Hámenntaðir sultugerðarmenn Vegagerðarinnar eða pólitískt marmelaði?

KL. 07.52 lagt af stað úr Hafnarfirði. Mæting 08.30. Meðalhraði 10,08 km. á klst. 54 mínútum síðar komið á áfangastað. Það var margt áhugavert að skoða á leiðinni. Konan í bílnum fyrir framan mig var að mála sig og meika. Setja á sig maskara og bursta á sér hárið. Það tók hana oft lengri tíma að taka af stað aftur en ég er viss um að hún hafi litið alveg skínandi vel út þegar hún kom til vinnu. Það er nefnilega ýmislegt hægt að gera á þessum meðalhraða annað en að hugsa um aksturinn. Konan við hliðina á mér í Garðabænum var að senda sms. Kannski láta vita að henni seinkaði. Sá næsti sem kom upp að hliðinni á bílnum mínum stundaði líffæra- og líkamsvessaframleiðslu sína af allt að því klínískum áhuga og skoðaði gaumgæfilega afraksturs þess sem hann dró út úr nefinu á sér og ég er ekki frá því að svipurinn á honum við skoðunina hafi verið sambland af stolti og áhyggjum yfir hvar hann ætti að klína afrakstrinum. Hann hefur kannski bara mætt til vinnu með hann undir nöglunum. Annað sem vakti athygli mína var að í yfir 9 af hverjum 10 bílum var ein manneskja.

Það er til mikið af fólki í umferðinni sem lítur á það sem heilaga skyldu sína ef maður hefur eðlilegt pláss milli bíla að koma í veg fyrir svoleiðis bruðl á plássi og rykkir sér yfir á þá akrein með tilheyrandi bremsunotkun næstu bíla fyrir aftan. Á sama tíma eru aftaníossarnir sem trúa því að ef þeir hafa bara nokkra millimetra milli þín og þeirra gangi þér betur að komast áfram og þeir verði fyrir vikið ekki seinir. 

Seinustu daga hef ég velt mikið fyrir mér hvað sé að gerast með gatnakerfið. Fyrsta hugsunin með hversu umferðin gengur verr nú en fyrir mánuði síðan sem var þó slæmt var að skólarnir séu byrjaðir. En það eru skv. fréttum sama magn bíla á þessum tíma og þá. Auk þess sem ég sá ekki nokkra manneskju sem leit út fyrir að vera á leið í menntaskólann sinn.

Það var einhver samgöngu- eða skipulagsnefnd skipuð á sínum tíma til að skipuleggja gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins. Gatnakerfið eins og það er í dag er kerfi sem átti að duga í mörg ár í viðbót. 

Ég er búinn að komast að því að vandlega skoðuðu máli að nefndarmeðlimir hafi sennilega allir verið hámenntaðir sultugerðarmeistarar vegna þess að miðað við ástand samgangna höfuðborgarsvæðisins er ekki fræðilegur möguleiki að nokkur einasti kjaftur þessarrar nefndar hafi haft hundsvit á samgöngumálum eða gatnagerð. Hvort sem Vegagerðin, Samgönguráðuneytið, bæjarfélögin eða Gatnamálastjóri hefur þessi mál á sinni könnu þá er ég allavega sannfærður um að það geti ekki verið verkfræðingar menntaðir í samgöngumálum sem koma að þessu klúðri.

Hinn möguleikinn er að það hefur verið skipað pólitískt í Samgöngunefnd: Framsókn skipað fyrrum kosningarstjóra borgarfulltrúans sem fékk 6,3% atkvæða og varð valdamesti maður borgarinnar. VG settu inn gamla últramarxistann sem truflaði aðalfundi hjá þeim. Sjálfstæðisflokkurinn valdi stuttbuxnahermanninn sem féll í síðustu SUS kosningum með það fyrir augum að hann tjáði sig þá ekki um innanhúsmálin. Samfylkingin valdi konu af því hún var kona. Og menntuð sem fóstra sem er gott. Frjálslyndir fengu bara áheyrnarfulltrúa og völdu mann sem var genginn úr flokknum. Þannig að Íslandshreyfingin á sinn eina fulltrúa þarna í öllu stjórnkerfinu.

 Þessi nefnd hefur komið saman reglulega á 3ja mánaða fresti og fengið sér bakkelsi, kaffi og komminn jurtate. Í fundagerðum stendur hver hafi mætt og að unnið skuli að öflugri, heildrænni og framtíðamiðaðri stefnu samgöngumála til hagsmuna fyrir fótgangendur jafnt sem bíleigendum með það að leiðarljósi að draga úr umferð  og mengun og bjóða vistvæna ferðakosti til jafns við virðingun fyrir frelsi einstaklingsins til að ferðast einn í sínum fjallabíl. (Sem SUS strákurinn fékk sett inn sem bókun).

Það verður gott að búa í Hafnarfirði eftir að nefndin lýkur störfum en þangað til tekur það mig og konuna 54 mínútur að keyra 11,2 kílómetra til vinnu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Hér í sveitinni þá sultum við Rabba, bara, af því að hann á það skilið & ber, í fötum, náttúrlega.

En ég þekki líka þá umferðarsultu sem að þú lýsir svona snilldarlega.

Steingrímur Helgason, 8.9.2007 kl. 01:54

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Við óbreytta gatnagmálapólitík og umferðarmenningu er tími hestvagnanna skammt undan.

Árni Gunnarsson, 8.9.2007 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.