Þegar reiðin fær ekki útrás...

Það hefur kraumað í mér reiði sl. mánuði. Reiði sem fær ekki útrás með bloggi eða kurteisislegum mótmælum með fyrirfram ákveðinni dagskrá með ræðumönnum, upphafi og endi. Þó einhver lesi reiðilesturinn á blogginu og sé sammála sefar það ekki reiðina. Heldur ekki að hlusta á ræður fólks sem er sammála manni. Reiðin kraumar áfram og í gær skrifaði ég óbirta bloggfærslu þar sem ég ákvað að draga mig í hlé. Hætta að úttala mig um hlutina. Hætta að mæta á friðsamlegu og huggulegu samkundurnar á Austurvelli. Í dag mætti ég á Austurvöll með blendnar tilfinningar. Og Mackintosdós með skrúfum. Sem er ágætis hljóðfæri.

Í dag fékk ég útrás fyrir part af reiðinni yfir glæpum landráðamanna. Og getulausum luðrum sem telja sig stjórnvöld hér á landi.

Ég hef aldrei verið eins stoltur af EKKI ÞJÓÐINNI eins og í dag. Þó ég hafi bara verið til að verða fimm í dag er ég sannfærður um að þetta haldi áfram á morgun. Og hinn og hinn. Þangað til að þeir sem við treystum fyrir landsstjórn átti sig á því að það umboð hafi verið afturkallað í ljósi frammistöðu þeirra.

Í dag varð ég vitni að því að lögreglan notaði piparúða án þess að vera ógnað. Og sprautaði markvisst á ljósmyndara áður en þeir sprautuðu yfir „skrílinn.“

Í dag varð ég vitni að því að í skjóli þess að mótmælin væru „ólögleg“ beitti lögreglan piparúða og kylfum á saklaust fólk sem sýndi „borgaralega óhlýðni“ við  þungvopnaðar óeirðasveitir Björns Bjarnasonar.

 Í dag varð ég vitni af hugrekki fólks á öllum aldri. Fólks sem vill ekki leyfa stjórnvöldum sem stóðu sig ekki að halda áfram að standa sig ekki.

Í dag öðlaðist ég aftur trú á að það sé hægt að laga landið, siðferðisvitundina og verðmat þar sem manneskjan er ofar hámarksgróða ósvífinna hákarla.

Á morgun ætla ég að mæta aftur á Austurvöll. Ef ég verð einn þar eins og skrattinn úr sauðaleggnum legg ég mitt skott niður milli lappa og geng álútur heim. Og hætti þessu helvítis bloggi. En ég held að EKKI ÞJÓÐIN verði þarna líka. 


mbl.is Mannfjöldi á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert óeðlilegt við þetta?

„Fyrrverandi stjórnarmenn fullyrða að ekkert óeðlilegt hafi verið við þessa lánafyrirgreiðslu og afgreiðsla lánanna farið fyrir lánanefnd bankans.“ „Um var að ræða lán til þessara félaga gegn veðum í skuldabréfum sem bankinn gaf sjálfur út.“

Þessum sömu mönnum fannst heldur ekkert óeðlilegt við að fá milljarða í rassvasann í aukagreiðslur og bónusa vegna velgengni og ábyrgðar þeirra. Af hverju eru þeir ekki dregnir til ábyrgðar? Blekkingaleikur þeirra er eftir sama handriti og Enron hneykslið. Þar voru menn dregnir í handjárnum út úr fyrirtækjunum. Hér stofna sömu menn og báru ábyrgð ný fyrirtæki til að ráðleggja starfsmönnum brunarústanna eða kaupa þær á útsölu.

Hvet alla til að skoða þetta viðtal við Jón Ólafsson í Silfri Egils.

 Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki - hlustið vandlega á Jón

Og þetta: Krónan felld á almenning.

 


mbl.is Hundruð milljarða millifærðir á reikninga erlendra félaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldþrota spilling með nýtt andlit.

Það er við hæfi að Framsóknarmenn klúðri formannskjöri sínu. Í stíl við glötuð gildismöt og ákvarðanir flokkseigenda. En skiptir einhverju máli hver þessarra kjálkabreiðu manna á fertugsaldri gegni embættinu? Sér einhver annað en yngri útgáfu af Halldóri Ásgrímssyni eða Guðna Ágústssyni? Sér einhver eitthvað meira en nýjan varðhund um S-hópinn eða flokkseigendafélagið? Finn Ingólfsson sem er búinn að tryggja sér einokun á bifreiðaskoðun allra landsmanna ofl.? Framsóknarmenn, við ykkur vil ég bara segja: Game over! 90 ár af möguleikum til þess að vinna að framþróun landsins hafið þið valið í að hampa spenasjúgandi sérhagsmunatittum ykkar á kostnað almennings. Undanfarnar kosningar hafið þið varið fjallháum upphæðum í trausti gullfiskaminnis kjósenda til að skara eld að köku ykkar. Er þar skemmst að minnast 6.3% fylgis borgarstjórnarfulltrúa ykkar sem í skjóli þessa míkrófylgis varð valdamestur í borgarstjórn. Ykkur hefur aldrei skipt máli það sem heitir lýðræði. Það eina sem hefur komist að er hversu mikið fáið þið fyrir ykkur.

Ég efa það ekki að nýr formaður sé góður maður. Og ég efa það ekki að margir framsóknarmenn halda að flokkurinn sé til góðs fyrir íslensk þjóðlíf. En ég veit ekki um neitt dæmi þess. Aftur á móti veit ég um tugi dæma þess að framsóknarflokkurinn hafi verið góður FYRIR Framsóknarmenn.  Sérstaklega þá sem eiga flokkinn.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er mikil vinna í gangi hjá lögruglunni...

Það er aftur að komast kraftur í mótmælin og næsti þriðjudagur verður spennandi. Fréttamennskan af fundinum er samt enn í anda ríkisóstjórnarinnar, Rúv segir að við höfum verið 2000 manns. Mbl.is segir á fjórða þúsund. Ég hefði haldið nær 5000 manns. En það er eitthvað mikið að þegar þetta er orðin staðreynd hér á landi:

„Ég fer svo og lýk því sem ég þarf að gera og mæti niður á stöð strax eftir vinnu. Þar hitti ég strák úr aðgerðahópunum og sem segir að búið sé að ná í margt af fólkinu. Það hafi verið viktað, mælt , tekin lögreglumynd með númeri, fingraför og allt.“

„Eftir að skýrslutökunni lauk vildi lögreglan fara að spjalla aðeins um mótmælin, hvort mér finndust þau vera friðsöm og eitthvað slíkt. Við ræddum hugmyndafræðina í mótmælum. Oddgeir tók örlítinn þátt í spjallinu, en ekki þannig að ég tæki eftir neinu sérstöku í því sem hann sagði.“

Þegar Sólveig kom heim brá henni hinsvegar illa. Þá fékk hún þær upplýsingar frá systur sinni að Oddgeir bloggaði á moggablogginu og þar léti hann í ljós hreint hatur á mótmælendum og þar hefði hann líka bloggað um þörfina á því að stofna hvítliðasveit. 

Hér er öll greinin.

"9. gr. Lögmanni er skylt að gera skjólstæðingi sínum kunnugt hvaðeina, er kann að gera hann háðan gagnaðila eða gera tortryggilega afstöðu hans til gagnaðila, svo sem frændsemi, samstarf, fjárhagslega hagsmuni eða önnur slík tengsl."  http://www.lmfi.is/logmenn-og-thjonusta/log-og-reglur-um-logmenn/sidareglur-logmanna/ 

Skóli stöðvar auglýsingu um mótmælafund Mótmælafundir víðar um landið en áður


mbl.is Fjöldi manns á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum við ekki að kynna okkur rökin fyrir því að drepa börn?

„Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hafi ákveðið að senda ráðherra í leiðangur til Evrópuríkja þar sem almenningsálitið er ekki Ísraelsmönnum í hag.“ Ísraelsmönnum í hag? Þeir eru jafnhissa og Condoleezza Rice á því að umheimurinn sé ekki sáttur við þjóðarmorð þeirra. Hreintrúaðir gyðingar (Orthodox Jews) um allan heim hafa fordæmt þessar aðgerðir Zíonista Sjá hér.

Nú ætla Zionistar að klára málið áður en Obama sest í forsetaembættið því þó þeir sömu eigi stóran hlut í að koma honum í embætti vita þeir fyrir víst að honum finnst það ekki góð markaðssetning á sér að taka við embætti og styðja það að vegna þess að Hamas skjóta heimasmíðuðum eldflaugum yfir múrinn sé allt í lagi að slátra börnum. Sumir einblína á þau 300 börn sem hafa verið drepin en það eru yfir 1500 önnur alvarlega særð. Og hvernig ætli hinum börnunum líði? Það er ótrúlegt að hér á landi skuli vera til fjöldi Zíonista sem gjammi og gjammi: „Já en hvað með það sem Hamas er að gera“ eða „Ísraelar eru að vernda sig!“ Þess utan eru kosningar framundan í Ísrael og með hverju drepnu barninu aukast vinsældir stjórnarinnar.

„Fréttavefurinn hefur eftir Sheetrit, sem verður sendur til Belgíu, að hann skilji ekki hvers vegna heimurinn sé á móti aðgerðum Ísraelsmanna á Gasa. „Enginn ætti að kvarta við okkur yfir eyðileggingunni á Gaza, heldur ættu þeir að tala við Hamas.

Þessi viðbrögð utanríkisráðuneytisins eru fyrstu merkin um að það renni blóð í æðum einhvers í þessari ríkisstjórn. En of lítil og tilgerðarleg.

Ef það væri raunverulegt markmið ráðamanna í Ísrael að losa sig við Hamas  myndu þeir skipa hernum inn í Gazaborg í návígi. En það hefur áhrif á vinsældir þeirra að ísraelskir hermenn deyji þannig að fosfórsprengjur og krabbameinsvaldandi Dime sprengjur með tilheyrandi fjöldamorðum á saklausu fólki er betri kostur. Það er alltaf hægt að halda blaðamannafund og réttlæta þetta.

 skilyrdi_772454.jpg


mbl.is Heimsókn Ísraela til Íslands afþökkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að gera verr?

„Hann segir að hægt að draga lærdóm af því sem þar kom fram en mikið sé talað um hve erfitt sé fyrir almenning að fá upplýsingar um stöðu mála þrátt fyrir að stjórnvöld hafi reynt að bæta þar úr. „Eflaust má gera betur í þeim málum," segir Jón Þór.“

Er hægt að gera verr spyr ég nú bara eins og bjáni? Hver hefur upplýsingaveita stjórnvalda til almennings verið? Nokkrir stirðbusalegir blaðamannafundir þar sem Geir og valdalausa klíkan rymja út úr sér nokkrum hagfræðistærðum, klisjum og frösum og leyfa svo völdum blaðamönnum að spyrja örfárra spurninga. Svo er sagt stopp, búið, út með ykkur. Nýráðinn fjölmiðlafulltrúi hefur engu breytt.

Þjóðin, ekki bara þeir atvinnulausu og sem eru að missa húsin sín vil fá að vita: Hvað gerðist? Af hverju gerðist það? Hverjir bera á byrgð á því? Hvað er framundan? Og hvernig ætla stjórnvöld að standa að málum? Þetta er ekkert flókið. Einfaldar spurningar þó að vissulega hafi þurft að rannsaka sumt til að svara þeim. En sú rannsókn hefði átt að byrja fyrir 3 mánuðum síðan. Við hefðum átt að fá einhver skýr svör frá stjórnvöldum önnur en bara 7% atvinnuleysi, 18% stýrivexti og 20% verðbólgu. Ríkisstjórn sem hefur ekkert fleira að segja við kjósendur sína er ekki bara vanhæf hún er hættuleg heilsu þinni!

geir_770940.jpg


mbl.is Jón Þór: Áhugaverður fundur með Wade
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttamiðill eða útibú zionista?

Það er erfitt að fá fréttir frá Gaza meðan zíonistar einoka fréttamennsku þaðan. En svona fréttamennska: „Hamas-samtökin eru einnig á krossgötum. Fallist þau á vopnahlé verður Gaza-búum hlíft við enn meiri blóðsúthellingum og eyðileggingu,“ og þetta: „og knýja þau til að fallast á vopnahlé samkvæmt skilmálum Ísraela. Þetta myndi leiða til enn meiri blóðsúthellinga og hörmunga meðal Palestínumanna“

Þetta er ömurleg fréttamennska þess sem vinnur ekki vinnuna sína. Zíonistar hafa þegar kallað fram hluta af varaliði sínu. Þeir eru einnig með málaliða í hernum vegna þess að venjulegir ísraelar eru ekki sáttir við zíonískar lausnir ráðamanna. IDF eða eins og þeir kalla sig Israeli Defence Force eru ekkert að vandræðast með að drepa barn eða börn í viðbót. En meðan áróðursdeildir þeirra eru að tapa stríðinu um almenningsálitið halda þeir aftur af sér.

Morgunblaðið eins og aðrir fjölmiðlar hér, ef þeir vilja láta taka sig alvarlega eiga að reka sjálfstæða fréttamennsku. Ekki lepja upp Bandarískan áróður frá þeim sem stjórna þarlendum miðlum.


mbl.is Ísraelar á krossgötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir okkur að vera varkárir þýðir drepum þau öll!

„Fyrir okkur að vera varkárir þýðir aggressífir“! Þetta eru orð ísraelsks herforingja sem útskýrir svo hertækni þeirra: „Ef okkur grunar að það sé hryðjuverkamaður í húsi sendum við flugskeyti á það, skjótum svo tveimur fallbyssuskotum úr skriðdreka og keyrum síðan yfir húsið með jarðýtu“! Meira.

palestine007_769302.jpgÍsraelar nota einnig sprengjur með hvítu fosfór sem eru bannaðar til annars en sem lýsing eða felureykur.  Samkvæmt Genfarsáttmálanum er bannað að nota þetta vopn til annars en ísraelar nota þetta á varnarlausa borgara Gaza. Fosfórið skapar skelfilegan bruna á holdi sem versnar við að reyna að slökkva í með vatni.

Rúv er núna að segja frá djöfullegum geislavirkum sprengjum sem ísraelar nota á saklaust fólk jafnt sem Hamas skæruliða. Mörgum dögum eftir að ég og fleiri hér á blogginu höfum skrifað um þetta. 

palestine255.pngMeð  því að svelta palestínumenn, halda frá þeim lyfjum, rafmagni og vatni. Niðurlægja í alla staði og kúga. Sprengja þá upp og drepa með fullkomnustu vopnum sem nokkur her á mætti ætla að alþjóðasamfélagið rumskaði.

En ekki frekar en við Rúandaþjóðarmorðin verður brugðist við fyrr en of seint.  Mín mistök í fyrri greinum er að segja að þetta sé verk gyðinga. Strangtrúaðir gyðingar (Orthodox Jews) styðja ekki Zíonista sem standa fyrir þessum þjóðernishreinsunum. Það er efni í aðra grein en gera þarf skýran greinarmun á gyðingum og Zíonistum sem hafa það á stefnuskránni að losa það sem þeir kalla Landið helga við alla araba.

palestine003_769285.gif


mbl.is Olmert: Nálgumst markmið okkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýrt blóð og dýrmætt - þú sem Íslendingur berð ábyrgð á því sem er að gerast!

Það hafa 10 ísraelskir hermenn fallið núna þegar þetta er skrifað í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum á Gaza. Mönnum sem fela sig innan um óbreytta borgara. Skjóta flugskeytum frá skólum og barnaheimilum. Látum vera að 4 af þessum 10 ísraelsku hermönnum hafa fallið fyrir hendi félaga sinna.  Látum vera að yfir 783 óbreyttir palestínskir borgarar hafa fallið í átökunum þar að þriðjungur börn. Yfir 3500 manneskjur særst. Að 75% Gaza svæðisins sé rafmagnslaust og læknar þurfi að velja á milli þess að hafa hitakassa fyrirbura tengda eða geta framkvæmt aðgerðir á slösuðu fólki. Án allra nauðsynlegra lyfja og tækjabúnaðar. Látum vera að ísraelski herinn sjái til þess að einu fréttaflutningar af svæðinu komi frá þeim. Aðrir fá ekki að koma þangað. Látum vera að fólk hafi ekki drykkjarvatn, sjúkragögn, matvæli eða möguleikann á því að flýja frá drápsvélum fullkomnasta og þjálfaðasta hers heimsins. Látum vera að hlusta á fréttir af því að 11 manns í sömu fjölskyldu hafi verið drepnir í flugskeytaárás og eini eftirlifandinn, átta mánaða stelpa hafi misst handlegg í árásinni.

Tölum ekki um hver ber sökina. Þar eru ótal sjónarmið en ég ætla ekki að fara út í þau. Tölum um það að það er verið að drepa börn, konur, gamalmenni og já kannski líka hryðjuverkamenn. Tölum um kostnaðinn við að drepa þessa hryðjuverkamenn. Tölum um út af hverju þessir hryðjuverkamenn hafa svona mikinn stuðning meðal Palestínumanna.

Við vitum það að ef við króum af dýr út í horni snýst það til varnar. Það gildir það sama um manneskjuna. Gaza er hertekið landssvæði sem Ísraelar hafa gert að stórum fangabúðum þar sem öll grundvallarmannréttindi eru fótum troðin af kúgurunum.

Taktu frá þér réttinn á að vera Íslendingur. Taktu frá þér réttinn á því að eiga föðurland. Taktu síðan frá þér réttinn á að stunda atvinnuna þína. Sviptu þig rafmagninu, mat, vatni og aðgangi að heilsugæslu. Taktu svo frá þér réttinn til að ferðast frá höfuðborgarsvæðinu til Selfoss án þess að vera afklæddur, bíllinn þinn grandskoðaður og ólétt konan þín niðurlægð af brúarvörðunum á Selfossi þar sem þeir heimtuðu að hún sýndi á sér bumbuna og sannaði að hún væri raunverulega ólétt  meðan aðrir meðlimir brúarvarðanna létu þig vita að þú gætir ekki gert þessa konu ólétta. Það væri greinilegt að þetta væri annarra manna verk. Svona vinna IDF hermenn Ísraels. Hermennirnir berja þig fyrir að mótmæla ummælum og meðferð á konunni þinni. Og ef þeir eru í slæmu skapi skjóta þeir þig. Og komast upp með það án eftirmála.

Þú kemst í gegnum Selfoss. Með sært stolt og tilfinninguna fyrir því að geta ekki verndað konuna þína fyrir kúgurunum. Þarft svo að endurtaka þetta daginn eftir. Og þann næsta. Lítillækkunin er alger. Þú ert hundur. Rakki þeirra sem ráða. Sumt af því sem ég hef lesið á vefum ísraelskra landnema hef ég neitað að trúa að sé raunverulegt. Þverskurðurinn er eins og var hjá landnemum Bandaríkjanna: Eini góði rauðskinninn er dauður rauðskinni! Skiptir engu hvort um barn, konu eða karlmann sé að ræða. Raunar tala sumir Zionistar um alla Palestínumenn sem Vermin eða skordýr sem þarf að uppræta.

 Það að hlusta á sendiherra Ísraels í gærkvöld og áður Livni utanríkisráðherra og fleiri gyðinga réttlæta morðin á tugum barna og enginn mótmælir hryggir mig óendanlega. Gleymum því ekki að Evrópusambandið á í miklum viðskiptum við Ísrael. Þess vegna mjálma þeir hjáróma og ótrúverðuglega gagnvart glæpum Zionista. Gleymum því ekki að allar hernaðarnýjungar Bandaríkjanna eru fyrst teknar til æfinga af Ísraelum gegn Palestínu. 

Staðhæfingar Zionista um að Hamasliðar feli sig á milli óbreyttra borgara eiga að mínu mati við rök að styðjast enda hef ég aldrei viljað í mínum skrifum styðja þá frekar en Fatah hreyfinguna sem ég veit að er gerspillt.

En það breytir því ekki að börn og óbreyttir borgarar eru ÓÁSÆTTANLEGUR FÓRNARKOSTNAÐUR í átökum. Það er það hvorki í augum Hamas eða ísraela. Hamas notar sér mannlega skildi en ísraelum er ALVEG SAM ÞÓTT ÞEIR DREPI SKILDINA eða aðra. Börn eða ekki! Það er málið.

Tilraunir með nýtt viðbjóðslegt vopn!

Ísraelar eru að beita núna í fyrsta skipti nýrri sprengju sem tekur öllu öðru fram í viðbjóði. Meira að segja klasasprengjurnar komast ekki nálægt DIME sprengjum í viðbjóði. Í færslunum mínum hér fyrir neðan eru tenglar sem sýna hversu mikill viðbjóður þetta er. Þeir sem sprengjan drepur ekki strax en særastdrepast af krabbameini sem hún veldur.

Fyrir þá sem hafa lesið þetta og eru á báðum áttum vil ég benda á tengingarnar og myndbandið hér að neðan. Svo má vekja athygli á tímasetningu árásar Ísraela. Það er stutt í kosningar hjá þeim og ráðamenn hafa hækkað mikið í vinsældum sl. vikur. Á sama tíma er forsetaembætti Bandaríkjanna milli tveggja forseta og engin hætta á hörðum viðbrögðum þar. Tilviljun?

Íslendingar (Thor Thors) fluttu tillöguna um stofnun Ísraelsríkis hjá Sameinuðu þjóðunum. Þó að það hafi verið töluvert minna en ísraelar hafa síðan sölsað undir sig þá berum við ábyrgð. Ábyrgð sem felur í sér að við eigum núna að slíta stjórnmálasambandinu við Ísrael og sýna fyrirlitningu okkar á þessum viðbjóðsslegu slátrunum á saklausu fólki.

 Blogg frá palestínumanni á Gaza: Three fleeting hours of respite – so we rushed out looking for bread

The West Bank: We're all Hamas now - supporters of Fatah unite behind enemy

Papal response: Vatican compares Gaza to Nazi camp

Bombing to make the Gaza prison even more secure for Israel

Norwegian doctor: Israel intentionally targeting civilians

Holocaust Denied

Could Israel Be Charged With War Crimes?


mbl.is Ísraelar halda hernaði áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir Jón Þórisson er hetja mótmælanna!

Þrátt fyrir að ég sé eindreginn stuðningsmaður mótmælanna og satt að segja styðji aðgerðir „orkanna“ þar sem mér finnst þörfin á því að losa okkur við „landráðamennina“ og draga glæpamennina til ábyrgðar vera fremst í því ástandi sem nú er get ég ekki annað en dáðst að Geir Jóni og framgöngu hans.  Lögreglustjóratitturinn sem Björn Bjarnason skipaði sennilega eftir flokksskírteini hefur ekki komið eins vel út í möppudýrareglugerðarframkomu sinni. Allt eftir bókinni og skipunum að ofan býst ég við. En meðan Geir Jón er í forsvari fyrir lögregluna er enn von um að það fari ekki allt í bál og brand. Ekki mikil því reiðin magnast með hverjum sem verður atvinnulaus og sér fram á að missa eigur sínar.

Það er ömurlegt að sitja uppi með þessar gufuluðrur á þingi og í ríkisstjórn og sjá ekki fram á neitt annað en aumt yfirklór og hyglingar valinna í vandanum. Við þurfum að losa okkur við alla þingmennina, ráðherranefnurnar, fjármálaóeftirlitið, bleðlablankann, útrásarógeðin, sjónlausu samkeppnisstofnunina, kolkrabbann, krossfiskinn og SÍS mafíuna.

En höldum Geir Jóni.

Ég kynntist honum fyrst fyrir um 30 árum síðan þegar hann sennilega óafvitandi braut lög. Gaf út símaskrá Vestmannaeyja með félögum sínum í Eyverjum, félagi ungra Sjálfstæðismanna í eyjum. Prófarkalas hana og kvittaði fyrir. Á þessum tíma var forstjóri símans í eyjum gegnheill kommúnisti og Síminn hafði einkarétt á útgáfunni. Ég vann þá í prentsmiðju í eyjum og við prentuðum þessa skrá að næturlagi og komum undan áður en tókst að stöðva okkur. Þá var Geir Jón lögregluþjónn í eyjum. Og þurfti að hlýða skipunum símakommans. Sem hann gerði. Hann gerði upptækar allar NOTUÐU prentplöturnar okkar og pappírsbunka þar sem við höfðum prentað vitlausar síður saman. Þetta mál varð á endanum til þess að þessi fáránlega einokun Pósts- og síma á útgáfu staðbundinna símaskráa var afnumin. Þetta sýnir að þó maður sé löggimann getur maður breytt samfélaginu. Það þarf bara að hvísla því að Gazmann.


mbl.is Fullt út úr dyrum í Iðnó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.