HJÁLP!

HJÁLP!

Við þurfum nauðsynlega á hjálp ykkar að halda.

„Við“ erum nokkrir íbúar við neðri hluta Þjórsár þar sem áætlað er að reisa þrjár nýjar vatnsaflsvirkjanir þ.e. „Urriðafossvirkjun“, „Holtavirkjun“ og „Hvammsvirkjun“.

Þetta svæði og reyndar stórir hlutar alls Suðurlands er eitt virkasta jarðskjálftasvæði á Íslandi. Afleiðingar stíflurofs yrðu geigvænlegar fyrir allt svæðið en þó að stíflurof komi ekki til er ekki um öruggar framkvæmdir að ræða.



Stærsta vandamálið liggur í áætluðum lónsbotnum en þeir munu ekki halda tryggilega vatni þar sem sprungur, allt upp í 15 km djúpar, eru í berginu á lónssvæðunum sjálfum. Engin tækni gæti komið í veg fyrir leka og gert lónsbotnana fyllilega vatnshelda. Þetta þýðir í raun að áhrifa muni gæta í grunnvatnsstöðu á bújörðum á svæðinu allt í kring, sem muni aftur leiða til þess að ekki verði lengur hægt að nýta landið til hefðbundins búskapar. Afleiðingar fyrir íbúana yrðu bersýnilega að landið yrði verðlaust og fólk myndi flosna upp af jörðum sínum.

Hingað til hafa uppistöðulón aðeins verið gerð á óbyggðum víðáttumiklum svæðum þar sem framtíð búskapar er ekki stefnt í bráða hættu.
Verði af fyrirhuguðum virkjunum í neðri hluta Þjórsár myndi það brjóta blað í virkjanasögunnu. Íbúum svæðisins yrði vísvitandi uppálagt að annað hvoru búa við stöðugan ótta eða hreinlega yfirgefa bújarðir sínar. Á þessu fallega svæði búa margar fjölskyldur með börn. Hver tekur á sig 100% ábyrgð að ekkert við áætlaðar framkvæmdir stefni lífi þeirra og framtíð í voða?

Sjá upplýsingar “Faults and fractures of the South Iceland Seismi Zone near Þjórsá eftir Dr. Pál Einarsson jarðeðlisfræðing og prófessor við Háskóla Íslands.

Við biðjum um stuðning ykkar, þar sem við erum hrædd. Hræðsla sem er byggð á fengnum jarðfræðiupplýsingum um svæðið og getur því ekki talist óþörf. Hræðsla við afleiðingar sem þetta getur haft á líf okkar, eignir og framtíð.

Þó að þú búir ekki við Þjórsá gætu heimkynni þín einnig orðið fyrir barðinu á virkjanframkvæmdum í framtíðinni. Því er svo mikilvægt að samstaða verði um að koma í veg fyrir hamfarir með því að sameinast um hagsmunamál á afmörkuðum stöðum á landinu. Við munum standa með þér líka!

KÆRAR ÞAKKIR!

Skjalið sem PDF 

Myndin er tekin við Þjórsá. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Við hin áköllum stóran meirihluta þjóðarinnar um hjálp við það að láta raunverulegu skoðun sína í ljós: að næstu nauðsynlegu virkjanakostir endurnýjanlegrar orku til þess að halda háum lífsgæðum í þessu landi eru vatnsföllin sem þú nefnir. Ekki er verið að færa til 1,3 milljónir manna eins og í Þriggja gljúfra stíflunni í Kína, heldur að taka áhættuna á því að jarðvegur þorni á nokkrum bæjum og verður þá eflaust vel bættur af okkur.

Ívar Pálsson, 15.9.2007 kl. 14:47

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég ákalla þá sem eiga afkomendur í þessu landi eða gera ráð fyrir því að eignast þá.

Standið þétt við bakið á þeim sem vilja vernda landið okkar fyrir óhæfuverkum!

 Nú heimta spákaupmenn einnar kynslóðar að fá tafarlaust til afnota allar sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar til ráðstöfunar svo gróðapungar geti hagnast meira og keypt upp það sem eftir er óselt af því landi sem fóstraði þessa þjóð gegnum aldir.  

Árni Gunnarsson, 15.9.2007 kl. 16:11

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

"að næstu nauðsynlegu virkjanakostir endurnýjanlegrar orku til þess að halda háum lífsgæðum í þessu landi eru vatnsföllin sem þú nefnir." Þessa orku á að selja á útsöluverði til mengandi stóriðju sem Íslendingar fást ekki einu sinni til að vinna í sbr. það að Fjarðarál vantar enn 100 starfsmenn. Ef íslenska ríkið og efnahagurinn hefur ráð á þeirri kvótaskerðingu sem er núna í gangi hvaða "nauðsyn" er þá á þessum virkjunum? Raforka, hreint vatn, hrein náttúra verður verðmætari með hverjum deginum. Það er þegar byrjað að tala um vatnið sem "bláa gullið" eins og olían var svarta gullið.

Nei Ívar þú þarft að kynna þér málin betur áður en þú lætur þinn alfrelsandi Hannes Hólmstein stjórna hugsunum þínum. Kapitalismi er ekki að hirða eyrinn og henda krónunni eins og þessar virkjanaframkvæmdir gera.

Og þetta ákall bændanna snýst ekki um að jarðvegur þorni heldur það að ræktarlönd þessara bænda verði forarsvað og mýri á nokkrum árum. Og hallærislegur málflutningur Landsvirkjunar um "mótvægisaðgerðir" og bætur er kjaftæði frá þeim sem hefur getað svínbeygt Skipulagsstofnun, umhverfis- og landbúnaðarráðuneyti ásamt öllum öðrum stofnunum og einstaklingum undir sig ef þeim þóknast svo.  Vinna heimavinnuna!

Ævar Rafn Kjartansson, 15.9.2007 kl. 21:50

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Ævar Rafn, ég hef sjálfstæðar hugsanir og birti þær við lestur greinar þinnar. Hvort sem einhverjir jarðarhlutar gætu blotnað eða þornar gildir einu, dómsstólar myndu þá ákveða réttar bætur. Ég er raunar fylgjandi kröfu sveitunga þinna um háar bætur, því að orka er og verður verðmæt. En ekki nema hún sé virkjuð. Óbeisluð orka er verðlaus þangað til.

Ívar Pálsson, 15.9.2007 kl. 22:50

5 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ok Ívar. Í fyrsta lagi hafa bætur oftast farið eftir því sem Landsvirkjun finnst sanngjarnt. En aðalmálið er að þörfin er EKKI til staðar. Ekki allavega fyrir íslenskt samfélag. Og það að við stuðlum að því að einhver kolaverksmiðja erlendis leggi upp laupana við náttúruvænu orkuna okkar er líka blekking enda eru virkjanamöguleikar okkar dropi í hafið miðað við virkjanamöguleikana td. í Afríku. Og þá er ekki verið að meina með eins dramatískum og nasískum tilburðum eins og virkjanaframkvæmdir kínverja.

Ég virði þínar skoðanir þó ég sé ósammála enda finnst mér eins og þú myndir sjá meiri hagsmuni í  því að virkja ekki með því að hugsa málið til enda. Það er ekki eins og við séum í kapphlaupi um að ná í sætustu stelpuna á ballinu. Það verður aftur ball um næstu helgi!

Ævar Rafn Kjartansson, 15.9.2007 kl. 23:08

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mun hjónaskilnuðum fækka ef Þjórsá verður virkjuð? Gráta færri vanrækt börn? Munu færri gefast upp fyrir óbilgjörnum kröfum samfélagsins? Mun ásók í fíkniefni minnka? Munu færri ungmenni tortímast gleymd í hraðlestinni til gróðans? Munu biðlistar á Litla-Hraun tæmast, eða viðskiptavina sálfræðinga og geðlækna og biðlistar á BUGL? Munu einhverjar öldur samfélagsins hljóðna? Mun okkur í stuttu máli líða betur? 

Mér finnst þetta aðalatriði og ef svörin eru já, þá skal ég endurskoða mína afstöðu.

Árni Gunnarsson, 16.9.2007 kl. 14:46

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Einu sinni var sagt um Reykjavík að hún byrjaði í Bráðræði og endaði í Ráðaleysu. Kannski má færa þessa gömlu sögu frá 19. öld upp á Landsvirkjun.

Ef ekki hefði verið þetta bráðræði að virkja við Kárahnjúka væri þetta fyrirtæki nánast skuldlaust. Núna eru skuldirnar orðanr himinháar og á þeim bæ virðist vera svipað upp á tengingnum og hjá léttlyndum presti  og lesa má í þjóðsögunni um Dansinn í Hruna. Einn dans enn! Eina virkjun enn, og aðra, og enn aðra....

Hvar endar þetta öðru vísi en í ráðaleysi eins og forðum? Virkjanir verða ekki reistar nema fyrir mikið lánsfé og spurning er hversu hagkvæmar þessar framkvæmdir eru. Ef greiða þarf margfalt fé í skaðabætur en þeir landsvirkjunarmenn telja hæfilegt, þá er ljóst að hvert uppsett megavatt verður Landsvirkjun dýrt. Þar á bæ eru menn að reyna að telja sjálfum sér trú að bætur þurfi ekki að borga hærri nema þeir telja hæfilegt. Nú er Landsvirkjun sem ekki hefur síðasta orðið um hve háar skaðabætur beri að greiða. Vel kann að vera að meira land og verðmætara spillist en talið er í fyrstu. Grunnvatnið verður hærra hvarvetna þar sem uppistöðulónin eru.

Varðandi þessa 19. aldar sögu þá var bær einn vestast í Vesturbænum sem nefndur var Bráðræði og Bráðræðisholt er kennt við. Það var syðst við Seljaveginn, sumir segja bær þessi hafi staðið við Framnesveg. Ráðaleysi var hús nokkurt nefnt sem byggt var skammt ofan við Laugaveg 40 innan um stórgrýtið sem einkenndi Skólavörðuholtið lengi vel. Það þótti lítil ráðdeild að reisa hús á þessum stað og færðist þetta uppnefni fljótlega á húsið. Þar sem Bráðræði var vestast í bænum en Ráðaleysi austast í bænum var þetta lengi notað af þeim sem fannst nóg af vexti Reykjavíkur.

Gangi ykkur vel baráttan gegn þessum gríðarlegu hagsmunum sem virðast vera að baki þeim álfurstum sem vilja fá ódýra aðstöðu á Íslandi. Við þurfum að kunna að segja við þá sem vilja halda dansinum áfram: nei - nú er komið nóg af því góða!!!

Mosi - alias 

Guðjón Sigþór Jensson, 16.9.2007 kl. 18:36

8 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Leyfi mér að feramsenda þetta á síðuna þína"

Walter Schmitz og kona hans Daniela munu verða með opið hús fimmtudaginn 20.september kl. 17:00 – 19:00 að bænum Skálmholtshrauni í Flóa.

Þau munu þá segja frá reynslu sinni af fyrirhuguðum Þjórsárvirkjunum og undirbúningi þeirra, samskiptum við Landsvirkjun o.fl..  Walter hefur einnig framkvæmt sjálfur hæðarmælingar á landi sínu og hefur trú á því að vatn geti flætt úr Þjórsá yfir í Hvítá og valdið þar tjóni.Walter og Daniela óska eftir því að sem flestir mæti og hlusti á sjónarmið þeirra en þau hafa búið að Skálmholtshrauni í 12 ár og stundað hrossarækt.

Til þess að fara að Skálmholtshrauni er ekið framhjá Bitru og upp Skeiðaafleggjarann. Beygt er til hægri fljótlega þar sem stendur á skilti: Skálmholtshraun

Og ekið alla leið eftir malarvegi þangað til hann endar við hús Walters og Danielu.

Virðingarfyllst, 

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, jarðfræðingur. Erlurima 8, 800 Selfossi,Sími 562 4776.

Valgerður Halldórsdóttir, 19.9.2007 kl. 11:26

9 Smámynd: Benjamín Plaggenborg

Ívar Pálsson sagði hér að "hvort sem einhverjir jarðarhlutar gætu blotnað eða þornar gildir einu, dómsstólar myndu þá ákveða réttar bætur."

Eftir því sem ég best veit hafa landeigendur við Kárahnjúka enn ekki fengið bætur sínar. Við það má bæta að Landsvirkjun beitir óheiðarlegum aðferðum við samningaviðræður við landeigendur, svo réttlæti hefur ekkert með málin að gera. 

Benjamín Plaggenborg, 21.9.2007 kl. 12:58

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þetta þýðir í raun að áhrifa muni gæta í grunnvatnsstöðu á bújörðum á svæðinu allt í kring, sem muni aftur leiða til þess að ekki verði lengur hægt að nýta landið til hefðbundins búskapar.

Ef virkjanir verða til þess að leysa stærsta umhverfisvandamál Íslands, landeyðingu af völdum ágangs búfjár, þá eru þær ekki alslæmar.

Theódór Norðkvist, 23.9.2007 kl. 02:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.