Hvaða fólk Jón?

Kæri Jón,
Ekki veit ég eða er dómbær á hvort sé um að kenna heimsku minni eða glákueinkennum en það vefjast fáein atriði óskaplega fyrir mér í sambandi við áherslumál ykkar og stjórnarsetu. Vil ég því biðja þig fróðastan manna um raunverulegan ásetning Framsóknarflokksins að fræða mig á þeim atriðum sem ég hef áhuga á að reyna að skilja betur.

Sl. ár hef ég fylgst með störfum þessarar ríkisstjórnar sem þú og þitt fólk hafið mannað á myndarlegan hátt. Það myndarlegan að flestir félagsmenn ykkar hafa á síðastliðnum árum náð ráðherratign og viðeigandi eftirlaunum sem er mjög gott fyrir ykkur.
Kosningarbarátta ykkar hefur verið frekar töff miðað við sveitavargsstimpilinn sem hefur lengi loðað við flokkinn og þannig lifa enn í dag slagorð sem þið hélduð mikið á lofti eins og “Milljarður í fíkniefnamál" og “Fólk í fyrirrúmi" .

Ég veit að þið getið flaggað bæði tölum og súluritum um það að þessi milljarður hafi skilað sér í fíkniefnamálin en hvernig stendur þá á því að Fíkniefnadeild Lögreglunnar má ekki vinna yfirvinnu við rannsókn mála án þess að slegið sé á puttana á þeim. Eru þeir svona óþekkir?

Ég veit það að það var ekki þinn flokkur sem skar heilbrigðiskerfið á háls. Alþýðuflokkur Íslands með Sighvat Björgvinsson sem heilbrigðisráðherra tók það verk að sér sem hækja Sjálfstæðisflokksins. En þið tókuð við hræinu og hafið gætt þess vandlega að því haldi áfram að blæða.



ekkert.gifEða þýðir það “Fólk í fyrirrúmi" að heilbrigðiskerfið sé þannig uppbyggt að það er bara fyrir fullhraus fólk að leggjast inn á spítala af því að það er enginn til að annast um það og ef einhver starfsmaður er á deildinni skilur hann ekki stakt orð í íslensku

Þýðir það “Fólk í fyrirrúmi" að heilbrigðiskerfið sé þannig uppbyggt að það sé bið í nánast allar aðgerðir nema ef einhver dúkka vill fá gúmmí í geirvörturnar?

Þýðir það “Fólk í fyrirrúmi" þegar sjúklingar hringja eftir aðstoð sé sagt við þá: Ég skal láta þinn sjúkraliða vita að þú sért að hringja, þú ert ekki minn sjúklingur og viðkomandi bíður síðan tímunum saman eftir aðstoð.

Landsvirkjun bjó til frasa sem hljómar einhvernveginn svona: “Það er ásættanlegt að ráðast í Kárahnjúksvirkjun" miðað við arðsemi. Það getur vel verið að ég fari ekki rétt með frasann ég hef bara heyrt hann 10 sinnum en hvað voru þeir hjá Landsvirkjun að segja? Var það ásættanlegt að eyða þessu stóra landssvæði og griðlandi hreindýra og gæsa fyrir eitthvað sem verður orðið að risastórum drullupoll eftir 100 ár?

Ég veit að hvorki ég né þú verðum á lífi þá en eiga stjórnmálamenn bara að hugsa nokkur ár fram í tímann?

Þýðir það “Fólk í fyrirrúmi" að setja niður ómanneskjulegar stóriðjur alls staðar á landsbyggðinni. Er þetta kannski landsbyggðarstefna flokksins í heild sinni?
Eða snýst málið kannski um það að Halldór Ásgrímsson var búinn að lofa kjósendum sínum álveri sama hvað raular og tautar og náttúruperlur eða framtíðarsjónarmið mega sín einskis gagnvart þessu loforði hans.
Að austfirðingar hafi fengið álver af því að Halldór sagði það?

Getur verið að þið séuð að tryggja ykkur atkvæði með því að eyðileggja Ísland framtíðarinnar þegar óbyggð náttúra verður orðin að verðmætum?

Vinna Íslendingar láglaunastörf á Íslandi?
Getur verið að þú gleymir því að heilbrigðiskerfið okkar og fiskvinnsla er í dag aðallega mönnuð austurevrópsku- og asísku fólki?
Harðduglegu fólki og vel liðnu en fólki sem er hér vegna þess að Íslendingar fást ekki í þessi störf vegna launa ma.

Er “Fólk í fyrirrúmi" í verksmiðjum? Það vantar enn 100 starfsmenn í Reyðarál þrátt fyrir tugi heilsíðuauglýsinga. Verður ekki lokaniðurstaðan að þeir koma erlendis frá?

image001.gif

Þýðir það “Fólk í fyrirrúmi" að æpa alltaf “Álver- Álver" í hvert einasta sinn sem landsbyggðin á í vanda.

Þetta er helmingi harðgerðara og heilbrigðara fólk en reykvíska verðbréfakynslóðin og hefur gert heilmikið til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Það breytir samt ekki því að meðan menntunar og starfsmöguleikar yngri kynslóða byggja allar á störfum á höfuðborgarsvæðinu breytir eitt eða tuttugu álver engu um fólksflótta. Ekki frekar en ef hreindýrin fyrir austan færðu sig á Suðurlandið.

Vilt þú Jón að fólkið á landsbyggðinni sé ofurselt stóriðjuvalkostum og byggðakvótum?

Ef við troðum virkjunum, línumöstrum og tengistöðvum niður allsstaðar þar sem æpt er “fólksflótti" seljum við ekki opineygðum ferðalöngum söguna um að Ísland sé frekar “Náttúrulega flott sjoppa". Þetta byggir á nákvæmlega sama lögmáli og hvalaskoðunarferðir á Húsavík þurfa að burðast með. Aukningin hjá þeim úr 2000 í 20.000 farþega á nokkrum árum er ævintýraleg. En hvað gerist eftir að við leyfðum hvalveiðar aftur. Hvað verður um þetta fyrirtæki?
Ekki það að ég sé á móti hvalveiðum né hvalkjöti en alþjóðasamfélagið með hormónabyggðu Bandaríkjamennina í fararbroddi er komið til að vera og það finnur til með hvölum. Þetta sama samfélag og krefst stöðlunar, samræmingar fjármagnsfrelsis og Náttúruverndar! Byggt á reynslu eigin eyðingar! Þetta sama samfélag og gerði ykkur íslensku stjórnmálamönnunum ókleift að falsa alltaf íslenska gengið nema lítillega. Hefur þú heyrt af þessu samfélagi Jón? Við erum jú alltaf að þykjast vera með í alþjóðlegu sjoppunni þannig að þú hlýtur að hafa allavega heyrt af þessu.

Eftir að þið settuð ÁlFinn í Seðlabankann til að hvíla sig (þó stutt hafi staðið við) stóð ég í þeirri meiningu að kannski sæjuð þið fleiri úrræði til að efla landsbyggðina en endalausar verksmiðjur. Finnst þér ekki eins og þetta gefi til kynna að hinn almenni Framsóknarmaður sé frekar hugmyndasnauður eða er það bara forystan sem er svona geld?

Þröngsýnir stjórnmálamenn eru óvelkomnir á Íslandi framtíðarinnar. Mannlegir, víðsýnir og þroskaðir einstaklingar sem setja langtímahagsmuni ofar flokkadráttum og skammtímalausnum, stundum óvinsælir, stundum hetjur er það sem við þurfum.

Vilji þjóðarinnar hefur komið fram í virkjanamálum. Það er meirihluti gegn ykkar stefnu í þessum málum. Samt ætlið þið að halda áfram að þumbast með þessi mál í gegn enda treystið þið því að pólitískt minni fólks sé skammt.

En hefur þú Jón velt fyrir þér út af hverju Ísland byggðist í byrjun. Hefðu forfeður okkar ekki bara haldið sig heima ef þeir hefðu haft vissu fyrir að við myndum enda sem slíkar andskotans alþjóðagungur sem byggjum afkomu okkar á erlendum auðhringjum?


Ef “Fólk í fyrirrúmi" snerist ekki um að félagslega kerfið okkar ætti að virka fyrir þá sem á því þarf að halda langar mig að vita hvaða fólk þú áttir við? Voru það allir félagar þínir sem eru búnir að tryggja sér góðan lífeyrir með því að vera titlaðir ráðherrar? Voru það austfirðingarnir sem þú ætlar að setja alla inn í kerskála gegn atkvæðunum þeirra?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gaukur Úlfarsson

þú hefur eitthvað misskilið þetta Ævar.. Þetta á auðvitað að vera; OKKAR fólk í fyrirrúmi!

Gaukur Úlfarsson, 7.5.2007 kl. 23:20

2 Smámynd: Arnfinnur Bragason

Nokkrar athugasemdir varðandi þessi skrif þín.

Hvaða flokkur fer með löggæslumál í landinu? Er það Framsókn?

Afhverju vilja Húsvíkingar fá Álver? Er ferðamennskan að skila svo miklu þar?

Hverjir fara með sjávarútvegsmál í landinu? Er það Framsókn?

Hvað eru mörg störf í álverinu á Reyðarfirði sem krefjast háskólamenntunar? Ef þú veist það ekki þá eru það um 100 störf.

Hversu margir erlendir starfsmenn koma til með að starfa í álverinu á Reyðarfirði? Ef þú veist það ekki þá er nánast búið að manna allt álverið af íslendingum. Þrátt fyrir típískan upprópunaráróður VG og annara "náttúruvermdarsinna" að álverið yrði ekki mannað öðrum en útlendingum.

Þú veist greinilega ekkert hvar griðland Hreindýra er!

Hvaða þjóð eyðir stærri hluta þjóðartekna til heilbrigðismála en Ísland?

Þér er greinilega illa við Framsóknarflokkinn,  það skiptir mig engu en þú verður að amk að gera greinarmun á Framsókn og Sjálfstæðisflokk og svo ætturðu hafa næsta pistil um Framsókn heldru styttri þessi er langur og segir ekkert nema upphrópanir og dylgjur sem verða mjög marklausar þegar þær eru settar svona upp.

Arnfinnur Bragason, 7.5.2007 kl. 23:59

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Bravó! Þetta blogg ætti að vera á flettiskiltum í öllum stórmörkuðum þessa lands fram að kosningum.

Árni Gunnarsson, 8.5.2007 kl. 00:02

4 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Hvort Framsókn fari með löggæslu- eða sjávarútvegsmál í dag skiptir ekki máli, heldur loforð þeirra og framkvæmdir. Milljarðurinn í fíkniefni er bara sami brandarinn og tannskolshúmorinn með 2 röntgenmyndum korter fyrir kosningar. Horfstu bara í augu við það að þarna á bakvið er sú eina hugsjón að skara eld að sinni köku. Og staðreyndin er sú að enn vantar 100 starfsmenn til Reyðaráls þrátt fyrir auglýsingaflóð. Segir það okkur ekki að störf í verksmiðjum eru ekki eftirsóknarverð?

Ævar Rafn Kjartansson, 8.5.2007 kl. 00:13

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Stattu þig Arnfinnur og láttu ekki mannfjandann hræra neitt í þér!

Árni Gunnarsson, 8.5.2007 kl. 08:17

6 Smámynd: Arnfinnur Bragason

Svona nú Ævar. Þú verður að vera málefnalegri ef þú villt að mark sé takandi á þér. Þú hrópar bara úlfur úlfur, kemur ekki fram með nein rök og skammar framsókn fyrir það sem þér finnst miður fara hjá ríkisstjórninni.

Eins vil ég benda þér á að þau fyrirtæki sem koma að reysingu og rekstur álversins hafa í alla staði staðið sig frábærlega í samskiptum við samfélagið fyrir austan og lagt sig fram við að uppfylla óskir og kröfur þær sem settar hafa verið  varðandi þessar framkvæmdir. T.d hafa umhverfis og öryggiskröfur sem þessi fyrirtæki fylgja miklu strangari en íslendingar hafa áður þekkt.

Umhverfisverðlaun, Umhverfisráðuneytisins fyrir 2006, féllu Belchtel í skaut! Segir það ekki eitthvað, jafnvel þó það virðist fara í taugarnar á VG.

En ég endurtek þú verður að ræða á öðrum nótum ef þú vill að maður taki mark á þér og nenni að ræða af einhverju viti.

Bestu kveðjur.

Arnfinnur Bragason, 8.5.2007 kl. 16:48

7 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Málefnalega hvað? Er eitthvað málefnalegt við að Framsóknarumhverfisstimpladaman sæmi þetta fyrirtæki umhverfisverðlaunum rétt fyrir kosningar? Þvílíkt bull. Þetta fyrirtæki hefur staðið sig ákaflega vel en það sama er ekki hægt að segja um það sem er búið að vera að gerast á Kárahnjúkum. Ert þú spenntur fyrir starfi í álveri - ekki ég. er eitthvað málefnalegt við þennan málaflutning þinn? Hvað þá helst? Er ég að ljúga um biðlistana?

Er ég að ljúga að Framsóknarmenn hygli sínu fólki ótæpilega? Var ekki Páll Magnússon sjanghæjaður í feitt embætti rétt fyrir útdauða flokksins?

Komdu með rök og rökstuðning um að ég hafi rangt fyrir mér og þá skal ég vissulega svara þér, biðjast afsökunar ef ég hef ástæðu til en þangað til skaltu halda því fyrir þig að vera sár út af málaflutningi mínum. 

Ævar Rafn Kjartansson, 8.5.2007 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.