Lögga í lögguleik og einstæðar mæður með barnavagna.........

Þetta er lítil saga um litla löggu í litlum lögguleik. Fyrir rúmum áratug bjuggum við konan á 101 svæðinu. Í einni af þessum götum sem voru nógu langt frá skemmtanalífinu til að fá frið en nógu stutt frá líka til að geta labbað út á lífið. Þetta var ein af þessum einstefnugötum sem gátu breytt um stefnu með nýju samgönguráði eða hvað það heitir en jæja var svona sæmilega friðsamar fyrir utan eitt og eitt inbrot inn í bíl eða heimili. Og eina og eina líkamsárás. Sem er eins og Landsvirkjun orðar hlutina "ásættanlegur fórnarkostnaður"!

En það fylgir því að búa í 101 og vera á ökutæki á 4 hjólum einn verulegur ókostur og hann er sá að fjórhjólið þarf helst að vera á hreifingu allan sólarhringinn. Annars safnar þú sektum fyrir ólöglega lagningu hjólanna. Og launþegum í lægri stöðum svíður undan slíku. 101 er nefnilega ekki með nægilega mörg bílastæði fyrir alla íbúana sem sætta sig ekki við strætó á 45 mínútna fresti eða að taka fram hjólið og hjóla 15 kílómetra á dag.

 En þessi saga gerðist á blíðviðrisdegi fyrir um 10-11 árum síðan. Konan kom heim úr vinnunni og þar sem ekkert bílastæði var laust í götunni lagði hún upp á gangstétt fyrir utan húsið. Hún ætlaði jú bara að hlaupa inn og sækja gögn fyrir aukavinnuna. Eftir 3-4 mínútur kemur hún út og það er rauð fólksbifreið parkeruð á gangstéttinni fyrir aftan hana. Með snaggaralegum smell í einhverju  sem virkar eins og veski á hana flopp - flopp, flettist niður skírteini. "Rannsóknarlögreglan góðan dag (nafn): Ert þú á þessum bíl"? Konan svaraði já og fékk fyrirlestur um hversu slæmt það væri þegar fólk gerði svona lagað og hindraði EINSTÆÐAR MÆÐUR MEÐ BARNAVAGNA Í AÐ KOMAST LEIÐAR SINNAR! Honum var greinilega ekkert annt um mæðurnar sem voru með barnavagna OG EIGINMENN frekar en blinda, fólk í hjólastól eða venjulegt gangandi fólk. Nei, einstæðar mæður með barnavagna!

Konan slapp við sekt frá rannsóknarlögreglumanninum enda var honum sennilega ekki úthlutað það verkefni að rannsaka gangstéttir 101 með tilliti til einstæðra mæðra með barnavagna. En hann veitti henni þetta föðurlega tiltal þar sem hann sat í litla rauða rannsóknarbílum sínum og óttaðist hag einstæðra mæðra. Með barnavagna.  

 Eftir að konan sagði mér frá uppákomunni fórum við að velta fyrir okkur hvað honum hefði gengið til. Af hverju lagði hann einstæðu mæðurnar með barnavagnana líka í hættu með því að leggja líka upp á gangstétt? Af hverju byrjaði hann samtalið á því að fletta út merkinu sínu og sýna það? Af hverju einstæðar mæður?

Getur verið að konan hafi yfirgefið hann vegna þess að vinnan við að halda gangstéttunum hreinum hafi breytt persónuleika hans og vinnan tekið öll völd? Getur verið að eiginkonan hafi sagt hingað og ekki lengra og hafi svo ráfað um göturnar þar sem gangstéttarnar voru yfirfullar af bílum og hann óttist um hana og börnin? Getur verið að hann sé enn að rannsaka mál? Getur verið að Baugsmálið hafi verið í hans höndum? Eða olíusamráðið?  Eða er hann kannski farinn að vinna hjá samkeppnisstofnun eða Skipulagsstofnun?

Ég veit það ekki enda hef ég aldrei séð manninn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.