Hvenær finnst ÞÉR nóg komið?

Þegar tilveran hrynur undan fjölskyldu og við blasir óbrúanlegt hyldýpi með, 50 - 70% heimilisteknanna horfinna er ekki furða að sumir leggi árar í bát. Gefist upp. Stoltir iðnaðarmenn sem hafa séð fjölskyldum sínum farborða eru allt í einu ekki matvinnungar. Komnir upp á tekjur konu sinnar. Eða jafnvel bæði atvinnulaus. Og endar ná ekki saman.
Þrátt fyrir að afkvæmin fái ekki lengur að stunda íþróttir eða tónlistarnám. Þrátt fyrir að öðrum heimilisbílnum hafi verið lagt. Þrátt fyrir frystingu heimilislánanna. Framundan er það eitt að geta ekki veitt fjölskyldu sinni húsaskjól í neinni mynd. Engin von um að geta samið um eða greitt húsnæðislánin sín sem fóru frá því sem ráðgjafinn í bankannum hafði reiknað út í að vera tvö- eða þrefföld sú upphæð.

Ráðgjafinn og bankinn eru stikkfrí. Ekki sá sem fór að ráðum þeirra. Hans er ábyrgðin, sektin og gjaldið. Um alla ævi. Þetta er íslenski raunveruleikinn sem boðið er upp á af bönkum og stjórnvöldum.
Mistök þeirra eins og allra harðstjóra liggur í einu. Vanmatinu á þanþolinu og réttlætiskennd fólks.
Þanþol Íslendinga er ótrúlegt. Íslendingar vilja bara lifa sínu lífi, kjósa milli mismunandi hagsmunaþumbaflokka af illri nauðsyn, takast á við skakkaáföll sem þeir vita að verði og reyna að gera það besta úr lífinu.

Þar til kemur að því að það er sparkað of oft í þá. Búsáhaldabyltingin kom í kjölfar þess.
Með kröfunni um leiðréttingu og réttlæti.

Það bólar á hvorugu þrátt fyrir ríkisstjórn sem telur sig til vinstri. Það bólar ekki á skjaldborginni eða norrænu velferðarstjórninni sem þessi ríkisstjórn boðaði.

Þessi ríkisstjórn veður í villu og svíma með að af því að hún markaðssetji sig sem velferðar- og vinstristjórn hafi hún frekari leyfi til að selja land og þjóð undir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Þessi ríkisstjórn óð einnig reyk um efnahagsmál og velferð þjóðarinnar þar til að átta þúsund Íslendingar vöktu hana upp af værum blundi með tunnutrumbuslætti.

Þessi ríkisstjórn sýndi að svonefnd gjá milli þings og þjóðar er ekki til staðar. Það er svarthol þar á milli.

Óttaslegin boðar hún snuð. Það þurfti að kveikja bál, eyðileggja ráðherrabíla, framkalla áður óþekktan hávaða á Austurvelli, brjóta rúður í Alþingishúsinu og mála það til að þau rumskuðu. Tveimur árum frá hruni. Og snuðið felst í því að hún ætlar að tala meira við hagsmunaaðila. Tala meira við stjórnarandstöðuflokkana sem ollu hruninu. Leyfa þeim að gera sig breiðari án raunverulegra úrræða.
Bjóða þjóðinni upp á meiri ræðumennskuskylmingar þrautþjálfaðra Morfísstjórnmálaplebba.
Hún ætlar að leita allra leiða. Gera sitt besta. Setja vandamál heimilanna í forgang. Una sér ekki hvíldar fyrr en lausn fæst. Leggja þunga áherslu á. Ná breiðri samfélagslegri sátt. Gera stöðugleikasáttmála. Snúa hjólum atvinnulífsins. Örva nýsköpun. Blablablablabla......

En.......
Við megum ekki gleyma því að hér ríkir kreppa og erfitt um vik. Og í kjölfarið verða enn settir plástrar á opin beinbrot.

Í dag flytur ein fjölskylda af landi brott hvern dag. Þeim á eftir að fjölga. Mín er þar á meðal og nokkrar aðrar innan ættarinnar. Hjá sumum okkar snýst þetta um atvinnuleysi en ekki allra.

En við eigum það öll sameiginlegt að hafa misst trúna á íslenskt stjórnkerfi, íslenska stjórnmálaflokka, íslenskt réttlæti og íslenskt efnahagslíf sem er enn í höndum þessara fáu manna sem komu okkur í
þessa stöðu.
Þeir greiða sér 400 milljóna króna arð í hruninu, fá afskrifaða 54.7 milljarða af 8 fyrirtækjum sem vegna bankaleyndar má ekki upplýsa um, viðhafa enn einnar króna verðfákeppni, styrkja réttu
stjórnmálaflokkana, ganga enn lausir og græða á hörmungum okkar.

Starfsmenn skilanefnda bankanna afskrifa og breyta skuldum réttra aðila og ná því til baka á nokkrum venjulegum sauðum. Um þetta eru til mörg dæmi.

Þetta þjóðfélag er ónýtt. Stjórnmálaflokkarnir, hagkerfið, ræfils verkalýðsforystan sem samanstendur núna bara af Lífeyrissjóðarónum með timburmenn eftir útrásarrónana félaga þeirra, gegnsýrt embættismannakerfi af blýantsnögurum sem fengu jobbið fyrir það eitt að mæta á flokksfundi hjá Framsókn og Illfyglinu. Og núna síðast Samspillingunni.

Þetta er þjóðfélag þar sem 30 millur í kosningarsjóð er pís of cake. Engin ástæða til að ætla að greiðinn verði rukkaður. Þetta er þjóðfélag þar sem þingmenn stíga af þingi meðan stormurinn gengur
yfir. Þetta er þjóðfélag þar sem ríkið og Reykjavíkurborg styðja fjölskylduhjálp um sitt hvorar 2 milljónirnar á ári. En borgin fær 1.1 milljón til baka í húsaleigu. Fjölskylduhjálpin þarf í dag tæpar 3
milljónir á mánuði til að aðstoða fólk. Fólk sem kemur þangað hefur jafnvel ekki borðað dögum saman. Er þetta ásættanlegt?
Eigum við að leita allra leiða? Reyna að fremsta megni? Skipa nefnd til að fara ofan í brýnustu þarfir?

Það er komið nóg af pólitík. Það er komið nóg af orðskrúði. Það er komið nóg af hagfræðingatali. Það er komið nóg!

Notum KISS á þetta. (Keep it simple stupid). Við erum með óhæfa stjórnmálamenn og árangur okkar yrði betri með að velja af handahófi úr símaskrá. Við erum með siðblinda eigendur meirihluta stærstu fyrirtækja landsins. Við erum með fólk gangandi laust sem hefur valdið meira tjóni en Bernie Maddoff sem afplánar 150 ára fangelsi í Bandaríkjunum. Við erum með fólk sem ber ábyrgð á 3 af 10 stærstu
gjaldþrotum sögunnar í heiminum semjandi um afskriftir lána sinna.

Á sama tíma er 68 ára gömul kona borin út. Af því að hún treysti orðum manns sem vann hjá einum þessara siðblindingja.

Í mínum huga er komið meira en nóg.

bolur3.jpg


mbl.is Skuldavandi heimilanna ræddur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: corvus corax

Hárrétt! Hvert orð!

corvus corax, 11.10.2010 kl. 12:53

2 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Kröftuglega og vel mælt !!

Veruleikafyrringin hjá fjármála og stjórnsýsluliðinu er ótrúleg.

MBKV að utan en með hugann heima

KH

Kristján Hilmarsson, 11.10.2010 kl. 13:08

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég segi nú ekki annað en það!

En nú bið ég þig að senda þessa fjallræðu á alla þá pólitísku sauði og geldrollur sem úða í sig grænfóðrinu á Alþingi niðurgreiddu með íslensku mannlífi - o h f.

Árni Gunnarsson, 11.10.2010 kl. 17:03

4 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Árni, ég hef gert tilraunir til að senda Steinrumi og öllum hinum póst. Netföngin þeirra eru hinsvegar stillt þannig að það sem kemur frá almenningi fellur sjálfkrafa undir ruslpóst og kemst ekki til skila. Þetta hafa meira að segja þingmenn Hreyfingarinnar staðfest við mig. Það virðist ekkert koma til skila nema það sé tunnutrommað ofan í þau. Og samt ekki.

Ævar Rafn Kjartansson, 12.10.2010 kl. 11:01

5 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Ég er svo sannarlega sammála því sem þú ritar hér.  Það er sorglegt að horfa upp á íslenska þjóð brotna niður af þeim sem eiga í raun að koma til hjálpar þegar mest á reynir.

En nei, þannig virkar það ekki.  Glæpamönnum eru gefnar eftir skuldir - við heyrum um það á hverjum degi, en það má ekki rétta sökkvandi heimilum þessa lands hjálparhönd og lækka gengis- og verðtryggð lán um eina einustu krónu, vegna þess að þá færi fjármálakerfið á hliðina og síðan á hausinn.

Ég get ekki séð muninn.  Hvort er betra að setja heimilin í landinu á hausinn, eða örfá fyrirtæki - sem notabene - er líklegt að útrásarglæpamenn stjórni.

Svei þessari ríkisstjórn.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 22.10.2010 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.