Bákn með bumbu

Meðan Davíð Oddsson, Friðrik Sófusson og Þorsteinn Pálsson klæddust enn matrósarfötum og Hannes Hólmsteinn Gissurarason var að læra að ulla framan í fólk fundu þeir strákarnir upp slagorðið „Báknið burt“ að vísu með smá aðstoð frá mömmu Tatcher.

Töff slagorð sem svínvirkar ef maður bara hamrar nógu mikið á því.

Síðan hefur bæði mikið vatn, ófáir bankar og ríkisstofnanir hnigið til sjávar en báknið þeirra félaga fitnar og fitnar. Hvað veldur? Hver heldur um ríkistaumana? Hafa strákarnir barist við svona mikla andstöðu frá stjórnarandstöðunni?

Af hverju er íslenska embættiskerfið komið með bumbu? Nýjar stofnanir og græðlingar þeirra spretta upp með hverju skynsemisfrumvarpinu á fætur öðru og miðstýringin verður meiri og meiri. Við erum komin með samkeppnisstofnun sem gefur út vottorð til fyrirtækja um að það sé í flottu lagi að ráða yfir meira en 50% markaðarins ef viðkomandi fer bara pent með það.

Veiðistofnun refsar bændum fyrir að veiða mink ef þeir eru ekki með laminerað veiðikort í rassvasanum.

Byggðastofnun, gjörsamlega úrelt framsóknarfóstur drepur niður einkaframtakið í deyjandi byggðalögum með framlögum, kvóta og fjáraustri til þeirra sem skæla í réttum hópi, meðan þeir sem berjast sjálfir geta bara gert það áfram.

Einkavæðingafóstrið átti að skila þjóðinni auknu góðæri en situr nú uppi með endurgreiðslur ef ekki skaðabætur til þeirra er létu vélast.

Gjafakvótaeigendur berjast um yfirráð yfir bönkum og tryggingarfélögum og svona mætti áfram telja. Mjög lengi.

Á sama tíma lagðist heilbrigðiskerfið í rúmið með flensu þannig að sjúklingar þurfa að koma með lyf og hjálpartæki með sér á spítalann ásamt túlk eða einhverjum til að sjá um sig.

Menntakerfið okkar orðið sama geymslustofnunin og fóstrulausir leikskólarnir sem vilja ekki einu sinni sjá að krakkarnir mæti.

En það vantar ekki að hið opinbera borði matinn sinn. Embættismannakerfi sem búin eru til fyrir fólkið þe. almúgann eiga nefnilega eitt sameiginlegt hvar sem er í heiminum. Hvort sem við erum að tala um kommúníska alræðisstjórn Sovétríkjanna, meirihlutastjórn ANC í S-Afríku, Washington báknið eða heimóttarlega stjórnvisku bananalýðveldisins Íslands.

Það gerist það sama alls staðar. Kerfi sem er búið til sem þjónusta fyrir almenning þróast í það að almenningurinn verður til fyrir það. Þ.e.a.s til að kerfið virki þurfi það almenning, ekki að almenningur þurfi kerfi. Kerfið verður til fyrir sjálft sig eða þarfir hins opinbera og hagsmunir kerfisins ofar þörfum almennings.

Ráðherrar koma og fara en undirmenn þeirra eru naglfastir ásamt öðrum embættismönnum.

Kenningar og reglugerðir verða að guðs vilja meðan tilfinningar og almenn skynsemi hafa ekki vægi enda í engu getið á pappírum.

Báknið burt sungu þeir! Komum við þessari brussu einhverntímann út úr húsi?Meðan þetta sama bákn er notað sem verkfæri stjórnmálamanna til að hvítþvo samvisku sína og knýja í gegn hluti sem þeir vita jafnvel að er meirihlutaandstaða gegn hlýtur krafan að vera þessi, Báknið burt - með allri sinni bumbu, hvort sem er í formi aukins skrifræðis eða gerræðislegs hroka reglugerðarriddara sem í krafti embættisins knésetja almennan vilja og skynsemi.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Af hverju ertu ekki í framboði í öllum kjördæmunum og í fyrsta sæti? Þú hefur sannarlega hitt á rétta augnablikið þegar þú settist við tölvuna.

Hafi einhverju verið ofaukið í þessari messu hef ég bara ekki komið auga á það. Mesta líkur eru á því að varðhundarnir setji þig í feitt embætti til að gelda þig og séu lausir við áhyggjur af þér.

Verði skipt um ríkisstjórn sem litlar líkur sýnast nú á, þarf að byrja á uppstokkun á öllu þessu svínaríi. Fyrst þarf að reka allt liðið úr Tryggingastofnun og lofta vel út í nokkra daga. Síðan á að ráða gamlan barnakennara til að búa til nýtt kerfi og til aðstoðar gætu verið tveir gamlir sjómenn slæmir í baki, einn bóndi með króniska heymæði ásamt gömlum leigubílstjóra með gylliniæð. Ráða síðan 8 eða 9 starfsmenn sem kunna mannmál en þekkja ekki á tölvur og opna að nýju með kleinum og pönnukökum.

Lifi byltingin!!!!!

Árni Gunnarsson, 4.5.2007 kl. 19:14

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og til að forða misskilningi því þarna liggur mikið undir: Kennarinn þarf að vera afar mikið aldraður, góðlegur í fasi, þokkalega hagmæltur og á að taka í nefið. Góð heyrn er ekki aðalatriði.

Árni Gunnarsson, 4.5.2007 kl. 19:19

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Þegar ég húki á fjósabitanum í næsta Framsóknarfjósi á jötunni með titil og rífleg eftirlaun skal ég hafa barnakennaran í huga og jafnvel kaupatóbakshorn.

Ævar Rafn Kjartansson, 6.5.2007 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband