Á hvaða fundi var hann?

 

http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/#entry-188588

“í gær lenti ég á kostulegum fundi í Þingborg þar sem saman voru komnir margir hinna rótttækustu í umhverfismálum hér í héraði. Innan um var líka margt af hófsömu góðu framsóknarfólki en það ber minna á því á svona fundi. Við fulltrúar flokkanna sátum fyrir svörum og þrátt fyrir að umræður væru sæmilega málefnalegar blöskraði mér skelfilega að sjá sveitunga mína marga sýna sínar verstu hliðar. Það var klappað í ákafa fyrir mestu öfgunum og flissað illkvitnislega þegar fjármálaráðherra talaði. Hvað sem pólitík er, þá megum við aldrei gleyma að sýna háttvísi og kurteisi.”

 Ég og konan mín sátum þennan fund og  hann var athyglisverður, gagnlegur þó ekkert nýtt hafi kannski komið fram nema að við vissum ekki nógu vel af hættunni af því hve hraunið sé gljupt og geti eytt ræktuðum túnum. Við vissum af öllu hinu eins og kemur fram í greinum okkar hér fyrir neðan.

Það var ekki klappað fyrir öfgum eins og Bjarni heldur fram. Það var klappað til stuðnings tilfinningum þeirra sem finnst vera verið að misþyrma Þjórsá. Þegar tæplega níræðir bændur sjá ástæðu til að koma á svona fund og tala um hvað við séum að gera barna-barna-barnabörnum okkar er allt í lagi að leggja við hlustir. Eða finnst Bjarna það til of mikils mælst?. Eitt af því sem hann notaði sem varnartrikk fyrir sig og sitt spillingarbæli var að það væri líklega of seint að hætta við. Af hverju er það of seint?. Það lýsti bóndi sem á land að ánni því yfir að hann myndi aldrei selja eða samþykkja þessa virkjun. Bæði Bjarni sem talaði um sátt í málunum og 'Arni Matt sem ekkert vissi höfnuðu því aldrei að farin yrði sú leið að neyða menn með eignarnámi. Þetta er mikil riddaramennska stjórnarflokkanna.

 

Að lokum vil ég mælast til þess að Framsóknarflokkurinn verði lagður til hinstu hvílu. Það er fyrir löngu orðin ólykt af hræinu. 

 


Meðvitundarlaus fjármálaráðherra?

Var með konunni í dag á fundi í Þingborg rétt utan við Selfoss. Umræðan snerist um virkjanir í neðri-Þjórsá og mættir fulltrúar allra flokkanna auk um 100 reiðra bænda og hnefafylli af okkur sumarhúsaeigendunum sem eiga hagsmuna að gæta. Fulltrúar Samfylkingar, Íslandshreyfingar og vinstri grænna komu vel út í þessum umræðum. Höfðu skýr svör, ákveðnar skoðanir og góðan rökstuðning með sínu máli. Ekki það fulltrúi frjálslyndra kom líka sjónarmiðum síns flokks á framfæri. Þau eru nokkurn veginn svona: Virkjum allt helvítis klabbið ef við högnumst á því. Mesta athygli mína vakti þó svör og ekki svör stjórnarflokkanna.
Fyrir Framsóknarflokkinn var fyrir svörum Bjarni Harðarson í 2. sæti Framsóknar á Suðurlandi. Hann fór á kostum og synd að hann skuli tilheyra þessarri spillingarklíku. Hann viðurkenndi að vera á móti þessum framkvæmdum þó Guðni Ágústsson styddi þær og sagði að "ef hægt væri að hætta við þær væri það besti kosturinn". En margtók fram að sennilega væri það orðið of seint sem ég á voðalega erfitt með að skilja. Stjarna kvöldsins var samt fjármálaráðherra Árni Mathiesen. Ég hef aldrei á ævinni heyrt eins lítið frá manni á að vita svo mikið um sinn málaflokk. ......Ja ég bara veit það ekki og þannig svör réðu öllum hans svörum á fundinum. Ef fjármálaráðherra, yfirmaður Landsvirkjunar veit ekkert um málefni lútandi að þessarri stofnun erum við þá ekki í frekar djúpum illalyktandi kúk?

Þetta er allt í réttum farvegi sögðu þessir háu herrar líka um samninga Landsvirkjunar við bændur en gátu engan veginn undanskilið það að gripið yrði til eignarupptöku í skjóli almannahagsmuna. Eins og Bjarni orðaði það með dulinni hótun: Hvað ef einhver einn þver stendur eftir? (Orðaði það ekki svona). Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að það gæti verið nauðsynlegt að grípa til þessa ráðs. Sem sagt þá má hirða af honum landið í skjóli almannahagsmuna. Sem eru ekki almannahagsmunir. Heldur hagsmunir auðhringa sem sennilega borga í sjóði Framsóknar. Ef þessi fullyrðing situr í einhverjum þá vildi ég gjarnan fá frá þeim sömu útskýringar á fyrir hvað Framsókn stendur til hagsbóta fyrir land og þjóð. Þetta hefur nefnilega vafist verulega fyrir mér.

Annars snerist þessi grein um fjármálaráðherra og hans framlag á þessum fundi. Árni gerði eiginlega hálfgert grín að bændunum og þegar kom að skýrum svörum "vissi hann bara ekki"eða "þekkti bara ekki". Það fengust aldrei skýr svör. Einkavæðingu Landsvirkjunar vissi hann ekkert um. Það hvort yrði virkjað í neðri Þjórsá snerist bara um að hafa kaupanda af raforku. Hafnfirðingar hefðu seinkað virkjun í Þjórsá. Það komu engin skýr svör frá honum og fulltrúi Framsóknar talaði í kross við forystu sína.

Spurningar og málaflutningur bændanna á svæðinu byggðist á áratuga reynslu þeirra á svæðinu. Ég er bara búinn að vera þarna frístundagemlingur í 12 ár og hef lært margt á þeim tíma. Þetta fólk les í ána, veðrið og gróðurinn. Það að horfa framhjá visku og vitund þessa fólks sem lifir og hrærist í byggðinni sem á að umbylta er í besta falli heimska. Smiður sem ég vinn hjá núna hefur oft sagt að það sé best að vinna fyrir arkitekta og byggingarverkfræðinga sem hafa lært smíði. Þeir vita muninn á því að teikna og framkvæma. Virkjanir í neðri Þjórsá eiga eftir að verða teiknaðar á ákveðinn hátt. Landsvirkjun á síðan eftir að eyða mörgum árum í að fela mistök sín.


Bylur hæst í tómri tunnu

StoppÍslenskir álhausar nota gjarnan í málflutningi sínum fyrir álverum um allt land
þessi rök gegn þeim sem mótmæla:
 „Viltu þá bara atvinnuleysi?“
„Eigum við bara að tína fjallagrös?“
„Á hagvöxtur að stoppa?“
„Á landsbyggðin að þurrkast út?“
„Virkjun með umhverfisvænni orku á Íslandi stuðlar að minnkun
gróðurhúsalofttegunda!“

Ég segi bara vá.......... hversu mikið er til af fólki á íslandi sem er bara
hreinlega heimskt?

Get skilið eldra fólk sem hefur upplifað kreppu, fátækt og torfkofana að vilja ekki
halda þangað aftur. Enda notar Framsóknarvaldaklíkan þetta óspart til að hræða þessa
kjósendur. En er einhver hætta á 1930 aftur eða álíka tímum? Meira að segja
hrokafyllsti ráðherra landsins sem er þar fyrir utan ekki í starfi í umboði
þjóðarinnar, gæti ekki haldið þeirri hættu fram. Nema vera gersamlega fæddur og
uppalinn á annarri plánetu. Sem gæti verið.

Er virkilega einhver hætta á því að þjóðin endi aftur í sauðskinnsskónum, týni
fjallagrös og súrsi matinn sinn?

Svona málaflutningur er bara fyrir heimskt eða í besta falli illa gefið fólk með
fyrirfram matreiddar skoðanir fengnar frá kosningamaskínum sem selja maðkétna
nýlenduvöru hræðslunnar.

Allur málaflutningur íslenskra álhausa er orðinn gerræðislegur og gott ef ekki er
fasískt óbragð af honum.

Og af því að það er svona vinsælt að gera mönnum það að velja fjallagrös umfram
áldósir væri kannski hægt að benda fáfróðum á að á eftir fíkniefna- og
hergagnaiðnaðinum kemur snyrtivöruiðnaðurinn sterkastur inn.
Blue Lagoon vörur eru þegar komnar á alþjóðlegan markað og umhverfisvænar vörur
verða meira ráðandi með hverju árinu..

Endurgreiðslur til erlendra kvikmyndafyrirtækja hafa þegar skilað miklum tekjum til
þjóðarbúsins. Lang fyrrverandi Menntamálaráðherra Frakklands stóð fyrir átaki í
útflutningi franskrar menningar sem hefur skilað þeim miklum árangri.

Íslensk fyrirtæki hafa staðið fyrir strandhöggi um allan heim. Það eru til ótal
tækifæri. Ótal hugmyndir og ótal möguleikar.
Ekki bara gjaldþrotalausnir hugmyndagjaldþrotaframsóknar: 1. Loðdýrarækt = gjaldþrot
bænda. 2. Fiskeldi = Gjaldþrot. 3. Álver = Orka seld á broti af markaðsvirði,
fyrirtækin greiða brot af sköttum íslenskra fyrirtækja, allir samningar faldir svo
enginn geti metið hvort um ásættanlega samninga sé að ræða.

Vitsmunalegar umræður um hvað sé best fyrir land og þjóð snúast ekki um hver gargar
mest eða Alcan hafi frekar efni á því að „koma sínum sjónarmiðum á
framfæri“ frekar en grasrótarsamtök sem berjast gegn þeim. Þar brást
bæjarstjórn Hafnarfjarðar algerlega í að gæta jafnræðis og setja upp sanngjarnar
leikreglur. Leikreglur eins og stjórnmálaflokkarnir settu sér um auglýsingamál í
kosningunum nú.

Leikreglum sem Framsókn á eftir að fara á bak við um einhver hundruðir  prósenta.
Þeir þurfa nefnilega að reyna að heilaþvo kjósendur til að geta haldið áfram að
útdeila flokksmönnum sínum bittlingum fyrir  vel unnin störf. Eða af hverju var
Álgerður að skipa aðstoðarmann sinn sem stjórnarformann Landsvirkjunar nokkrum dögum
fyrir  kosningar. Og eiginkonu hans sem aðstoðarmann sinn í hans stað. Það er ólykt
af þessum flokki og öllum hans gjörðum.

Davíð Oddson sem seðlabankastjóri sendi þjóðinni mikilvæg skilaboð rétt fyrir
Hafnarfjarðarkosningarnar. Með nei eru meiri líkur á mjúkri lendingu efnahagslífsins
og lægri vöxtum. Af hverju sendir hann þetta frá sér rétt fyrir kosningarnar? Segir
það sig ekki sjálft?

Ég er eiginlega búinn að fá nóg af þumbum landsinsí hvaða átt sem þeir snúast en það
er greinilega staðreynd að „hæst bylur í tómri tunnu“ og þannig virðast
allar umræður hér vera að þróast.

Ég hef eytt miklum tíma í að koma mér inn í þau málefni sem ég hef skoðanir á og
snerta mig. Mér fyndist það óvirðing við annað fólk að tjá mig um málefni nema ég
hafi sett mig vel inn í þau. En ég er greinilega að vaða reyk með því. Gaspraðu sem
mest og oftast og þannig verður þú og þín skoðun ofan á!

Framsókn vinnur sinn mesta kosningarsigur þó þeir tapi mestu í næstu
Alþingiskosningum. Alveg eins og þegar 6.3% maðurinn þeirra varð sá valdamesti í
Reykjavík verða þeir með mestu völdin eftir kosningar þrátt fyrir minnsta fylgið.
Þeir hafa jú komið öllu sínu fólki í embætti með glæsibrag. (Biðst afsökunar á að
hafa kallað hann 4.9% manninn í eldri grein).

Við sem setjum tilfinningar í málaflutning okkar erum dæmd til að vera
„fjallagrasatínendur“, „afturhaldsseggir“ á móti þróun og
hagvexti og þaðan af.

Ekki endilega gott hlutskipti.

Og þá skiptir engu þó ég hafi lesið mér til um málin og telji mig vita eitthvað.

Málið er nefnilega „að hæst bylur í tómri tunnu“ og ekkert sem ég hef að
rökræða skiptir þá máli.


Lækurinn Þjórsá - Um kunnáttu þrastarins í japanskri Kamakazi hernaðarflugtækni

throsturinnGrein eftir Ævar Rafn Kjartansson og Helgu Guðmundsdóttur:
Það er þröstur að kvaka úti. Grobbinn og stoltur af því að makinn hefur lagt 4 falleg egg í hreiðrið sem hann byggði. Fjarri heyrist í Maríuerlu. Kvenfuglinn er í ætisleit en það er rigning þannig að karlfuglinn heldur sig undir stóru asparlaufi, þurrum og í öryggi trjánna. Trjánna sem við gróðursettum fyrir áratug. Þegar við byrjuðum að gróðursetja aspir, birki, reynitré, mispil, greni og fleira  var þetta svæði þúfnabrekka engum nýt með litlu lífi. Konan byrjaði en eftir að við fórum bæði að taka þátt í að gróðursetja varð þetta partur af lífsstíl. Hvernig heilsast Olgu? Olga er bústin og plássfrek fjallafura sem annað okkar plantaði niður.

Þrastarparið verpti inn í geymslu. Á meðan þau voru að koma upp ungum höfðum við ekki aðgang að geymslunni. Þrastarpabbi vildi það ekki.
Af hverju vitum við það? Jú hann horfði á okkur þegar við nálguðumst geymsluna með svona Clint Eastwoodsvip og helköld augun hvikuðu ekki af okkur. Svona Go ahead, make my day gæi. Af því að við höfum séð Dirty Harry komum við  nær og hann breiddi út bringuna. Afar ógnandi enda jókst ummál bringunar um eina 4-5 mm. Þegar þetta dugði ekki til að við létum okkur segjast risu fjaðrirnar á höfði hans í ógnvekjandi kamb, eina 2-3 mm. upp í loftið. Núna fórum við að hugsa okkar gang en nálguðumst samt varfærnislega. Það var þá sem við kynntumst að eigin raun kunnáttu þrastarins í japanskri Kamakazi hernaðarflugtækni. Hann steypti sér. Flaug upp nokkra sentimetra frá okkur. Steypti sér aftur. Og aftur. Hann ætlaði sér að vernda ungana sína.
Við gátum ekki notað geymsluna í einn og hálfan mánuð. Stórkostlegt 3skipt hreiðrið hans er enn til hjá okkur og fjölskyldan vitjar okkar á hverju ári eins og maríuerlan.

Þegar við göngum eftir túninu niður að árbakkanum rísa upp hneykslaðir spóar, Tjaldurinn heldur kóramót á bakkanum og hrossagaukar, lóur, steindeplar, þúfutittlingur og sólskríkja krydda lífið þarna frekar. Hrafninn krunkar frá Núpnum og Smyrlarnir  sveima eftir bráð.

Í byrjun ágúst má sjá gæsapör í hundraðatali fleyta sér niður Þjórsá með 1-7 unga í halarófu á eftir sér. Við höfum séð afföllin þegar ungarnir verða viðskila við foreldrana og brölta einmana upp á bakkann. Stundum eru þeir í hundraðatali þar með þá einu vörn gegn rándýrum að áin sé þarna. Við höfum meira að segja upplifað það að taka að okkur unga og koma honum í fóstur til geðþekks gæsapars sem við kynntumst í mýrinni við hús Norðurlandsráðs í Reykjavík. Unginn okkar var að vísu kominn á táningsaldur og helmingi stærri en hin afkvæmin en féll strax inn í hópinn.
Þegar af virkjun verður verður ágústmánuður gæsaungahlaðborð fyrir mink og ref sem er farinn að fjölga sér þarna. Áin eða þau 4% hennar sem eftir verða kemur til með að renna í nokkrum rásum niður farveginn með engri fyrirstöðu fyrir rándýr til „að taka slátur" og safna í sarpinn.

Þjórsá  á það til að láta ófriðlega. Hávaðasöm ryðst hún niður farveg sinn tillitslaus gagnvart okkur sem viljum bara hafa nið hennar sem þægilegt undirspil við sveitasælu sumarhúsaeigandans. Sumt eldra fólk í sveitinni segist geta sagt til um væntanlegt veðurfar eftir nið hennar.

Foreldrar annars okkar sem voru fyrstu landnemar sumarhúsaeigenda á þessum friðsæla stað kölluðu það gullnu ströndina þegar þau upplifðu sólarupprás þar sem sólin að morgni speglaði ána og bakka hennar. Saman horfðu þau á þetta í andakt. Það tók okkur hin einhver ár að skilja en í dag er gullna ströndin okkar allra. Hún verður það ekki áfram með endurskini úr vesælum taumum sem 4% árinnar sem eftir verða ásamt sandfokinu  veita okkur.

Við tölum um sveitina okkar þó lögheimilið sé annars staðar. Þar sem áður var voldug á og vatnsmikil, hrífandi útsýni og grösugt láglendi horfum við á frumskóg háspennumastra Landsvirkjunar, þurran jarðveg í uppblæstri, gæsavarp verða varg að bráð, eyju sem hefur verið minnisvarði um hvernig Ísland var við landnám verða að sköllóttum hólma, Urriðafoss og fleiri fossa  verða að minningu hjá þeim sem séð hafa, Jarðskjálftavarnarflautur æpa 2x á ári, fornminjar lenda undir lóni, tún bænda hverfa og á sumum stöðum raskast allur rekstur þeirra, skipulagðar frístundabyggðir rýrna að verðlagi og á sumum stöðum verður ekki hægt að byggja.

Þegar sandfokið gnauðar á gluggunum hjá okkur og Þjórsá er orðin að aumkunarverðri skrípamynd af sjálfri sér vildum við gjarnan getað huggað okkur við það að raforkuverð til almennings hafi jú lækkað. Og að það að þ_rösturinn og maríuerlan séu horfin og gæsavarpið orðið svipur hjá sjón séu „ásættanlegur fórnarkostnaður".

Landsvirkjun er nefnilega eins og stjórnmálamennirnir sem eyða löngum tíma í að svara ekki spurningum. „Ásættanlegur fórnarkostnaður" og „mótvægisaðgerðir" eru svona orð eins og þegar ekki of vitrir stjórnmálamenn okkar segja: „leita skal allra leiða" eða „það er eindreginn ásetningur að ná fram ásættanlegri niðurstöðu í þessu máli". Allur orðhengilsháttur breytir ekki staðreyndum. Staðreyndum eins og við höfum talið upp. Eða þeim að í eitt þessarra lóna sem fyrirhuguð eru berist 100.000 tonn! af aur á hverju ári. Eða þeirri staðreynd að það er veruleg hætta á því að laxaveiði í Þjórsá sem er 5% af veiði á Íslandi sé í hættu. Að þessi sérstaki laxastofn er í hættu. Landsvirkjun afgreiðir allar mótbárur með því „að gripið verði til mótvægisaðgerða". Þetta er svona eins og þegar núverandi Iðnaðarmálaráðherra sem enginn á Íslandi kaus yfir sig segir: „Stóriðjustefnan er dauð"! ÞE. þegar við erum búin að gefa stóriðjum loftslagskvóta okkar og bjóða þeim betra skattaumhverfi en íslenskum fyrirtækjum bjóðast.

Ástæðan fyrir þessum skrifum er sú að þó að við höfum ekki getað notað geymsluna okkar í einn og hálfan mánuð þá lærðum við heilmikið af þrestinum. Við getum þanið út bringuna um einhverja millimetra en það virkar ekki. Við getum reynt að stæla herra Eastwood en það yrði bara klaufalegt. Við getum sett upp kamb með aðstoð hárlakks. En pönkið er búið. Við getum ekki flogið þannig að Kamakaziaðgerðir eru ekki inni í myndinni. Við viljum vernda unga framtíðarinnar eins og þrösturinn.
Þess vegna skrifum við um væntanleg hryðjuverk gagnvart lengstu á landsins sem er meira að segja talið að hafi verið siglt upp í landnáminu.
Við getum beðið fólk um að vera meðvitaðri um náttúruna og þær hörmungar sem Landsvirkjun er að ráðast í. Raforka, hreint vatn, hrein náttúra og hreint loft verða dýrmætari og dýrmætari með hverjum deginum, ekki árinu. Það er allt í lagi að bíða og hugsa málið.
Landsvirkjun er ekkert skrímsli. Þeir hafa staðið sig vel með virkjanir ofar í Þjórsá en þetta er í byggð. Það gilda önnur lögmál. Eigum við ekki alveg eins að hefja malarnám í Heklu?

Stoppum auðmýkingu Þjórsár.


Ævar Rafn Kjartansson
Helga Guðmundsdóttir

Lækjarsprænan Þjórsá og vald Landsvirkjunar

ÁFORM Landsvirkjunar (LV) um virkjanir í neðri Þjórsá hafa farið leynt meðan styrrinn stóð um Kárahnjúkavirkjun. Meðan athyglin beindist þangað faldi LV allt efni um áform sín í Þjórsá undir liðnum "Umhverfismál". Ekki var stafur undir fréttatengdu efni eða framkvæmdum.

Í fréttabréfi LV um Hvammsvirkjun (áður Núpsvirkjun) er ljósmynd af áhrifasvæði virkjunarinnar. Sennilega vegna féskorts hafa þeir valið að nota yfir 30 ára gamla loftmynd af svæðinu vegna þess að enginn þeirra sumarbústaða sem eru þar sjást á myndinni. Er þó sá elsti frá árinu 1971-3. Til að kóróna falsanir sínar setja þeir svartan borða með texta yfir bæinn Minni-Núp og útkoman er sú að þarna sé eingöngu um nokkur ræktuð tún að ræða.

Þess utan teiknar LV Þjórsá eftir virkjun miðað við 50-100 ml3 rennsli þrátt fyrir að rennslið fari niður í 4% af fyrra rennsli eða 10 ml3.

Áhrif þessarra virkjanna gætir víða og hafa verulega slæmar afleiðingar.

Fjölmargir ábúendur og sumarhúsaeigendur verða fyrir mismiklum búsifjum, sumir verulega.

Það er samt ásýnd árinnar og afleiðingar breytinganna sem vega þyngst.

Ef við skoðum það helsta lítur þetta svona út:

Gróðri vaxin frá fjalli til fjöru.

Eyjan Minni-Núpshólmi eða Viðey er þekkt í Gnúpverjahrepp sem fallegur minnisvarði um hvernig landið okkar leit út þegar fyrstu landnámsmennirnir settust hér að. Kjarri vaxin frá toppi til táar enda verndar straumþungi Þjórsár eyjuna fyrir átroðningi. Þegar lækurinn Þjórsá hjalar þar framhjá er ekki langt í að sauðfé endurtaki þann sama leik og allt landið varð fyrir á sínum tíma. LV ætlar að girða af farveginn. Það kemur til með að tefja örlög eyjunnar ekki hindra þau.

Í umsögn Landgræðsla ríkisins til Skipulagsstofnunar við mat á umhverfisáhrifum virkjunar Þjórsár við Núp er lagst gegn þeirri tilhögun að virkja Þjórsá í tveimur þrepum vegna verulegra umhverfisáhrifa þeirrar tilhögunar.

Í ljósi eindregins ásetnings framkvæmdaaðila (LV) í þá veru að græða ekki upp land í stað þess lands sem forgörðum fer við framkvæmdina og með tilliti til ofangreindrar meginreglu þess efnis að leitast skuli við að græða upp land sem raskað er, eða í stað þess sem raskað er sé hið fyrra ekki mögulegt við mannvirkjagerð, hefði Skipulagsstofnun borið að geta sérstaklega um þetta atriði í úrskurðarorði sínu og/eða skilyrðum. Fallast verður því á það sjónarmið kæranda að ekki hafi verið með viðunandi hætti fjallað um mótvægisaðgerðir í úrskurðarorði og/eða skilyrðum.

(Mál 03090121 - Úrskurður skipulagsstofnunar 27. apríl 2004.

 

Lífríki, vatnafar

Í Þjórsá er 5% af árlegri laxveiði Íslendinga. Um 2000 laxar hafa veiðst þar á ári sl. ár.

Laxastofn Þjórsár er sérstæður því fátítt er á heimsvísu að laxar hrygni og alist upp í jökulvatni. Gerð lóns hefur væntanlega þau áhrif að botndýrum fækki og tegundasamsetning þeirra breytist og rýrir því svæðið til uppeldis. Hrygningarstaðir hverfa í farveginum. Neikvæð áhrif eru mest fyrir lax. ((VMST_S/02001) Umhverfisstofnun segir að óvissan sem ríkir um breytingar á straumum, áhrif á laxfiska og skilvirkni mótvægisaðgerða séu talsverð! LV ætlar að koma með mótvægisaðgerðir. Hverjar sem þær verða er ljóst að þessum merkilega laxastofn er stefnt í voða.

Verði af þessum virkjunum tapa 900 fuglapör varplandi sínu.

 

Villibráðarhlaðborð Þjórsár

Í þeim skýrslum og könnunum sem hafa verið gerðar um áhrif virkjunarinnar hefur verið horft framhjá ótrúlegustu hlutum eða þeim stungið undir stól. Vissulega var fugl á svæðinu talinn og reynt að búa til einhvern sannfærandi grunn um áhrif virkjunarinnar. En það var horft framhjá einu stóru atriði. Kannski viljandi? Í byrjun ágúst má sjá gæsapör fleyta sér niður Þjórsá í hundraðatali með 2-4ja daga gamla unga sína örugga fyrir ref og mink. Við virkjun árinnar með allt niður í 4% af henni eftir í farveg sínum þar sem gæsapörin fara frá öflugri á/lóni í læk breytist þetta í hlaðborð fyrir ref og mink með slátrun sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á framtíð gæsavarps á svæðinu. Jafnvel útdauða. Þetta er ekki nefnt einu orði í skýrslu um áhrif virkjunarinnar. Raunar stundar LV það í lokaskýrslum sínum að fjalla um niðurstöður vísindamanna á léttúðugan hátt þar sem viðvörunarorðum er sleppt.

 

Náttúruvá

Hvammsvirkjun verður byggð á virku jarðskjálftasvæði. Nokkrum sinnum á öld verða skjálftar upp á 6-7 á richter oft margir á ári með hreyfingum um allt að 2 metra á jarðskorpu. Skipulagsstofnun telur að mönnum og skepnum geti stafað töluverð hætta vegna stíflubrots af völdum jarðskjálfta. Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftafræði gagnrýna litla umfjöllun á þessu atriði.

1-2 x á ári Gæti LV þurft að hleypa skyndilega auknu vatni í þurran farveginn. Þetta skapar hættu fyrir lífríkið, menn og dýr. Þessu ætlar LV að mæta með viðvörunarflautum og fallhlerum á virkjunum!

 

Ferðaþjónusta

Fyrirtækið Artic Rafting hefur í nokkur ár markaðssett spennandi ferðir niður Þjórsá. Í fyrstu skýrslum LV var aldrei minnst á þetta fyrirtæki. Þeir hafa nú flúið yfir í aðrar ár sem LV er ekki enn búin að ásælast.

Meðfram Þjórsá er ein besta reiðleið landsins sem spillist og verður ekki svipur hjá sjón.

 

Brúin og blekkingin

Í umfjöllun sinni um áhrif á ferðamennsku segir LV margoft í skýrslum sínum að ný brú yfir Þjórsá við virkjun verði til bóta fyrir allar samgöngur auki ferðamennsku osvfrv. Gott og vel og örugglega satt hjá þeim. Það er bara ekki þeirra heldur vegagerðarinnar að taka ákvörðun um svona hluti. Áróðursmáladeild þeirra má þó eiga það að þrátt fyrir að flagga þessu sem gulrót á sveitina tóku þeir fram á einu stað í skýrslu sinni að þetta væri ekki á þeirra könnu.

 

Sumarhúsaeigendur

Við Minni-Núp verður sandfok úr farveginum alvarlegt vandamál. Sumarhúsaeigendur þar mega búast við óbærilegu raski yfir framkvæmdatímann og eftir það sandfoki og uppblæstri ásamt gæsahlaðborði í boði Landsvirkjunnar.

Eignarland sumarhúsaeigenda Lónsholti verður í uppnámi verði af virkjuninni. Afleiðing virkjunarinnar verði sú að lóðir 1 - 5 fari með öllu undir vatn, lóðir 6 - 7 eyðileggist sem byggingarlönd og lóðir 15 - 21 skerðist um 20 - 35 %. Sameiginlegt land 1,5 hektari fari undir vatn og tapist. Lóðir 8 - 14 standi hærra en verði fyrir beinu tjóni hvað sameiginlegt land varðar. (Mál 03080089) Umhverfisráðuneytið.

Byggilegum lóðum fækkar um allt að 50%. Kostnaður eigenda eykst vegna þessa. Þessar kvartanir lítur LV svona á : Fagurfræði er afstæð ! Eigendur þessarra sumarhúsa eiga að éta það sem úti frýs og sætta sig við gjörninginn.

Mikill grjótmulningur mun koma frá fyrirhugðum göngum við Núp. Svæði þau sem fara undir hauga,sem og svæði í næsta nágrenni við þá taka verulegum breytingum.

Talsvert ónæði meðan flutningabílar flytja efni milli gangamunnanna og haugstæðanna.

Mörg sumarhús við árbakka Þjórsár rýrna í verðgildi vegna virkjunarinnar.

 

Ríkið í ríkinu

LV er í eigu íslendinga. Stjórnendur þess telja sennilega samt eins og svo margar ríkisstofnanir að Íslendingar séu til fyrir sig, ekki öfugt. Þetta fyrirtæki heldur úti öflugri áróðurdeild sem vílar ekki fyrir sér að setja ofan í við heilu ráðuneytin ef því er að skipta (Landbún. 1647). Má þá getum leiða að því að til lítils sé fyrir einstakling að mótmæla.

Við fyrri virkjanaframkvæmdir í Þjórsá þurfti LV ekki að lúta eins ströngum kröfum og nú. Það voru aðrir tímar, önnur hugsun. LV má eiga það að hafa gert margt vel, jafnvel stórvel í þeim framkvæmdum án þess að þurfa þess. En málið snýst ekki um það. Virkjanir, lón og stíflur eru staðbundin. Stundum lýti og stundum ekki.

LV stendur fyrir landnauðgun sem á engan sinn líka þar sem háspennumöstur þeirra liggja eins og köngulóarvefur yfir landið og skyggja á sýn okkar á fallegt landslag Íslands. Það sem tapast við þessar virkjanir er að þeirra mati ásættanlegt. Að mínu mati hryðjuverk.

 

Mótvægisaðgerðir Landsvirkjunar

Það kemur oft fyrir í skýrslum LV að grípa þurfi til mótvægisaðgerða. Sem hljómar nokkuð flott. Svona eins og "við reddum þessu"! En staðreyndin er sú ef betur er lesið að mótvægisaðgerðir þýða stundum bara "úps"! LV hefur ekki sýnt á neinn hátt fram á trúverðuga leið til að koma í veg fyrir sandfok úr þurrum árvegi Þjórsár. Enda er sennilega eina leiðin að steypa yfir hann. En þeir hafa þetta flotta orð "mótvægisaðgerðir" til að kasta ryki í augu fólks.

Er Landsvirkjun rekin fyrir almenning eða erlend auðfyrirtæki?

Með stóriðju eru Íslendingar að synda á móti straumnum. Vestræn fyrirtæki forðast þennan iðnað. LV fær að leika lausum hala í stjórnsýslunni með engar kröfur um að sýna arðsemi. Arðsemi LV 1998-2003 var 2,9%. Sem er minni en verðbólgan á þeim tíma. Væri þetta fyrirtæki í einkageira væri búið að reka alla helstu stjórnendur.

66% rafmagns fer til stóriðju. 38% tekna LV kemur frá sömu aðilum. Almennir notendur niðurgreiða semsagt stóriðjuna. Búrfellsvirkjun átti að stuðla að lægra raforkuverði til almennings eftir afskriftir. Það hefur ekki gengið eftir. Hefur það ekki bara frekar hækkað með blekkingum fyrrverandi iðnaðarráðherra við stofnun Landsnets, nýrrar ríkisblóðsugu sem hefur orsakað allt að 60% hækkun raforkuverðs til sumra landshluta.

 

Verði af þessum þremur virkjunum...

Þá verður lengsta á landsins aumkunarverð lækjarspræna.

Við ógnum lífríki hennar.

Lax er í sérstakri áhættu.

Gæsavarp misferst.

Sandfok sem ekki verður hægt að koma í veg fyrir er staðreynd.

Minni-Núpshólmi verður ekki lengur minning um Ísland landsnámsins.

Ein besta reiðleið landsins spillist.

Urriðafoss vatnsmesti foss landsins, hverfur. Það mun hafa verulega skaðleg áhrif á ferðaþjónustu.

4% árinnar verður eftir á köflum á allavega 24 km. kafla.

Stíflur byggðar á virku jarðskjálftasvæði.

Landsvirkjun ætlar að flauta á okkur ef hætta er á ferð.

Fornminjar hverfa undir lón.

Bændur og sumarhúsaeigendur á svæðinu verða fyrir miklu fjárhagslegu og jafnvel tilfinningalegu tjóni.

Sumarhús við árbakka Þjórsár rýrna í verðgildi vegna virkjunarinnar

Frumkvöðlastarf Artic Rafting var drepið af LV.

LV segir að virkjanir í neðri Þjórsá stuðli að lægra raforkuverðI til almennings. Samt eru þeir að

selja þessa raforku til Alcan í Hafnarfirði. Það er sama blekkingin og þeir notuðu með Búrfellsvirkjun.

Háspennufrumskógur LV þéttist.

Álið verður jafn einhæfur útflutningur hjá okkur og þorskurinn var.

Álver sem njóta sérstakra skattalegra meðhöndlunar skekkja samkeppnishæfni íslenskra útrásarfyrirtækja. Jafnvel hrekja þau úr landi.

Mengunarkvótar Íslendinga skv. Kyoto sáttmálanum eru gefnir erlendum auðhringjum.

Þessi sömu fyrirtæki þurfa ekki að greiða sömu skatta og íslensk fyrirtæki. Álverin fá afslátt á fasteignagjöldum, aðstöðugjöldum og öðru því sem íslensk fyrirtæki búa við.

Þetta er ásættanlegur fórnarkostur hjá LV.

Það að við Hafnfirðingar skulu vera í þeirri stöðu að geta ákveðið örlög Þjórsár lengstu ár landsins með atkvæðagreiðslu er allt annar handleggur í þessari sögu.

Í 17. grein um landgræðslu segir: Land skal nýta svo að eigi valdi rýrnun eða eyðingu landkosta. Af hverju er LV undanþegin þessum lögum?

Helstu heimildir:

Úrskurðir umhverfisráðuneytsins mál nr. 03090121 27. apríl 2004, mál nr. 03080089 29.4.2004 og mál nr. 05110127 31. mars 2006.

Rnnsóknir á lífríki Þjórsár og þveráa hennar vegna virkjana neðan Búrfells. Selfossi, september 2002.

Ásgeir Jónsson lektor við Háskóla Íslands. Virkjun lands og þjóðar glærukynning.

Núpsvirkjun, áhrif á ferðaþjónustu, útivist og samfélag. Unnið fyrir Landsvirkjun. Nóvember 2002.

Virkjun Þjórsár við Núp og breyting á Búrfellslínu 1. landsvirkjun skýrsla. Ofl.

 

Höfundur er grafískur hönnuður.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.