Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
28.4.2010 | 11:21
Með lögum skal land byggja en ólögum eyða.
Ágæti þingmaður,
Með lögum skal land byggja, en ólögum eyða. Á Íslandi ráða ólög í dag sem eru á góðri leið með að eyða samfélagi okkar. Þessi ólög eru ósanngjörn og óréttlát og þarf tafarlaust að endurskoða og breyta.
Við setningu laganna um verðtryggingu 1979 var sett verðtrygging á lánasamninga OG launasamninga. Við afnám verðtryggingar á laun urðu til tveir gjaldmiðlar í landinu. Verðtryggða króna lánveitandans og óverðtryggða króna launamannsins og skuldarans. Þetta tíðkast hvergi annars staðar og hlýtur að teljast mannréttindabrot af hálfu ríkisvaldsins.
Réttur skuldara er einnig fyrir borð borinn ef að því kemur að óverðtryggðu krónunar hans duga ekki lengur til greiðslu verðtryggðu krónanna. Við meðferð bankanna á skuldurum í vanda er hagkvæmara fyrir bankann að selja ofan af viðkomandi en afskrifa og endursemja. Sá sem skuldar í dag 30 milljónir króna í 20 milljón króna eign má búast við að eignin seljist á 5 milljónir á uppboði, bankinn skráir eignina sem 20 milljón króna eign í eignasafn sitt ásamt 25 milljón króna eftirstöðvum sem skuldarinn situr eftir með alla sína ævi. Lög um gjaldþrotaskipti á Íslandi eru ólög sem þarf að færa til jafns við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Þangað til getur þessi ríkisstjórn ekki kennt sig við norræna velferðarstjórn.
Lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur hefur verið harðlega gagnrýnt af Seðlabanka Íslands og öðrum fjármálastofnunum auk þess að virðast vera í svæfingarmeðferð á Alþingi. Yrði þetta frumvarp að lögum myndi samningsaðstaða skuldara stórbatna. Bankar hafa ábyrgari og varkárari útlánastefnu.
Það vill enginn þurfa að skila lyklum hvorki af íbúð sinni né bíl. Það hlýtur að vera síðasti kostur hvers manns. Það er dapurlegt að horfa upp á eignarhlut sinn í eigin húsnæði verða að engu. Missa þannig það sem átti að vera ellilífeyrir viðkomandi. Ekki minna dapurlegt að ríkisstjórnin stundi smáskammtalækningar sem bankarnir sem ollu hruninu fái að stjórna eftir eigin höfði. Plástrar séu settir á svöðusár. En að sjá aldrei aftur fram á eignamyndun við greiðslu húsnæðislána vegna verðtryggingarólaga og efnahagsóstjórnar er óásættanlegt. Flatur niðurskurður eða einhver sérmeðferð er ekki það sem við erum að biðja um. Með samþykkt frumvarps Lilju Mósesdóttur gefst hverjum og einum kostur á semja við fjármálastofnanir á viðunnandi hátt eða skila af sér eigninni og byrja nýja tilveru án kæfandi byrða um ókomna tíð, tilkominna vegna efnahagshruns og óstjórnar sem aðrir bera ábyrgð á.
Við sem undir þetta ritum erum ekki þjóðin. En við erum þverskurður hennar. Úr öllum flokkum, af öllum aldri og úr öllum landshlutum. Við förum fram á það við þingmenn landsins að þeir greini opinberlega frá afstöðu síns til frumvarpsins og starfi í þágu fólksins en ekki flokksins. Tíma sé ekki eytt í umræður um súludans, afgreiðslu léttvíns í matvöruverslunum og störukeppni um Icesave. Aðeins þannig öðlast Alþingi aftur traust almennings.
Nauðungaruppboðum ekki frestað frekar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
13.4.2010 | 10:43
Fúnir innviðir Íslands og heilsuspillandi rakasveppir.
Rannsóknarskýrslan hefur leitt í ljós algert vanhæfi ýmissa embættis- og stjórnmálamanna. Með afgerandi hætti. Hvar annars staðar í heiminum er bankamálaráðherra puntudúkka sem fær ekki einu sinni að vita af málum? Hvar annars staðar í heiminum getur fyrrverandi stjórnmálamaður hlammað sér í Seðlabankastjórastól af því hann pantaði fyrst? Það væri hægt að tapa sér hér í skýrslunni en það sem ég vil vekja athygli á er það sem rannsóknarnefndin rannsakaði ekki!
ALLAR stofnanir og embættismenn sem skýrslan náði yfir fengu annað hvort falleinkunn eða lélega. Og þá komum við að því. Er nokkur ástæða til að halda að aðrar stofnanir ríkisins séu skilvirkari og kraftmeiri? Er ástæða til að halda að þeir stjórnmálamenn sem tóku við af föllnu foringjunum séu betri. Með sín milljarða kúlulán?
Nei, skýrslan sýnir að innviðir íslenska stjórnarkerfisins eru fúnir og með heilsuspillandi myglusveppum. Það er ekki nóg að mála yfir þá þeir koma alltaf aftur í gegn jafn heilsuspillandi.
Það þarf að rífa allt draslið út. Henda því. Helst brenna það. Og byggja nýtt eftir nýjum teikningum gerðum af fagmönnum ekki fúskurum. Með eldvarnarveggjum og alvöru brunaeftirliti.
Til þess er Alþingi ekki treystandi. Né stjórnmálaflokkunum. Hvað þá embættiskerfinu. Hér þarf raunverulegt framhald búsáhaldabyltingarinnar. Hér þarf stjórnlagaþing. Hér þarf raunverulegt eftirlit almennings með stjórnmálaflokkunum og ofvöxnu embættismannakerfi þeirra. Hér þarf svona rannsóknarnefnd að störfum ÁFRAM!
Útlánasafnið á bakvið Icesave var lélegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.4.2010 | 13:34
Og hvað svo?
Mest allt þetta hyski sem kom landinu á hausinn er flúið land og með lögheimili erlendis. OG búið að millifæra milljarðana á skattaparadísarnar sínar. Það duga engin vettlingatök lengur það þarf að setja afturvirk lög til að komast yfir þýfið og ryðja kúlulánaprinsum og drottningum út úr Alþingi. Það er alveg óhætt að kalla þetta fólk landráðamenn í dag.
Logoin sem ég hannaði fyrir bankana eiga vel við í dag. Set þau inn hér og það er öllum frjálst að nýta þau hvernig sem hver vill. Glæpnir, Aflandsbanki ofl. eru í fyrri færslum.
Bankarnir blekktu markaðinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.4.2010 | 19:56
Fleiri ný „ímyndarlogo“ bankanna!
Vilhjálmur gerði vel með því að afþakka þýfi og vonandi verður þetta til að löðrunga einhvern sauðskinnsskóinn til meðvitundar. Held hér áfram við að rannsaka ímyndarvanda bankanna og birti þrjár nýjar útgáfur af nýjum firmamerkjum þeirra. Óska um leið eftir tillögum að nýrri nafnasetningu Lýsingar, Arion banka (Glory on)? Og Frjálsa fjárfestingarbankans. (Datt í hug Frelsis- sviftingarbankinn. Allar tillögur vel þegnar.
Afþakkaði gjafabréf í Útsvari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.4.2010 | 20:12
Fyrstu logoin sem ég hanna fyrir bankanna.
Fyrstu logoin sem ég hanna fyrir bankanna. Næst er Þjófþing og SP fjárkúgun á dagskrá! Glæpnir kemur svo seinna!
Ætlar að stefna skilanefnd Glitnis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.4.2010 | 16:13
Segist ekki hafa beitt blekkingum!
Hvernig getur maður sem kaupir gjaldþrota flugfélag á 4 milljarða selur á 15 milljarða nokkrum mánuðum seinna og kaupir svo á 30 milljarða, selur svo á 60 milljarða og félagið verður endanlega gjaldþrota stuttu seinna EKKI HAFA BEITT BLEKKINGUM? Hversu siðlaus og harðsvíraður þarftu að vera til að sjá þetta ekki?
Glæpnir eða Aflandsbanki er bastarður hans og félaga sem ég vil láta gera útlæga STRAX! Helst í Tjernobyl!
Segir stefnu tilefnislausa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.3.2010 | 13:39
Óskiljanlega Ísland - nokkur brot úr íslenskum veruleika
Ástæða þessarrar bloggfærslu eru tvær fyrirsagnir í DV.is Sú fyrri hljóðar svona: Meintur braskari keypti lúxusjeppa. Sú seinni: Olís tók gullhring eldri konu í pant! Þessar tvær fyrirsagnir og fréttirnar þeim tengdar segja allt sem segja þarf um íslenskan veruleika dagsins í dag.
Þessi frétt: Stærsta bankahneyksli í sögu Danmerkur afhjúpað þar sem fram kemur að stjórnum bankanna bíði þungir fangelsisdómar. Þessi brot eru sem sandkorn við hlið athafna íslensku bankanna. Hvað er verið að gera hér? Bíða eftir einhverri yfirklórskattaþvottarskýrslu sem enginn mun gera neitt með eða taka alvarlega. Hvers vegna? Jú það hefur ekkert breyst innan banka- og embættismannakerfanna nema tilfæringar.
Í okkar tilviki jafngildir þetta því, að þeir, sem taka stöðu gegn krónunni og ná því að knýja fram lækkun á gengi hennar láti greipar sópa um vasa almennings á Íslandi. Þetta er úr grein eftir Styrmi Gunnarsson þar sem hann fer yfir stöðutöku bankanna gagnvart krónunni og forsendubresti samninga vegna þessa. Af hverju er ekki tekið á þessu máli?
Hér er blogg Huldu Haraldsdóttur: Ég á vart orð til lýsa fyrirlitningu minni og viðbjóði á eiganda/eigendum húseignarinnar að Hverfisgötu 28 sem brann í byrjun þessa árs....
Eigandi hússins er Festar ehf sem er í eigu Benedikts T. Sigurðssonar húsasmíðameistara og var fyrrgreint hús aðeins eitt af mörgum í hans eigu. Aðrar fasteignir í hans eigu eru t.d. Laugarvegur 17, 18, 19, 19b, 20, og 21. Hverfisgötu 26, 27, 28, 29, 30, 31, 32, 32a, 32b, 33, og 34, Klapparstíg 28, 29, og 30, Smiðjustíg 4, 4a, 5, og 6, Eins er tenging á milli Byggingafélagsins Strýtusels og Festa og bætast þá við húseignirnar að Laugarvegi 23, og 27a, og 40, Síðan er það Hverfisgata 40(lóðin), 42, og 44, Klappastíg 29 og 31.t.d.
Spurningarnar við þetta eru fjölmargar ma: Af hverju hafa 3 af þessum húsum brunnið og eru Björgúlfsfeðgar ekki raunverulegu eigendurnir? Af hverju er engin umfjöllun eða rannsókn?
Hér er svo dæmi um réttlætisgleraugu dómara landsins: Réttlæti dómarans Og hér er tvær gleðipillur: Nýja Íslandi stjórnað af kúlulánaþegum Bónuskerfi Vinstri grænna gegn afskriftum skulda í bönkum
Það eru varla nokkur takmörk fyrir því hve skilanefndir bankanna, eða hinar nýju bankastjórnir, geta verið hrokafullar og fjarlægar þörfum nýja Íslands. Þeir sem í þeim eru voru áður flestir starfandi í bönkununm og margir voru á kafi í spillingarmálum, kúlulánum eða lánum án vaxta eða þiggjendur fjár með kjörum, sem aðrir höfðu ekki aðgang að. Jónas Bjarnason öll greinin.
Jóhanna, eldgos og rústabjörgun Þetta er skyldulesning!
Svona er ísland í dag. Og ríkisstjórnin hefur ákveðið að RANNSAKA SKULDIR HEIMILANNA! OG TAKA TIL ÞESS 1-2 ÁR. JAFNVEL 3! Þrátt fyrir dóm um ólögmæti lána í erlendri mynt láta fjármögnunarfyrirtækin eins og ekkert sé og komast upp með það. Vertíð í vörslusviptingum bíla stendur nú sem hæst og félagsmálaráðherra er að reyna semja við þau. Um hvað? Jú að þau gefi litla putta eftir. Annað ekki.
Þetta eru bara nokkur brot úr íslenskum veruleika. Er furða að að manni sæki hrollur.
Ég skora á alla sem þetta lesa að skrá sig hér í stuðningshóp við frumvarp Lilju og áframsenda á vini og kunningja sömu beiðni. Bendi einnig á þessa hópa: Mótmælendur Íslandi, Samtök lánþega, Lántakendur Avant, Lýsingar og SP Fjármögnunar
19.3.2010 | 16:08
Hvað þýða aðgerðir stjórnvalda á mannamáli?
Þær þýða þetta í stuttri samantekt: Þú hefur 15 mánuði til að safna fyrir farinu til Noregs og útvega þér atvinnu! Þe. 3 mánuði vegna frestunar nauðungarsölu og svo 12 mánuði sem þú mátt leigja eignina þína af bankanum! Þetta er í hnotskurn innihald aðgerða þeirra. Og ekkert meir. Það er enginn hvati til staðar til að fólk reyni að halda áfram að borga. Það er eins hægt að fleygja fénu upp í vindinn og sennilega meira gefandi. Hér eru nokkur dæmi um hvað almenningur hefur að segja um aðgerðir ríkisstjórnarinnar:
Við matarborðið er uppi hávær krafa um að borga þessum aumingjum ekki krónu í viðbót og verja heimilið með vopnavaldi ef þeir voga sér inn á lóðina. Mér sýnist að öfgaöflin á mínu hemili gætu verið að ná yfirhöndinni
Ég mun aldrei sætta mig við svona grimmilega refsingu fyrir að greiða lánin mín. Ég hef hins vegar ákveðið það að ég ætla ekki að borga þetta lán eins og það stendur í dag. Það er alveg á tæru. Fari ég ekki að sjá sanngjarnar lausnir fljótlega, fer ég úr landi og byrja upp á nýtt. Síðustu peningana mína hér á landi ætla ég að nota í að rífa húsið mitt. Bankinn mun aldrei fá það.
Einn ganginn enn nái eignagosarnir að fela sig í skjóli almennings. Hverjir semja annars þessi lög?
Þessar aðgerðir ef þær koma þá eru þær með hinum íslenska fyrirvara. Ætlaðar fólki sem fædd er á Hlaupársdag þau almanaksár sem ekki er hlaupár.
Jafnræði og réttlæti. Hefur einhver séð bóla á þessu ?
Það er gott að fleiri eru búnir að reikna út fáránleika hrunsins og eignaupptökuaðgerða ríkisstjórnarinnar og bankanna.
Ætlar Skattgrímur að skattleggja þennan einstakling? Einstakling sem rétt svo nær að merja að borga af lánum eftir LEIÐRÉTTINGU
Hvers konar skilaboð eru það að senda út til samfélagsins að stjórnvöld munu í öllum tilvikum aðstoða fjármálastofnanir við að arðræna fólk þrátt fyrir sannanlegan landráðarekstur slíkra fyrirtækja á eldri kennitölum?
Ef ég skil þetta plott rétt þá hafa þeir tveggja ára frest til þess að ákveða hvort að þeir vilja bankana eða ekki. Það gefur ríkinu/skilanefndunum 2 ár til þess að hámarka arðinn af skuldasafninu (skuldum heimilanna) án þess að þurfa að leggja bönkunum til nýtt fé.
Það virðist ekki mega hrófla við þessari verðtryggingu út af lífeyrissjóðunum. Þetta er algjört rugl. Við verðum að afnema þessa vitleysu.
Heldur vitræna velferðarstjórnin virkileg að þessi hænufet hennar séu til gagns? Eða er það kannski svo að IMF og Parísarklúbburinn stjórni hér í raun?
Ég skora á alla sem þetta lesa að skrá sig hér í stuðningshóp við frumvarp Lilju og áframsenda á vini og kunningja sömu beiðni. Bendi einnig á þessa hópa: Mótmælendur Íslandi, Samtök lánþega, Lántakendur Avant, Lýsingar og SP Fjármögnunar
Afskriftir verða skattlagðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.3.2010 | 11:46
Það fæddist lítil mús!
Ríkisstjórnin hefur nú reist viðbyggingu við gjaldborgina sem hún reisti íslenskum SKULDURUM. Viðbygging þessi er skjólmeiri enda gerð úr loðnari loforðum en þekkst hefur. Samkvæmt upptalningu þessarar norrænu vitrænu velferðarstjórnar ætti enginn að verða úti amk. ekki yfir sumarmánuðina.
Viðbrögðin við þessari rústabjörgunaraðgerð 17 mánuðum of seint hafa ekki látið á sér standa. Og fyrir utan örfáa flokksbundnar hópsálir eru á einn veg. Hér eru nokkur sýnishorn úr athugasemdum við þessa frétt á Eyjunni:
Var haldin fréttamannafundur fyrir þetta ? þvílík sóun á tíma.
Eigum við sem sagt að vera voða voða þakklát fyrir að okkur er gert kleyft að borga lánin sem stökkbreyttust. Ef við ekki borgum er að sjálfsögðu erfiðara að fella niður skuldir auðróna.
En ég fæ ekki séð í fljótu bragði að það sé neitt í þessu sem bætir stöðu fólks í samningum við bankana. Kemur einhver auga á eitthvað annað
Það fæddist lítil mús
Ha? Þetta bætir ekkert, nema kannski að maður fær að búa í húsnæðinu sínu í tólf mánuði eftir gjaldþrot.
Krókur á móti bragði: Viðkomandi hættir að borga og safnar lánunum í vasann. Tekur, segjum 6 mánuði að koma honum í þrot. Þá fær hann að búa í 12 mánuði - auðvitað án greiðslu Þá er viðkomandi búin að safna pening í 18 mánuði.
Sem sagt - eina sem verður gert er að gera okkur kleyft að borga þessa svívirðu?
Kemur ekki til mála og þvílík smjörklípa - ekki boðlegt.
Heyr heyr !!!!!!!!!! Hér er engin sanngirni á ferð. Skuldaðu milljarð og þá færðu skuldafellingu - skuldaðu milljón og þér verður veitt ölmusa svo tryggt sé að þú borgir. Fyrr skal ég láta bera mig út en að borga þessi rán
Þetta eru aumasta tilefni fréttamannafundar sem ég hef nokkru sinni séð.
Hættum að borga!
Þetta eru nú óttalega veiklulega aðgerðir VÆGT til orða tekið. Einn einu sinni er komið með ca svona ca hinsegin lausn sem gerir það að verkum að enginn fær neitt.
Hversu lengi ætlar þjóðin að láta bjóða sér svona framkomu?
Allt gert, annað en fella niður þá hækkun sem hefur orðið á verðtryggðum lánum fólks!!! Bara aðlögun til að borga LENGUR!!!
ÞETTA HEITIR Á ÍSLENSKU VALDNÍÐSLA GAGNVART ALMENNINGI!
Svei ykkur sem kennið ykkur við velferð!
Hægt væri að hafa þessa upptalningu lengri því af nógu er að taka. En ríkisstjórnin vonar að viðbyggingin dugi til að sannfæra kjósendur um að næstu sveitastjórnir landsins eigi að vera skipaðar norrænum vitrænum flokksfélögum sínum. Það sem hún er ekki að ná er að þjóðin er komin með upp í kok á dellunni sem henni er boðið upp á. Smjörklípur eru bara ekki að gera sig lengur.
Ég skora á alla sem þetta lesa að skrá sig hér í stuðningshóp við frumvarp Lilju og áframsenda á vini og kunningja sömu beiðni. Bendi einnig á þessa hópa: Mótmælendur Íslandi, Samtök lánþega, Lántakendur Avant, Lýsingar og SP Fjármögnunar
Nauðungarsölu frestað á 552 íbúðum um allt land | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.3.2010 | 15:08
Ísland 2011?
Gefðu þér tíma í þessi tvö myndbönd frá Argentínu. Þetta er að endurtaka sig á Íslandi í dag. Eini munurinn er að valdaklíkurnar hér hafa ekki her. Sem Birni Bjarnasyni þykir víst miður núna.
Myndirnar eru hluti af lengra verki en það kemur sjálfkrafa upp sá möguleiki að smella á næsta hluta.