipti Breta, Hollendinga og Íslendinga er ljóst að hreðjartak þeirra fyrrnefndu á dýralækninum sem titlaði sig fjármálaráðherra var slíkt að hann syngur sópran það sem eftir lifir ævinnar. Kannski með vott af samviskubiti en ég efa það.

Við samningagerðinni tók uppgjafa stjórnmálamaður með nokkra embættismenn sér við hlið. Þrautþjálfað lögfræði - og sérfræðiteymi enskra kenndi þeim á undraverðum tíma auðmýkt og þakklæti fyrir að mega draga andann áfram ásamt íslenskri þjóð gegn greiðslu. Í leiðinni var þeim kennt allt þetta helsta: rúlla sér, sitja, standa, sækja og þegja.

Fjármálaráðherra er að vonum glaður að hafa endurheimt gæludýrin sín þó hann sé ósáttur við reikninginn vegna tamninganna. En hann segir að við verðum að borga.  Hann talar ekkert um það að þetta er EKKI samningur heldur samráð evrópuríkja um hvernig skuli tekið á Íslandi!

Samráð sem okkur er svo kynnt sem samningur. ICESAVEDÓMURINN fellur semsagt á íslenska alþýðu en ekki á íslenskan aðal sem stóð fyrir Icesaveósómanum.

Bandaríski fjársvikarinn Bernard Madoff situr nú í fangelsi með 150 ára dóm á bakinu. Íslensku fjárglæframennirnir sitja nú í sólbaðsstól á auðmannaströndu með svalandi kokteil í annarri hendi og farsíma í hinni. Stjórnandi fjölmiðlunum sínum, ímyndarfulltrúum og lögfræðingum sem vinna við að gera hlut þeirra og ábyrgð sem minnsta.

Man einhver eftir hrokafullum bankastjóra Landsbankans frussa út úr sér með fyrirlitningartón: „Eignir Landsbankans duga fyrir Icesave og mikið meira en það!“ Oft. Dag eftir dag. Hvar er hann núna? Hverjar eru eignir Landsbankans og HVER fær þær?


mbl.is Icesave samningi mótmælt á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brunaútsala auðlinda Íslands er hafin!

„Þessi fyrirhuguðu kaup GGE eru nefnilega fjármögnuð með erlendu fjármagni.“ Þetta byrjar sakleysislega. Hitaveitu Suðurnesja er skipt í tvö hlutafélög HS veitur og HS orku. Þú færð reikninga frá báðum fyrirtækjunum. Einn fyrir framleiðslu á heitu vatni og annan fyrir flutning á vatninu til þín. Samanlagt eru þessir reikningar hærri en þeir voru hjá Hitaveitu Suðurnesja en bara lítillega í byrjun svo enginn röfli. Næsta skref er svo einkavinavæðingin. Sem fer þannig fram að Geysir Green Energy fær að kaupa stóran hlut með svona fiffi eins og smá útborgun og svo skuldabréf tryggt með veði í sjálfu sér og eignarhlutur GGE í hinu hlutafélaginu HS veitum metið á 4 milljarða tekið upp í greiðsluna.  GGE er svo með erlendan fjárfesta sem er tilbúinn til að borga þeim margfalt til baka fyrir að koma þeim að mjólkurkúnni. Allir græða og allir eru happy. Nema neytendur sem koma til með að borga þessi kaup með hækkandi reikningum.

Þetta er sem sagt byrjað. Það sem menn vöruðu við að myndi gerast með aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að bankahruninu. Auðlindir landsins lenda í höndunum á erlendum auðhringum og þegar sú yfirtaka verður orðin fullkomnuð byrjar okkur að blæða fyrir alvöru. Hvet alla til að gefa sér tíma í myndböndin hér fyrir neðan.


mbl.is Fréttaskýring: Einkavæðing HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða pukur er á Þistilfjarðarbóndanum?

„Það eru aðrir nærtækari hlutir sem eru okkur hættulegri," sagði Steingrímur. Og ekki útskýrt nánar. Er þetta gagnsæið sem lofað var.? Hvað á maðurinn við? Landið logar í vantrausti og tortryggni gagnvart öllu og öllum og hálfkveðnar vísum og upphitaðir stjórnmálavellingar eru það eina sem er í boði. Veit Steingrímur og ríkisstjórnin ekki að þjóðin er núna eins og Geysir. Sein til og hæg. Óörugg með framtíðina. En ef þessari grænsápu verður ausið áfram upp í vit hennar gýs hún eins og Geysir. Með þunga. Misskilningur stjórnmálamanna um stöðu sína liggur nefnilega í því að af því að þeir voru kosnir en ekki hinir sé fólk ánægt með þá. Það er ekki þannig. Kjósendur eru bara ÓÁNÆGÐARI með hina. Og það getur breyst í hendingskasti.

Það er búið að vera vitlaust gefið frá því að verðtryggingin var tekin upp. Fyrir hennar tíð var vitlaust gefið í hina áttina. En þú bætir ekki ranglæti með öðru ranglæti.

Ef þessi ríkisstjórn ætlar okkur að borga fyrir glæpi örfárra, bjóða upp á okkur 20% verðbólgu (ma. vegna eigin hækkana á lífsnauðsynjum), minnkandi óverðtryggðar tekjur, atvinnuleysi, okurvexti og  lækkað verð á eignunum okkar ásamt ósveigjanlegum og kommúnískum úrræðum gagnvart þeim sem eiga í greiðsluvanda liggur beinast fyrir að spyrja: Hvað fáum við í staðinn? Hvað á að fá venjulega Íslendinga til að gefast ekki upp, flýja af landi brott ef þeir geta eða hætta að reyna að borga skuldirnar?

Hingað til hefur þessi ríkisstjórn ekki boðið upp á neitt annað en aukna myllusteina um hálsinn. Sólstafir í skýjunum væru einir og sér uppörvun. Það er enginn að biðja um sólbaðsveður. Bara að hann hangi þurr.

En pukur og samskiptaleysi ríkisstjórnarinnar við þjóðina er óþolandi. Sérstaklega í ljósi digurbarklegra ummæla um gegnsæi. Allt upp á borðinu osvfrv. 


mbl.is Icesave-skuldbindingarnar ekki hættulegastar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki spurningin um að geta greitt.

Í fyrsta lagi og virðist skorta gríðarlega á skilning ráðamanna á því, höfum við landsmenn engar upplýsingar í höndunum né mat hlutlausra sérfræðinga á eignasafni Landsbankans, hvað fellur í hlut íslenska ríkisins og hvað fer til annarra sem eiga kröfur í þetta glæpamál. Þessi ríkisstjórn ætlar að þumbast með málið áfram án þess að gera það í sátt við þjóðina. Hvort að það sé nauðsynlegt eða ekki að láta kúga sig svona er eitt mál. Annað hvernig ríkisstjórn tekur á því og kynnir fyrir þjóðinni. Þar hefur hún fallið á prófinu á sama hátt og skjaldborgin sem hún lofaði heimilum og fyrirtækjum landsins virðist vera skjaldborg um bankana og lífeyrissjóðina.

Alþingi á að fella þennan samning og fara fram á annan eins og Jón Daníelsson hagfræðingur heldur fram. Vaxtalausan samning þar sem við tökum á okkur aukið hlutfall höfuðsstóls skuldarinnar. Og afborganir fari aldrei yfir 1% af landsframleiðslu. Ákvæðið um að ekki sé hægt að leita til dómsstóla geur ekki verið löglegt og er engri siðaðri þjóð sæmd í að setja slík skilyrði. Að skrifa undir slíkan samning jafnast á við landráð að mínu mati. Auðvitað eigum við að skrifa undir samning til að koma þessu frá en með þeim fyrirvörum að við ætlum að láta dómsstóla skera endanlega úr um málið. 

Allt annað er gungu- og sleykjuskapur  við þjóðir sem hafa árhundraða reynslu af því að kúga minni þjóðir. Hver væri landhelgi okkar í dag ef við hefðum tekið svona á því þegar bretar sendu herskip á fiskimiðin okkar?  Hver vann þær orustur?


mbl.is Getum staðið við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný fjáröflunarleið....$$$$$

Jamm, það er ekki lengur hægt að selja flísar úr krossi Krists og aflátsbréf. En beinmulningur úr Palla Posti. Rífandi buisness framundan hjá Benna Hmm Hmm. Til sönnunar á áreiðanleika beinanna: „Andrea Codero Lanza di Montezemolo, kardínáli kirkju heilags Páls, segir það hafið yfir allan vafa að þarna væri Páll grafinn.“  En ég hef eina spurningu. Er öruggt að Palli hafi verið kaþóklikki?

En ég samgleðst kaþólskum með þessa nýju fjármögnun. Nóg þurfa þeir nú að borga í skaðabætur fyrir barnaníðingana innan prestastéttarinnar.


mbl.is Leifar Páls postula fundnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar lagaleg rök?????

Skv. því sem kemur þarna fram hjá Sigurði þá voru það einhverjar yfirlýsingar íslenskra ráðamanna sem orsökuðu þá helkrumlu sem evrópuþjóðirnar með Englendinga og Hollendinga í fararbroddi hafa á íslenskri þjóð og framtíð. Þá kemur aftur að því. Hvað var það og hverjir voru það sem það sögðu? Ekki einu sinni þetta er komið upp á yfirborðið.Hann segir einnig að það vanti lagaleg rök fyrir því að dómsstólaleiðin sé ófær. Þarna talar einn fremsti lagaprófessor okkar.

Við erum eins og sigruð þjóð sem hefur tapað stríði. Og þarf að greiða stríðsskaðabætur. Forystumenn nasista voru hengdir. Hvað erum við að gera gagnvart forystu útrásarinnar? Það eru nokkrir fótgönguliðar þeirra atvinnulausir í dag. Annað hefur ekki gerst.


mbl.is Sigruð þjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband