Gleymdirðu að segja: Nei djók, Steingrímur

Kæri Steingrímur!
Í grein þinni í Fréttablaði Jóns Ásgeirs 21. ágúst sl. undir fyrirsögninni „Land tekur að rísa“ ferð þú yfir ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, hrunið og framtíðina.

Verandi formaður þess eina fjórflokkaþursins sem sátu ekki við kjötkatla hrunmeistaranna mærir þú árangur ríkisstjórnar ykkar: Nýtt tekjuskattskerfi. Ein hjúskaparlög. Bann við kaupum á vændi. Metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum. Óþarfa Varnarmálastofnun lögð niður.

Hvað er að þér? Þingið var að þrasa um bjór- og léttvínssölu í matvöruverslunum meðan landið lagðist á hliðina! Eydduð svo ári í enn óafgreitt mál þar sem þingið er að velta fyrir sér samningi um HVERNIG þjóðin á að borga ICESAVE.  Til að teljast aðili að samning þarf maður að hafa haft hag af honum OG tekið þátt í gerð hans. Ég veit ekki til þess að íslenska þjóðin hafi komið þar nálægt.

Þú talar um gagnsæi og trúverðugleika. Þar fáið þið sömu falleinkunn og hrunflokkarnir. Már seðlabankastjóri var orðinn handhafi embættisins löngu áður en það var auglýst. Einar Karl er búinn að vera riddari, hrókur, biskup og drottning í einu og sama taflinu. Evu Joly réðuð þið vegna utanaðkomandi þrýstings.  Eins á við um fleiri mál. Það er ekki nóg að þessi ríkisstjórn setji reglur um hlutina og fylli svo öll skörð með meðreiðarsveinum í krafti „tímabundinna“ ráðninga. Það gerir ykkur ekkert betri en „hin“!

Af hverju hefur ekkert meira verið gert með rannsóknarskýrsluna. Er hún kannski bara að „þvælast tímabundið fyrir ykkur“ eins og nýkjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það gagnvart sínum flokk? Á skýrslan og áfellisdómar hennar að safna ryki gleymskunnar? Er kannski enn óþarfi að persónugera hlutina?

Þú talar um afnám eftirlaunaréttinda ráðherra og alþingismanna og faglegar ráðningar dómara. Og opinberar að vildarvinaráðningarnar hafi verið á ykkar vitorði en þið ekkert gert með það. Annað en að mótmæla pínusmá. Þið áttuð að ganga af þingi ef þið meintuð það. En kannski hafið þið hugsað sem svo að það kæmi að ykkar fólki.....

Þið hafið náð að gera kröfur kjósenda um almennilegt lýðræði og sanngjarna stjórnarskrá að markaðssetningarkapphlaupi hagsmunahópa og með því að Alþingi sem hefur aldrei notið minna trausts almennings, hafi svo úrslitavald um niðurstöður stjórnlagaþings, gert þessa hugmynd að tíma- og fjármunaeyðslu.

Þú telur upp í grein þinni fjölmörg úrræði til hjálpar heimilum landsins. Jóhanna nefndi á einum tímapunkti  yfir 50 atriði til hjálpar heimilunum. Er lengri opnunartími skrifstofa sýslumanna hjálp fyrir heimilin? Félagsmálaráðherra sagðist ætla að sjá til þess að fjölskyldur landsins þyrftu ekki að maula tekex í öll mál.  Tekex er lúxusvarningur hjá tugþúsundum Íslendinga í dag en þetta sýnir vel veruleikatengingu ríkisstjórnarinnar við raunveruleika umboðsveitenda hennar.

Öll úrræði ykkar snúast um ákvarðanatöku utanaðkomandi um lausnir. Ekki hvað heimilin geta. Skilanefndarmenn í bönkunum afskrifa og breyta lánum þeirra sem næst sér standa án eftirlits. Á kostnað hverra?  Ef lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur hefði náð fram að ganga hefðu heimili landsins getað samið. Það vill nefnilega enginn missa heimili sitt. Því reyna allir að þenja sig til hins ýtrasta til að svo verði ekki. En leikreglurnar sem þið samþykktuð eru þannig að fólk sem skuldar núna (ma. vegna hækkana ykkar á víni, tóbaki og bensíni) 35 milljónir í 25 milljón króna eign missir hana á uppboð þar sem bankinn kaupir hana á 5 milljónir, skráir í eignasafn sitt 30 milljón króna skuld og 25 milljón króna eign. Fyrir vikið er fáránlegt fyrir bankann að vilja eitthvað semja við þig.
Svo er það með þessar hækkanir á bensíni, víni og tóbaki. Þið vissuð allan tímann að þetta myndi ekki skila ykkur meiri tekjum ekki satt? Að smygl og brugg myndi aukast? En þetta hækkar húsnæðislánin okkar og kannski eru kröfuhafar bankanna fúsari til að kaupa af þér bankana?  Vertu maður og viðurkenndu það. Ekki er heimskunni fyrir að fara þannig að ég sé ekki aðra skýringu.

Þú talar um örvun atvinnulífsins.
Á sama tíma og fólksflótti hefur ekki verið meiri síðan um 1880 hælir þú þér af aðgerðum til örvunar efnahagslífsins. Þið ljúgið um atvinnuleysið með því að neita 4000 manns um atvinnuleysisbætur vegna breyttra reglna. Kannski voru einhverjir þar í vinnu. Kannski voru einhverjir sem sættu sig ekki við að vera arkitekt á kassa hjá útrásarróna. Það skiptir engu máli.
Þessi þjóð er sundurtætt, ráðvillt, reið og treystir engum. Réttilega.
Ef að ykkar lausnir og aðgerðir eru það besta sem býðst hér er á hreinu að besti kostur okkar allra er að hífa upp segl og sigla til baka. Fyrir tveimur árum síðan hefði aldrei hvarflað að mér að flytja af landi brott. Nú er ég samt að undirbúa það og nokkuð spenntur. Var það ekki annars lausn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á atvinnuleysinu? Hrekja fólk í burt?  Þú og Jóhanna, fulltrúar þess sem þið kallið „norræna velferðarstjórn“ skrifuðu undir samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að nauðungarsölurnar skyllu á með fullum þunga í október! Þið voruð búin að telja hversu mörg heimili þyrftu alvarlega aðstoð. 23.0000 heimili. Þið ákváðuð að aðstoða 5.000 þeirra.  Hin eru þá væntanlega „ásættanlegur fórnarkostnaður kreppunnar“!

Steingrímur! Sýndu hinum Norðurlöndunum þá virðingu að hætta að tala um „norræna velferðarstjórn“ og sýnið þið Jóhanna kjósendum ykkar þá virðingu að tala ekki um „Skjaldborg“! Gjaldborg væri nær lagi.

Það er vissulega rétt hjá þér Steingrímur að það er að rofa til. Ég er td. kominn aftur með atvinnu sem er meira en margir geta sagt. Ég gæti meira að segja samið við bankann minn um eilífa skuldaánauð og haldið áfram að búa hér.  Þreyja þorrann eins og svo oft áður. Notað „þetta reddast“ á ástandið. Og tekið á því. En það hefur eitt breyst. Hér á landi koma kreppur á ca. 10 ára fresti. Kannski er þessi sú versta en það er ekki endilega aðalmálið.

Þetta hrun hefur upplýst að innviðir stjórnmála- og embættismannakerfis Íslands eru rotnir inn í kjarna. Nýtt Ísland í kjölfar hrunsins er útópía okkar bláeygu borgaranna sem héldu að hægt væri að breyta. Að höndum yrði tekið saman, dekkið smúlað, spilin stokkuð og gefið upp á nýtt. Án þess að svindla. En það stendur ekki til boða.

Hér eiga enn þeir menn sem ryksuguðu upp fé bankanna, blekktu upp verðmæti eigin fyrirtækja, hreinsuðu upp sparifé fólks, stunduðu fákeppni og þegjandi einnar krónu samkeppni nánast öll fyrirtæki landsins sem eru nauðsynleg fólki til daglegs lífs. Og hafa fengið á silfurfati skilanefnda með tugmilljarðakróna afskriftum,  þau sem farið hafa í þrot.

Hér eru getulausir flokksgæðingar ráðnir í embætti. Börn þeirra eiga aðgang að blýantsnagandi hátekjustörfum  án getu til annars en að mæta og vera með.  Það hefur ekkert breyst innan stjórnsýslunnar annað en það að nýjir flokkar geta raðað á ríkisjötuna.

Samkeppnisstofnun, neytendastofa, fjármálaeftirlit og allar þær stofnanir sem áttu að sjá um hagsmuni almennings eru enn bara geymslustofnanir fyrir flokkaspírur.  Bitlaus, atkvæðalaus, ráðalaus, metnaðarlaus og getulaus möpputígrisdýraembætti.
 Ekki misbjóða mér og öðrum Íslendingum með því að hér sé „Land tekið að rísa“.  Meðan spillingin það sem hrægammar hrunsins keppast við að auðgast á eymd fólks ríkir.  Þinn flokkur og hinir 3 skaffa sér milljarð af skattfé landsmanna á kjörtímabilinu, rannsóknarskýrslan fær ekki framhaldsmeðferð, draumur þjóðarinnar um stjórnarskrá sem er ekki afrit af dönsku útgáfunni er drepinn, Seðlabankinn geti logið um verðbólguspár og bankar þurfa ekki að ábyrgjast „ráðgjöf“ sína. Hreinlega sagt meðan réttlæti ríkir ekki hér á landi, slepptu þessari setningu!

Ertu til í að segja hana augliti til auglits við þær þúsundir Íslendinga sem eru að missa heimili sín?
Biðröðina hjá mæðrastyrksnefnd og fjölskylduhjálpinni?
Þessar 4000 manneskjur sem þið strokuðuð út af atvinnuleysisbótum?
Fólkið sem horfir á eftir ástvinum vegna sjálfsvígs í kjölfar kreppunnar?
Fólkið sem á ekki fyrir skólabókum fyrir börnin sín?
Sl. daga hef ég vegna vinnu minnar orðið vitni að gömlu fólki gramsandi í ruslatunnum eftir dósum til að selja. Betlandi fólki. Fólki borgandi bensín á bíulinn með tíköllum og krónum. Fólki gangandi tómhent út úr matvöruverslunum af því að innistæða var ekki á kortinu. Dæmir þú þetta fólk eins og Pétur Blöndal myndi líklega gera sem óráðsíufólk?

Þið stjórnmálamenn hafið sagt við okkur kjósendur að þið sækjist eftir þingsæti til að vera vörslumenn hagsmuna okkar. En hafið sýnt að vera vörslumenn hagsmuna flokksins.

Verðtrygging lána og útreikningar standast enga skoðun miðað við sanngirnissjónarmið. Við afnám verðtryggingar launa urðu til tveir gjaldmiðlar í landinu. Verðtryggða króna lánveitendans og óverðtryggða króna laun/lánþegans.  Þessi gjörningur einn og sér er gróft mannréttindabrot þó í meðförum ríkisstjórna, verkalýðsfélagseigenda og atvinnurekenda hafi verið markaðsssett sem „þjóðarsátt“.
Horfðu á þessa „sátt“ núna og afleiðingar hennar! Hvar er ábyrgð Seðlabankans á fölskum verðbólguspám og bitlausum efnahagsaðgerðum?. Hvar er ábyrgð stjórnvalda á þensluhvetjandi aðgerðum eins og Kárahnjúkavirkjun, stærsta drullupolli Evrópu? 90% húsnæðislánakosningartrikki Framsóknar sem Geir H. Haarde ákvað vera ásættanlegan fórnarkostnað fyrir áframhaldandi valdastólaverming?
Er ábyrgðin alltaf skattborgarans? Af því að eiga óhæfa stjórnmálamenn? Núna er Orkuveitan að bætast við með jafnvel 20% hækkun til að dekka sitt sukk. Hækkanir sem verða til þess að fólk sem skiptir ekki einu sinni við fyrirtækið, skuldar meira i húsnæði sínu! Þið skattleggið fólk sem hefur ekki efni á að láta skoða ökutækin sín. Þið verðlaunið þá sem hafa efni a að láta laga húsnæði sitt á kostnað þeirra sem hafa ekki efni á því. Þið ætlið að kreista 10 milljarða í viðbót á næsta ári út úr skattborgurum sem eiga varla til hnífs og skeiðar!

Setningin með lögum skal land byggja en ólögum eyða er enn í fullum gangi. Og það bólar ekkert á því að ólögin víki. Þar berð þú og þinn flokkur jafna sök með hrunflokkunum þremur.

ps.
Segðu Jóhönnu að slökkva ljósin á Keflavíkurflugvelli þegar þið farið héðan líka. HS orka tekur nefnilega strangt á vanskilum.
mbl.is 39 fyrirtæki gjaldþrota í júlí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Ævar fyrir frábæra skilgreiningu á ástandinu á Íslandi í dag.  Megi þetta fara sem víðast. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.8.2010 kl. 10:22

2 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Röng fullyrðing hjá þér - "þingið var að þrasa um....................."

Gamalt mál sem hafði legið órætt var tekið fyrir á þesum tíma að frumkvæði þáverandi forseta - tilgangurinn var að koma höggi á flutningsmann - ekkert annað - flutningsmaður krafðist þess að málið yrði tafarlaust tekið af dagskrá enda fáránlegt að taka það fyrir undir þessum kringumstæðum.

Fávísar sálir hafa hinsvegar haldið því á lofti að flutningsmaður hafi látið setja málið á dagskrá - það er RANGT slíkt ákveður forseti - sem á þessum tíma var GUÐBJARTUR HANNESSON - lýsa þessi vinnubrögð honum vel.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 27.8.2010 kl. 10:43

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Takið hinni postullegu kveðju börnin góð

Þetta er góður pistill og það ætti að skylda ríkisstjórnina til sitja berhausuð undir flutningnum.

Árni Gunnarsson, 27.8.2010 kl. 12:15

4 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Ísland í hnotskurn í dag og Takk fyrir þessa góðu grein Ævar þar sem þú kemur akkúrat inn á stöðuna eins og hún er. Öllu verra er að þú sért að fara úr Landi því það er akkúrat svona maður eins og þú með þessa sýn og þennan hita sem við þurfum í dag...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 27.8.2010 kl. 15:12

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mér finnst þú eiga skilið feedback og mér finnst þú eiga það skilið að það sé heiðarlegt. Ég viðurkenni það að þegar ég var komin niður fyrir miðja grein þá var ég farin að strjúka eitt og eitt tár sem slapp út fyrir augnkrókana en í lokin þá voru þau orðin þyngri og trylluðu stríðar þannig að ég náði þeim ekki fyrr en þau voru komin niður á miðjar kinnar.

Ég græt það vissulega að þú skulir vera að fara en ég skil þig svo vel og óska þér að sjálfsögðu þess að þér og þínum hlotnist betra líf á nýjum sta! en ég græt fyrst og fremst yfir fegurð réttlætiskenndar þinnar sem skín af hverju einasta orði bréfsins þíns. Samkennd þinni með náunganum. Réttlátri en hófsamri reiði sem litar orð þín ekki sterkar en svo að þú ert málefnalegur, heiðarlegur og einlægur frá upphafi til enda.

Ég vona að þetta bréf berist Steingrími. Þú hefur e.t.v. sent honum það? En ég vona líka að allir þeir sem rekast á þetta bréf breiði það út. Ég vona að þeir sem vilja verja þetta snargeggjaða kerfi sem Steingrímur reyndar allur meginþorri þingmanna á Alþingi okkar eru að verja lesi það, meðtaki innihald þess og átti sig svo á þeim gríðarlega fórnarkostnaði sem það hefur í för með sér að halda áfram á þeirri braut sem við erum á núna.

Einn þeirra er allur sá fjöldi hæfileikafólks sem þessi helstefna er að hrekja úr landi! Ævar Rafn er ekki sá fyrsti sem fer og alveg ábyggilega ekki sá síðasti. En ég veit að í mínum huga á hann eftir að vera tákngervingur fyrir það mikilvæga fólk sem við misstum vegna þess að stjórnvöld gerðu okkur ekki kleift að lifa við óbreyttar aðstæður en ekki síður fyrir það að allur þorri almennings hefur ekki dug í sér (ekki enn a.m.k.) til að rísa upp og spyrna duglega við fótum og taka sig saman um kröfur varðandi grundvallarbreytingar/endurbætur á þeim atriðum sem Ævar telur upp hér að ofan!

Ég er ekki þess umkominn að þakka þér þitt framlag Ævar Rafn en vona svo sannarlega að þú fáir það frá lífinu sjálfu sem ég bið að gefi þér hamingju og farsæla daga allt til enda

Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.8.2010 kl. 03:31

6 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ólafur. Ég hef ekki hugmynd um hversu mikið þú færð borgað fyrir hagsmunagæslu en ef að þetta er aðalatriði greinarinnar að þínu mati skaltu hafa það fyrir þig.

Það eru einhverjar vikur í að ég fari mína fyrstu ferð til vinnu í danaveldi og sjálfsagt mánuðir í endalegan flutning en það sem hefur komið mér mest á óvart eftir að ég gaf þetta út er hvað margir eru að hugsa það sama. Kannski verður Ísland eins og Vestmannaeyjar eftir gosið. Með 75% mannaflans eftir.

Ævar Rafn Kjartansson, 30.8.2010 kl. 00:32

7 Smámynd: Inga Sæland Ástvaldsdóttir

Takk fyrir þennan frábæara pistil þinn Ævar. Hvert einasta orð á við rök að styðjast og við sem höfum lítið annað að súpa en drulluna sem lekur undan botninum á þessum spillingum öllum, erum sannarlega búin að fá nóg. Það er leitt að vita til þess að þú skulir vera að fara frá okkur þar sem núna vantar okkur mann eins og þig í baráttuna sem óhjákvæmilega hlýtur að verða háð fyrr en seinna. Bylting er það sem koma skal, annars verður engu breytt því miður.

Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 31.8.2010 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.