Ég, fallagrösin, framsókn og elskulegt álið

"Þar fyrir utan hefur verið mikil pólitísk óeining um stóriðjuuppbyggingu og ef við ætlum ekki að færa öfgafullum andstæðingum slíkrar uppbyggingar alla sigra á silfurfati þá verðum við að hægja á ferðinni."

Skv. þessari staðhæfingu Bjarna Harðarsonar þingmanns framsóknarflokksins erum við öll sem setjum okkur upp á mót við álgræðgisvæðingu framsóknar öfgafólk! Það fær mig til að hugsa um hvernig þessir álhausar hugsa. Og þó að Bjarni sjálfur sé kannski ekki einn þeirra þá er þetta mengjadæmi þar sem allir sem eru á móti mismunandi álverum og virkjunum af mismunandi ástæðum settir af framsókn á sömu hilluna merktri öfgamönnum.

Lítil erlend stelpupísl sem mótmælti í nafni Saving Iceland er núna orðin á Íslandi það sama og John Lennon var í ameríku J. Edgars  Hoover. Ógn við samfélagið og hvernig það hugsar. Á sama tíma fá erlendir verkamenn 438 krónur á tímann við að reisa glæpinn á Kárahnjúkum og eru reknir úr landi ef þeir ýlfra undir svipunni. Og alþjóðleg fíkniefnamafía sem framsókn ætlaði að uppræta með "milljarði í fíkniefnin" hefur aldrei verið umsvifameiri.

Ég fæ oft framan í mig að það sé þversögn í baráttu minni gegn álverum, virkjunum og stóriðju. Ég drekki jú gos og bjór úr áldósum, noti álpappír við grillið og ferðist með flugvélum smíðuðum úr áli.  Fæ líka þau rök að ekki hafi verið bent af andstæðingum álvera og virkjana á neitt annað sem kemur í staðinn fyrir þessa uppbyggingu og vítamínsprautu í byggðalögin. Hvað hef ég upp á að bjóða í staðinn fyrir verksmiðjurnar sem eru markaðssettar sem bjargvættir byggðalaganna. Ætla ég að tína fjallagrös, brugga vín úr krækiberjum, sýna hvali, opna kræklingasetur á Séstvarlavík eða markaðssetja íslenska lopann sem New York trend? (Krækiberjavínið er reyndar snilld ef það er rétt gert).

Nei ég ætla ekki að gera neitt af þessu. Ekki einu sinni að gera fjórar bóndakonur á Hvammstanga að tæknilegum ráðunautum fyrir  Microsoft. Ég ætla ekki að gera neitt! Og ríkisstjórnin á ekki að gera neitt nema að sjá til þess að kvótaskerðingin verði bætt þeim sem verða fyrir henni. Og það felst ekki í því að mála hús sem ríkið hefur sleppt því að mála í mörg ár. Jú raunar á hún að koma því í verk sem átti að gera fyrir áratugum. Koma samgöngumálum milli landshluta af steinaldarstiginu.

Þessi málatilbúningur að ef við virkjum ekki og setjum niður álver alls staðar þar sem er fólksflótti eða niðursveifla verði atvinnuleysi og kreppa kemur frá ofboðslega þröngsýnu og  kjálkabreiðu fólki sem dags daglega gengur undir samheitinu framsóknarmenn. Þetta fólk hefur áunnið sér ákveðina auðmýkt gagnvart erlendu auðvaldi enda eytt fjölda milljóna af íslensku skattfé í að staupa við stóra forstjóra knékrjúpandi og betlandi í auðvaldinu að taka að sér að uppfylla mengunarkvóta landsins þar sem það hljóti að vera hægt að fá "aðra" undanþágu til að menga. Og svo þurfi þeir ekki að borga fasteignagjöld eða annað sem íslensk fyrirtæki eru skyldug til að greiða vegna þess að ef erlendu auðhringirnir koma til Íslands verður yfirmaður þröngsýna flokksins áfram á þingi og afleiðingarnar að gjörðum flokksins koma ekki í ljós fyrr en eftir fullt af kosningum.

En það er misskilningur að ég sé á móti áli. Bara alls ekki. Finnst þetta frábær málmur. Ástæðurnar fyrir því að ég sé á móti sumum virkjunum og álverum eru mjög misjafnar. Ástæðurnar fyrir því að ég sé á móti virkjunum í neðri Þjórsá hef ég talið upp í nokkrum færslum hér. Ég kaus á móti stækkun álversins í Straumsvík af nokkrum ástæðum.  Í fyrsta lagi finnst mér álverið vera orðið hryllilega stórt og ljótt nú þegar og stækkunin agaleg kaun á framtíð Hafnarfjarðar. Í öðru lagi er ég á móti virkjunum í neðri Þjórsá eins og ég hef áður talið. Mengunar- og háspennumöstrin skipta máli líka.  Er ég á móti álveri í Helguvík? Já, neðri Þjórsá aftur. Álverið sjálft yrði samt sennilega vel falið fyrir okkur. Álver á Bakka? Jarðhiti sér um raforkuna. Ég hef ekki kynnt mér málin nógu mikið til að taka afstöðu. Álver í Þorlákshöfn? Álver og átappað hreinasta vatn heimsins á sama skika? Veit ekki + neðri Þjórsá.

Málið er bara það að við glímdum lengi við einhæfan útflutning sem hét þorskur. Það stefnir með framsýni þeirra kjálkabreiðu í að við verðum með annan jafn einhæfan útflutning áfram í forsæti. ÁL! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjar Hólm Bjarnason

Eins og margoft hefur verið bent á þá væri alt í lagi að sú þjóð sem mest notar af áli í heiminum, færi að taka til í bakgarðinum hjá sér og endurnota það ál sem kastað er þar. Þar á ég að sjálfsögðu við Bandaríki N-Ameríku. Þar er talað um að ef ál þar sem notað er í dósir væri endurnýjað væri hægt að losna við eins og eitt álver upp á 450 þús. tonn og þá hefðum við t.d. getað notað raforkuna til að framleiða blóm og grænmeti á, eins og það myndi vera kallað hér á landi, vistvænan hátt og þessir bændur fengju að kaupa rafmagnið á sama verði og álverksmiðja. Eða fiskvinnsluhúsin fengju að njóta gæðanna sem framleidd eru hér á landi og fengju einnig rafmagn á áltaxta. Það væri hægt að gera ýmislegt ef við Íslendingar fengjum að sitja við sama borð og útlendingar gagnvart rafmagnsverði.

Af hverju þarf alltaf að mergsjúga landann en flytja út gæðin og aðrir hagnist á þeim?

Brynjar Hólm Bjarnason, 5.10.2007 kl. 18:16

2 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég var farinn að halda að þú værir orðinn ritlatur, ég dreg það hald til baka, fínasti pistill.

S.

Steingrímur Helgason, 9.10.2007 kl. 00:11

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mosa skilst að ef Bandaríkjamenn tækju upp á þeirri góðu iðju að safna áldósum og tækju upp endurnýtingu eins og þekkist hjá flestum siðuðum þjóðum mætti loka nánast öllum álverum á Norðurlöndum og jafnvel víðar. Svo mikið er bruðlað með dýrmæta framleiðslu í því landi þar sem í eina tíð var kallað ríkasta land heims. Í dag er það orðið eitt það skuldsettasta og er það miður.

Nú er Jakob Björnsson fyrrum orkumálastjóri sennilega hættur að skrifa í bloggið sitt. Einhverju sinni vildi Mosi fá hann til sem fyrrum orkumálastjóri á Íslandi að skrifa forseta Bandaríkjanna með þeim vinsamlegu tilmælum að hvetja Bandaríkjamenn að þeir tækju upp á endurvinnslu áldósa. Myndi Mosi eindregið vilja gjarnan leggja hönd á plóg við slíkt þarfaverk.

Því miður hefur ekki orðið af því aðþví best er vitað.

Nú blasir ekki björgulega vel við Landsvirkjun. Nánast allt framkvæmdarfé er uppurið ef fréttir í blöðum eru réttar og nú er von á lokareikningi vegna þessarar umdeildu virkjunar eystra frá Imprégíló. Það má vænta þess að okkur verði ekki hlíft við þau skuldaskil enda var nánast stutt í gjaldþrot þessa fyrirtækis þegar það fékk samninginn um gerð virkjunarinnar. Verður kannski Landsvirkjun tekin upp í skuld? Mosi óttast að svo geti farið. Þá gætum við allir mörlandar átt von á rafmagnsreikningum á ítölsku og kannski verður innheimt með aðstoð  mafíunnar ef við botnum ekkert í því framandi tungumáli.

Það er hræðilegt til þess að hugsa en svo gæti farið enda hafa íslensk stjórnvöld sýnt af sér ótrúlega léttúð að opna landið fyrir meiri vandræðum en í upphafi var ætlað að leysa.

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 10.10.2007 kl. 20:57

4 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Jakob Björnsson er persónuvættingur fyrri hugsana sem snerust allar um að knékrjúpa fyrir erlendu auðvaldi í auðmýkt þess sem ætlar sér að þiggja molana sem falla frá matarborði viðkomandi. Þe. gamla moldarkofahugsanaháttar mörlandans undir dönskum. Hann og hans rök eru góð og gild miðað við það og kallinn greinilega klár.  En eins mikil tímaskekkja og orf og ljár. Hvernig Impreglio og Landsvirkjun og allir starfsmannasamningarnir koma undan vetri verður svo efni sagnfræðinga í framtíðinni. Og þolir sennilega ekki allt dagsins ljós. En Halldóri tókst að lafa á þingi og það skipti meira máli en að stærsta umhverfisslys Evrópu hefði litið dagsins ljós við þennan viðbjóð. En reikningar á ítölsku verða vart verri en þeir sem við fáum núna með seðilgjöldum, bleðilgjöldum og meðvirknisálagi.

Ævar Rafn Kjartansson, 10.10.2007 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.