Það er engin spilling á Íslandi - eða hvað?

 Kjósendur fá ekkert að vita um fjármál stjórnmálaflokka hér á landi. Halldór Ásgrímsson þáverandi forsætisráðherra skipaði nefnd um fjármál stjórnmálaflokkanna 2005. Málið er enn í nefnd! “Sjálfsánægðir og andvaralausir opinberir embættismenn á Ísland, sem  trúa því sjálfir að þeir og þjóðin sé óspillt,  eru ekki líklegir til að hefja aðgerðir til þess að uppræta spillingu. utvarpsaga.is

Eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður hafa tölur um ójöfnuð hér á landi ekki verið birtar opinberlega. Davíð Oddsson lagði Þjóðhagsstofnun niður vegna þess að hún neitaði að birta bara spár sem væru honum þóknanlegar.  „Tekjuójöfnuður á Íslandi var á síðasta ári einhver hinn mesti í hinum vestræna heimi. Hann hefur tvöfaldast frá árinu 1993. Þannig er ójöfnuður á Íslandi nokkru meiri en í Bandaríkjunum og líklegast sá mesti í hinum vestræna heimi.“ eyjan.is

Forsenda fyrirgreiðslustjórnmála er löngum talin sú að þegar lýðræði þróast í landi þar sem sterk stjórnsýsla er ekki til staðar (eins og á Íslandi) geri það stjórnmálamönnum kleift að nota pólitíska bitlinga til að verðlauna sína stuðningsmenn og þannig kaupa sér stuðning. deiglan.com

Einkavæðing eða einkavinavæðing bankanna sem Valgerður Sverrisdóttir fullyrti á borgarafundi að hefði verið á faglegum nótum: „þegar ákveðið var að einkavæða Landsbankann, þá sagði ríkisstjórnin mjög mikilvægt að eignaraðild í bankanum yrði dreifð. Enginn einn aðili mátti eiga ráðandi hlut í bankanum. Bæði fulltrúi seljanda og hugsanlegs kaupenda lýstu því yfir að mikil pólitísk afskipti hafi átt sér við val á kaupenda á hlut í Landsbankanum og sagði fulltrúi seljanda í einkavæðingarnefnd sig m.a. úr nefndinni af þeim sökum. Afsögn Steingríms Ara Arasonar sem sagði af sér út af vinnubrögðum hefur vakið mikla athygli. Hann kaus að tjá sig ekki frekar um málið vegna þess trúnaðar sem hann hefur undirgengist í nefndinni. Öllum er þó ljóst af yfirlýsingum hans að atburðarrásin fram að ákvörðuninni um að ganga til samninga við eignarhaldsfélagið Samson sem ekki átti hæsta tilboðið var æði skrautleg. Spurt er hversvegna í ósköpum var ekki gengið til viðræðna við þann sem átti hæsta tilboðið? Hreinn Loftsson sagði líka af sér sem formaður einkavæðingarnefndar vegna deilna við forsætisráðherrann“. malefnin.com


Helmingaskiptaregla Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Þessi miklu pólitísku afskipti,í gegnum eignarhald ríkisins, á Landsbankanum báru með sér spillingu og mismunun, því í skjóli þessa fyrirkomulags og haftastefnu stjórnvalda þrifust gæðingar stjórnmálaflokkanna, enda kjöraðstæður fyrir stjórnmálamenn til að geta "skammtað" og "skaffað" eftir eigin geðþótta, sér og sínum til framdráttar án þess að horft væri til hagsmuna heildarinnar. Lúðvík Bergsveinsson

Illugi Gunnarsson fyrrum aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar hefði setið í sjóðsnefndum Glitnis.
Sjóðum eins og sjóði 9 sem lugu að fjárfestum um í hvað fjárfestingarnar færu. Sjóði sem enduðu á því að eyða innistæðum sjóðsfélaga, jafnvel ævisparnaði í að reyna að bjarga vonlausum fjárfestingum eigenda Glitnis.Af hverju var peningum dælt inn í þennan sjóð í hruninu? Hverjum var verið að bjarga?

Dæmi um það þegar framsóknarmenn komast yfir „fé án hirðis:“ Fjárfestingafélagið Gift, sem fór með fjármuni Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga, virðist vera orðið eignalaust þegar eignasafn félagsins í fyrra er skoðað og borið saman við afdrif þeirra eigna upp á síðkastið. visir.is, öll greinin

Stjórnmálakerfið hér á Íslandi er auðvitað kolbrenglað og gerspillt þar sem flokkshollustan er mun mikilvægari en almenn skynsemi.  Hauspokaland….besta land í heimi!

 Skipanir í dómarastöður: Allir eiga þeir það sameiginlegt að tilkallaðar sérfræðinefndir hafa dæmt þá mun vanhæfari en aðra umsækjendur, og í einhverjum tilvikum vanhæfasta  Sigurður Ólafsson

Stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur fær veiðileyfi í dýrustu laxveiðiánni á útsöluprís frá stærsta auðhring landsins. eyjan.is

Þessar 480 þúsund krónur fóru í að greiða veiðileyfi, mat og gistingu fyrir Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson þáverandi borgarstjóra, Björn Inga Hrafnsson þáverandi formann borgarráðs og eiginkonur þeirra þá þrjá daga sem mannskapurinn dvaldi við laxveiðar. visir.is

Það má líta á það sem merki um spillingu í lýðræðisríki þegar fáeinir ráðherrar og jafnvel forsætisráðherra einn getur stjórnað ferðinni að mestu án samráðs við aðra, jafnvel án samráðs við aðra ráðherra. Það er sömuleiðis til marks um spillingu þegar þing og ráðherrar geta ekki komið óhæfum seðlabankastjóra úr embætti jafnvel eftir að hann hefur gerst sekur um verstu afglöp. Jón Ólafs

Hvítþvotturinn þegar stjórnendur þróunarfélags Keflavíkurvallar seldu sjálfum sér eignir. Stofnunin telur óheppilegt að sömu aðilar tengist bæði Þróunarfélaginu og félögum sem keypt hafa eignir af því. mbl.is öll greinin

Samráð olíufélaganna og eiginkonan dómsmálaráðherra. Var að vísu sett í annað ekki eins pínlegt embætti áður en málið komst í hámæli. Þar var fórnað peði en kóngarnir sluppu enda ekki skemmtilegt fyrir dómsmálaráðherrann að eiga dæmdan mann.

Allir þessir auðkýfingar - olíufurstar eða fjármálajöfrar - eiga góðar tengingar inn í Sjálfstæðisflokkinn, sem aftur skipar kommissara sína í embætti til að halda verndarhendi yfir villidýrunum. Undir verndarvæng Flokksins

SR mjöl hafi verið frægara dæmi um þetta. Þá fór það ekki milli mála að ekki-hæsta tilboði var tekið. Sá sem átti hæsta kærði en var hótað miklum skaða ef hann drægi ekki kæruna til baka, sem hann gerði, enda mikið í húfi fyrir viðkomandi. www.malefni.com

Hefur áhyggjur af ráðstöfun á IMF-láni „Hann (Ólafur Ísleifsson) hefur hinsvegar áhyggjur af því að þær 800 milljónir dollara sem eru á leið hingað til lands frá sjóðnum fari í hendurnar á sömu mönnum og ríktu hér í hruninu.“ visir.is

Forstjóri Össurar segir í hádegisfréttum að tiltrú umheimsins á ríkisstjórninni, seðlabankanum og fjármálaeftirlitinu sé engin! Það er furðulegt og útlendingar skilja það ekki að  sömu menn sitji enn.

 Þetta er stutt samantekt á spillingu og því hversu rotnir innviðir stjórnarkerfisins eru orðnir. Það sem að mér finnst samt ógeðslegast við þetta er að upptalningin hér er bara brot af því sem hefur fengið að líðast sl. ár. Það er ólíðandi að þetta lið fái tækifæri til að moka yfir það sem þolir ekki dagsbirtu og haldi dauðahaldi áfram um völdin. Það er ekki verið að velta við steinum núna það er verið að malbika yfir þá! En ekki svo ágætu valdhafar: Þið komist ekki upp með þetta!


mbl.is Ánægður með samninginn við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mamma, við skulum bara skila kjúklingnum!

Ég veit ekki hvort hún var einstæð móðirin fyrir framan mig á kassanum í Nóatúni. Ca. 8 ára stelpa og 5-6 ára strákur voru með henni. Þetta var ekki mikið sem hún var að kaupa en þar á meðal var steiktur kjúklingur. Þegar kortinu hennar var rennt í gegn kom synjun. Ekki næg innistæða. Hún átti ekki 4.400.- krónur og ekki kominn miður mánuður. Hún horfði á krakkana og sagði að þau þyrftu að skila einhverju. „Mamma, við skulum bara skila kjúklingnum“! sagði strákurinn ákveðinn. Reikningurinn 1.290.- lægri og debetkortið samþykkt. Ég horfði á eftir þeim á leið út úr búðinni, konan hokin og þreytuleg, krakkarnir þöglir og alvarlegir í framan.

Ég var að upplifa eina mynd kreppunnar sem er skollin á okkur. Kreppu sem er ekki af okkar völdum. Pétur Blöndal myndi segja við þessa konu að hún væri óráðssíukelling að vera að kaupa kjúkling fyrir krakkana og ekki við neinn annan en hana að sakast að eiga ekki fyrir kjúklingnum.

Þetta eru skilaboðin sem stjórnmálamenn eru að reyna að koma inn hjá okkur núna. „Við skulum ekki leita að sökudólgum núna heldur einbeita okkur að því erfiða starfi sem er framundan“! Þetta er einn frasinn. Þeir eru margir sem heyrast meðan reynt er að moka yfir mestu spillinguna og tengslin milli stjórnmálamannanna og þeirra sem settu þjóðina á hausinn.

Á meðan er markvisst verið að reyna að koma því inn í kollinn á þessari konu, mér og þér að þær byrðar sem framundan eru, séu óumflýjanlegar.

Svo fáum við smjörklípur: Það á að spara 2,3 milljarða í utanríkisráðuneytinu! Það verður velt við hverjum steini í ÓHÁÐRI RANNSÓKN í boði Björns Bjarnasonar!  (Aðstoð) Alþjóða auðhringsins er handan hornsins. Blablabla.

Æra þjóðarinnar er glötuð sem og lánstraust, traust og efnahagur. Lífsskilyrði okkar færð áratugi til baka. Menn með 15-20 föld laun konunnar við kassann segja að við þurfum öll að taka á okkur byrðar. Menn með tæpar tvær milljónir í mánaðarlaun auk allra annarra sporsla ásamt IMF ætla að skipuleggja og stjórna því hvernig konan við kassann tekst á við kreppuna.

Hvað gerði hún af sér til að eiga þetta skilið? Fyrir utan að ætla að bruðla með kjúkling handa krökkunum. Kjúkling sem er búinn að hækka um tugi prósenta sl. mánuði.

Jú, stjórnmálamenn og auðjöfrar eru sammála um að íslenska þjóðin hafi verið á neyslufylleríi! Bíddu, sendiráðsbyggingin í Tókíó kostaði milljarð, einkaþotan hans Björgúlfs minnst 2 og rekstur á 40 starfsmönnum tugi milljóna á dag hjá FL-Group! Var þjóðin á fylleríi? Haldið þið að þessi kona hafi verið í verðbréfabraski?

Til að fullkomna lénsveldið Ísland sem hefur verið í þróun sl. áratugi hafa lénsherrarnir sett sína menn í allar áhrifastöður bróðurlega skipt eftir stjórnarflokkum þannig að allt embættiskerfið er gegnumsýrt af frændsemi, flokksgæðingum og vinagreiðum. Lénsherrarnir vilja að við trúum því að innan þessa kerfis séu góðir og gildir HLUTLAUSIR menn sem komi til með að skoða og greina hvað fór úrskeiðis. Fella dóm sinn og þá getur yfirlénsherrann ávarpað lýðinn og sagt honum sannleikann. Sem verður sennilega á þá vegu að íslenska þjóðin hafi spennt bogann of hátt og farið óvarlega. Mistök hafi verið gerð sem þurfi að læra af til að þetta endurtaki sig ekki. Blablabla.

Þegar það gerist verður konan við kassann fyrir löngu búin að missa lífslöngunina, íbúðina (ef hún á hana til) börnin hennar búin að fara á mis við tómstundir og eðlilega skólamenntun.

Íslendingar hafa um tvær leiðir að velja núna. Leið lénsherrana eða leið fólksins í landinu.Ég sætti mig ekki við leið lénsherranna.


mbl.is 100 þúsund kröfur vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér eru 3000 störf fyrir bankamenn! - Nýtt samfélag - fjölskyldan fyrst!

Umfang umræðunnar um andleg og félagsleg áhrif kreppunnar er nánast ekkert við hliðina á fréttum af pólitík, hagstærðum eins og stýrivöxtum, fjöldauppsögnum og eggjakasti. Einn og einn sálfræðingur er fenginn til að tjá sig í fylgiklausum um þessi mál. En þessi mál skipta atvinnulaust fólk, þá sem eru að missa heimili sín og geta ekki leyft börnunum sínum lengur að stunda tómstundir miklu máli. Það er eitt að sleppa áskriftum af fjölmiðlum. Allt annað þegar þú getur ekki keypt námsgögn fyrir barnið þitt.

Við bræðurnir vorum að ræða þessi mál í gærkveldi og hann kom með pælingu sem mér finnst ekki bara áhugaverð. Mér finnst hún snilld!

Það eru um 3-4000 bankamenn á atvinnuleysisbótum. (Gef mér að einhverjir hafi fundið nýja vinnu). Af þeim er væntanlega stór hluti sem hefur starfað sem þjónusturáðgjafar og gjaldkerar með yfirsýn yfir helstu erfiðleika sem fólk hefur lent í við rekstur heimilanna og fyrirtækja. Stofna mætti nýtt fyrirtæki utan um starfssemina eða setja inn í Ráðgjafaþjónustu heimilanna.

Hugmyndin í hnotskurn er þessi: Hver bankastarfsmaður tekur að sér 10-20 heimili, fer í gegnum fjármál þess, greiðslubyrði oþh. og gerir úttekt á hverju þyrfti að breyta til að heimilið gæti byrjað á nýjum 0 punkti með raunhæfar greiðslubyrðar þar sem nýtt samfélag - fjölskyldan fyrst væri viðmiðið.

Nú kann einhverjum að finnast þetta einhver útópíudella en ef við stöldrum aðeins við og skoðum nokkrar staðreyndir um kostnaðinn af núverandi umhverfi okkar:

Ef fólk hættir í þúsundatali að borga af húsunum af því að það getur það ekki eins og stefnir í fer íbúðalánasjóður á hausinn. Kostnaður ríkisins af atvinnuleysi verður gríðarlegur. Kostnaður heilbrigðiskerfisins verður gríðarlegur. Ríkið og bankarnir sitja uppi með þúsundir óseljanlegra eigna sem þarf að halda við og borga gjöld af. En það skiptir ekki minna máli andleg líða, brotin sjálfsmynd, aukin sjálfsvíg, aukin stéttaskipting, auki áfengis- og fíkniefnavandamál, mismunun til mennta- og heilbrigðisþjónustu.

Afkoma fjölskyldunnar skiptir meira máli en eignamyndunin í húsnæði í svona árferði. Vextir af húsnæðislánum umfram verðtryggingu (ef hún á að halda sér) ættu að vera í lágmarki kannski 2-3% þannig að eigið fé íbúðarlánasjóðs nái að halda sér. Er ekki lánasjóður íslenskra námsmanna rekinn með tapi? Færa þyrfti með þess öll húsnæðislán heimilanna á upphafspunkt til 25-40 ára. Leigja íbúðir sem íbúðalánasjóður hefur leyst til sín með svipaðri aðferðafræði og hjá Búseta.

Hugarfarsbreytinginn snýst þá um nýtt samfélag - fjölskyldan fyrst. Eignamyndun yrði útfrá afgangsstærðum hverju sinni. Þú getur borgað inn á höfuðstólinn mánaðarlega ef þú vilt eða getur án þess að vera refsað fyrir það með uppgreiðsluákvæðum.

Jóhanna Sigurðardóttir lagði fram einhverjar hugmyndir um að fólk í erfiðleikum gæti leigt húsnæðið sitt af íbúðalánasjóði. Fólk sem er búið að leggja allt sitt í húsið sitt í 15 ár, snyrt garðinn, haldið við húsinu, skapað sitt heimili á sínum forsendum hefur engan áhuga á að leigja sitt líf af ríkinu! Þvílík firra!

Ef tekið yrði svona á málunum, vaxtaokrinu hætt, stimpil- og seðilgjaldasvínaríinu, komið böndum á innheimtuhákarla með vafasamar innheimtuþóknanir og manngildi sett framar græðginni byggjum við  nýtt samfélag. Og komum um leið í veg fyrir að þúsundir velmenntaðra Íslendinga flýi þann sauðskinnsskóafarveg sem okkar vanhæfu stjórnmálamenn eru að gera okkur.

Bankastarfsmennirnir 3000 hefðu kannski ekki allir vinnu sem ráðgjafar heimilanna  í framhaldinu en 1-2000 ráðgjafar sem fylgja eftir starfinu með því að hitta hverja fjölskyldu 1-2 í mánuði og þiggja 7-10.000 á mánuði í laun hjá hverri eru þá með ágæt laun. Ekki ofurlaun en ekki atvinnulausir.

Til frekari útfærslu á þessu þyrfti mannlega hagfræðinga. Ekki stjórnmálamenn takk!

 


mbl.is Leita starfsmanna á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Seðlabankinn verndaður vinnustaður?

Að lesa í morgun í Fréttablaðinu að ekkert formlegt erindi hafi borist IMF að sögn fulltrúa Svisslendinga og svo nú þessa frétt er tvö ný dæmi um hversu óhæf möppudýr eru hér við völd. Eftir að hafa talað íslenskan efnahag á terroristalista og niður í svaðið er legið í drullunni og búnar til leirkökur. „Verið að vinna í málinu!“  „Það er ekki ástæða til að greina frá því á þessari stundu!“ „Engin ástæða til að skipta um seðlabankastjórn!“ „Stjórnin er sterk og samheldin!“

Ég hef heyrt í nokkrum gallhörðum sjálfsstæðismönnum og það er auðheyrt að ægikrumla flokksvaldsins er að gefa undan. Hvort sem þeir eru að reyna að fjarlægjast getulausa forystuna og ábyrgð eða ósammála þeim almennt um stefnuna þá er krafan hjá þeim skýr varðandi seðlabankann: Hannes og Davíð út! Hvernig á að taka landið og stjórn þess alvarlega með hryðjuorðamann í forsvari seðlabankans og formann aðdáendaklúbbs Milton Friedmann sem jókerinn hans?

 Bjarni Harðarson þingmaður var rétt í þessu að segja af sér. Fyrir pólitísk afglöp. Afglöp sem virðast afskaplega léttvæg við hlið afglapa ráðamanna sl. vikur. Hvernig væri að aðrir færu að bera pólitíska ábyrgð líka?

Að lokum bið ég alla verndaða vinnustaði á landinu afsökunar á að hafa líkt þeim við seðlabankann. Ég veit að framleiðslan og gæði hennar eru margfalt betri og faglegri en þar.


mbl.is Finnar vilja meiri upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttaskýring - Animal Farm - kannast einhver við persónur myndarinnar?

Þegar ég var krakki, ein sjónvarpsstöð og lítið um barnaefni, var þessi mynd sýnd á hverju ári. Gott ef ekki á aðfangadag. Held að í dag væri hún bönnuð innan 12 ára til að skadda ekki blessuð börnin. En kannski hefði átt að halda áfram að sýna hana á hverju ári. Hún á allavega ekki minna erindi í dag en fyrir 40 árum síðan.

Fyrir þá sem vilja eru hinir partar myndarinnar líka á Youtube.com.


mbl.is Krefjast almenns félagsfundar í VR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andra Snæ Magnason sem forsætisráðherra!

Hagfræðinga í Seðlabankann og þingmenn valdir upp úr símaskránni! Værum við verr sett? Embættiskerfið og stjórnsýslan er með krabbamein. Krabbamein sem heitir flokkshyggja. Valdsýki og firring gagnvart þörfum og hagsmunum almennings kemur í ljós í hrunadansinum sem nú er stiginn. Við búum við einræði. Jafnvel einræði manns sem er ekki einu sinni á þingi! Bláa höndin hefur gegnumsýrt þjóðfélagið með græðgisvæðingunni. Ljósmæður sem bæta á sig 2ja ára viðbótarnámi þykir sjálfsagt að séu á lægri launum en fyrir aukamenntunina. Það gæti kollsteypt þjóðfélaginu og undirstöðum þess að greiða þeim fyrir að læra meira. Á sama tíma eru laun fjármálamógúla réttlætt með ábyrgð. Sem er í dag hver?

Gjaldþrot stjórnmálaflokkanna blasir við. Þeir eru ekki til fyrir fólkið í landinu. Þeir eru til fyrir sig og flokksmeðlimi. Þetta gildir ekki um suma flokka þetta gildir um þá alla. Embættisveitingar og sporslur til kunningja sanna þetta. Ef einhver vill gagnrýna þetta get ég tekið mér tíma í að týna til tugi tilfella til að sanna mitt mál. En við erum búin að fara í gegnum það áður. Málið er það að við erum búin að þegja og láta þetta yfir okkur ganga í gegnum tíðina. En ekki lengur!

Við höfum sl. vikur orðið vitni að því að forsætisráðherra kemur fram á nokkrum fréttamannafundum og segir okkur að framundan séu skelfilegir tímar. En við komum til með að komast í gegnum þá. Síðan að ástandið sé alvarlegra en að mestu skipti að verið sé að vinna í málinu!

Hvaða skelfilegu tímar? Gerðum við eitthvað af okkur? Frömdum við einhvern glæp sem við vissum ekki um? Og svo hættir hann að halda fundi. Og við höldum áfram að vera eins og spurningarmerki í framan af því að við erum ekki alveg að skilja hvað er í gangi. Annað en það að við erum að missa atvinnuna og húsnæðið.

Auðútrásarliðið er farið erlendis í snekkjusiglingu og nennir ekki að taka þátt í bullinu hér. Það er ekkert meira á okkur að græða.

En við sitjum uppi með reikninga þeirra mistök og ósvífni. Við sitjum líka uppi með hræðileg mistök og óvarlegt gaspur ráðamanna. Og seðlabankastjóra. Ég efa að nokkur maður hafi nokkru sinni skaðað Ísland og íslenska hagsmuni eins mikið og Davíð Oddsson sl. vikur.

Það hafa sl. vikur komið fram mikið af fólki sem var ekki að skipta sér af pólitík en er orðið pólitískt. Pabbi minn sagði við mig fyrir áratugum síðan: Pólitík er mannskemmandi! Hann er trillusjómaður sem kvótakerfið lék grátt. Hann vill bara geta farið út á sjó, veitt og komið í land og landað aflanum. Ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að það sé of mikið af Þorski um borð. Ekki þurfa að eyða tímanum sínum í að fylla út alls konar skýrslur fyrir einhver möppudýr í Reykjavík. Og missa leyfi til að veiða af því að möppudýrin fengu skýrsluna korteri of seint.

Ég byrjaði að blogga út af náttúrunauðgun Landsvirkjunar. Ætlaði ekki að skipta mér af pólitík. Þannig er um marga aðra hér.  Á borgarafundi sl. laugardag var fullt af slíku fólki. Fólk sem vill bara vinna sína vinnu, borga sínar skuldir og lifa sínu lífi. En það er búið að svipta okkur þessu!

Og hverjir eru búnir að svipta okkur þessu? Við fáum engin svör! Hvorki við því né neinu öðru. Okkur er haldið í svartamyrkri þar sem engin leið er að átta sig á hvert skal halda.

Ef að það er ekki falleinkun fyrir stjórnmál dagsins í dag er ekkert það! Ísland og stjórnun þess ER GJALDÞROTA! Þjóðin er það ekki. Við eigum fullt af lausnum, kraft, þor og þrek. 

Burt með stjórnmálamenn, spillinguna möppudýrakerfið og báknið sem Sjálfstæðismenn hafa ofalið!

Síðasta silfur Egils

Bréf um krónubrask, skuldir stórfyrirtækja og sanna áfallahjálp

 


Mótmæli - Skipanir að ofan neyða lögreglu til að sýna vald?

Megum við búast við þessu næsta laugardag?
mbl.is Greint frá mótmælunum erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var þér boðið í þetta partý?

Norah Jones hélt tónleika á Íslandi og XL Group keypti fyrst 3 sætaraðir fyrir sig og sína. X fékk símtal þar sem hann var beðinn um að hjálpa til við undirbúninginn af partíinu fyrir tónleikana sem voru haldnir í Laugardalshöll. Dagana fyrir tónleikana vann hann með öðrum við sviðsmyndir, barina og innganginn sem áttu að vera í partíinu fyrir tónleikana. Það var sérsmíðaður inngangur og göng fyrir XL GROUP gestina. Rauður dregill, ljóskastarar og flauelsklætt handrið meðfram dreglinum. Kastaranir hringsnerust og sköpuðu spennandi andrúmsloft. Fyrir ofan dyrnar var stórt skilti sem á stóð Saturday night club XL Group. Það var búið að há X og félögum nokkuð mikið við vinnuna að það náðist aldrei í forsvarsmenn partísins. Þeir voru staddir í London í öðru partíi á vegum félaga sinna og máttu ekki vera að því að skipuleggja þetta.

Vansvefta eftir yfir 36 klst. vinnu voru X og félagar að leggja síðustu hönd á undirbúning partísins. Salurinn sem gestir XL Group hafði fyrir gesti sína hafði tekið ótrúlegum breytingum. Í loftinu voru sérsmíðaðir kassar úr plexigleri og áli með lýsingu  sem ein og sér hafði kostað rúmar 2 milljónir. Sérsmíðaðir barir og kassar hálfgerðir skúlptúrar með innbyggðum myndvörpum. Hlómsveitarpallur fyrir jasshljómsveit sem átti að spila sem upphitun. Annar pallur fyrir plötusnúð. Sérsmíðuð aðstaða fyrir kokkana. Kostnaðurinn hljóp á fleiri milljónum.

10 mínútum fyrir komu fyrstu gestana voru málarar að leggja síðustu hönd á undirgöngin sem gestir XL Group myndu ganga í gegnum. Rafvirkjarnir voru á fullu og smiðirnir að leggja lokahönd á risastór tjöld fyrir skjávarpana.

Svo komu sendibílarnir með veitingarnar. Stór kassabíll með vínveitingar. Bretti eftir bretti að freyðivíni, rauðu og hvítu. Bjór og sterkara. Stærri bíll með matinn.  Umgjörðin og útlitið gerði X orðlausann. Og svangann! Hann hafði aldrei séð svona glæsilegann veislumat þrátt fyrir ótal fermingarveislur, brúðkaup og afmæli.

Þegar hæst stóð voru um 130 manns á fullu við að gera þessa veislu eins og til stóð. Þegar að iðnaðarmennirnir fóru urðu eftir um 25 þjónar, 10 kokkar, veislustjórar, öryggisverðir, plötusnúðar og hljómsveit.

Gestirnir 300 eða 500 urðu sér til skammar gagnvar Nohru Jones með því að vera of merkilegir til að mæta fyrr en eftir upphitunarhljómsveitina. Sem hún kom fram með.

X hafði áður orðið vitni af því að 50 afmæli viðskiptamógúls sem haldið var í vöruskemmu hafði átt að vera með afrísku þema. Skipuleggjendur þess höfðu lent í því að það voru einhver leiðindi með það að fá alvöru fíl til landsins til að gera þetta trúverðugt. Þeir leigðu ma. indversk teppi og einhverja fleiri hluti af konu sem X þekkti. Þegar upp var staðið greiddu þeir meira en ef þeir hefðu keypt hlutina. En skipti ekki máli vegna þess að FYRIRTÆKIÐ borgaði.

 Eftir Norah Jones tónleikana voru iðnaðarmennirnir kallaðir út. Allt hreinsað út og KEYRT Á HAUGANA!

Fólk er enn að velta fyrir sér hvernig XL Group tókst að eyða 40 milljónum á dag í rekstur. Þetta er eina dæmið sem ég þekki.


mbl.is Kjörumhverfi fyrir spillingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og á ekki að draga þessa lygara til ábyrgðar......

 Menn sem stunda svona fjármálamisferli eins og sést á myndböndunum hér fyrir neðan eiga að þurfa að svara til saka. Við íslensk, dönsk, norsk og sænsk stjórnvöld. Gjaldþrota flugfélag keypt á 4 milljarða, selt á 15 milljarða skömmu seinna, siðast á guð má vita hvað marga milljarða verandi í botnlausum taprekstri til að búa til ímyndaðar eignir byggðum á reyk er glæpamennska.

Eiga forsvarsmennirnir sem stóðu fyrir þessu að labba í burtu með milljarða í rassvasanum, farþega um allan heim strandaða og komast ekki heim til sín og þetta er bara svona „shit happens“ dæmi. Nei þeir eiga að sitja inni fyrir fjársvik og blekkingar. 

„Hún hafi ekki verið reiðubúin að ljúga og því hafi hún verið látin fjúka“. Það hefði verið töluvert meira en ágætt ef einhverjir íslenskir bankamenn hefðu haft sama siðferðiskennd og þessi kona. Þá væri staða íslensku þjóðarinnar önnur.


mbl.is Rekin fyrir að segja ekki ósatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers þurfum við 1.160.000.000.000 krónur?

Hér að neðan eru fyrirsagnir og úrdráttur úr fréttum sem við lesum þessa dagana. Það er nú hægt að verða þunglyndur og reiður yfir minna:
Skatttekjur ríkissjóðs dragast verulega saman
Landsframleiðsla dragist saman um rúm 8% 2009
Vaxtalækkanir í Evrópu -  18% stýrivextir hér.
Spá 10% atvinnuleysi
Spá 40% lækkun íbúðaverðs
Spá 20% verðbólgu
Uppboð jafnmörg og allt árið 2007
kaupmáttur myndi minnka um tólf prósent
Skuldirnar verða komnar nokkuð upp fyrir virði landsframleiðslunnar þegar á næsta ári.
Vaxtagreiðslur af auknum skuldum munu á næstu árum nema tugum milljarða króna.
Þingmenn eins og afgreiðslufólk á kassa

Heimilt er að ráða samtals hátt í 250 héraðslögreglumenn til starfa

Fjölmiðlaeinokun
IKEA hækkar verð um 25%
Fasteignasala dregst saman um 67,5%
Hundrað milljörðum skotið undan
Skuldir heimilanna 1.030 milljarðar króna

Bretar eru að fara að lána „okkur“ 164.000.000.000. kr. vegna icesave. Já 164 milljarða!
IMF og fleiri 996.000.000.000.-  Samtals 1.160.000.000.000 krónur!!!

Hvernig stendur á því að „við“ þurfum á þessum peningum að halda ? Var ekki ríkissjóður skuldlaus og ígóðum gír. Ég man ekki eftir því að hafa tekið nýtt lán. Hvað þá að hafa tekið að mér að vera ábyrgðarmaður fyrir aðra sem ég veit ekki hverjir eru.

Á meðan á öllu þessu stendur fáum við almenningur ekkert að vita en ríkisóstjórnin „er að vinna í málunum“ hvað svo sem það þýðir. Upplýsingar um IMF skilyrðin eru leynileg. Þingið valdalaust.  Almenningur og fyrirtæki að komast í þrot. Fólksflótti jafnvel tugþúsunda framundan.

Og ríkisstjórnin „Haardar“ áfram reynandi að halda okkur í upplýsingaþoku meðan verið er að breiða yfir mesta ósómann og bjarga flokksvinakerfinu. Burt með spillingarliðið!

Áhugaverðar hugmyndir:

Förum í stóra nauðarsamninga - setjum samnigsdrög við IMF í biðstöðu á meðan

Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum

HVERNIG MÁ STÓRAUKA VERÐMÆTI Í ÍSLENSKU HAGKERFI


mbl.is Spá 40% lækkun íbúðaverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband