15.10.2008 | 23:09
Þyrnirós rumskar - rúin trausti ásamt bönkunum, möppudýrunum, fjármálalífinu, Davíð og ofurhetjunum...
Ég hef sleppt því síðastliðna mánuði að tjá mig hér. Sumpart vegna þess að ég hef haft nóg að gera við að hafa ofan í mig og mína. Sumpart vegna þess að mér fannst bloggið vera búið að breytast í eitthvað vinsældalistakjaftæði sem snýst um að segja sem minnst um sem flest. Og ekki endilega sem gáfulegast.
Núna er þetta sama blogg orðið vettvangur reiðinnar sem ólgar í Íslendingum. Reiðinnar yfir því hvernig komið er, sökudólgunum, áhyggjum af framtíð sinni og sinna. Ásamt reiðinni yfir úrræðaleysi ríkisstjórnarinna, hryðjuverkaárásum forsætisráðherra bretlands á sjálfstæði okkar og virðingu. Þögn og flótta fjármálaglæframannanna sem hafa stungið af.
Í færslu sem ég setti hér inn vildi ég skýra ríkisstjórnina Þyrnirós.
þyrnirós var að rumska. Sennilega of seint og of lítið. Það dylst engum þrátt fyrir biðraðir við nýjar verlunarmiðstöðvar að meiripartur þjóðarinnar er ekki bara uggandi um sinn hag heldur á leið á hausinn. Þó að Geir Haarde og Björgvin Sigurðsson hafi loksins sl. daga farið að sýnast vera að vinna fyrir kaupinu sínu þá er óbætanlegur skaði sinnuleysis þeirra og Seðlabankans ásamt hrokagaspri herra Oddssonar þegar orðið óyfirstíganlegt nema með blóði og svita skuldsettra ófæddra Íslendinga.
Ef þessi sannleikaskeining sem þeir boða verður raunveruleg þe. gerð heiðarlega, á enginn framsóknar- samfylkingar- sjálfstæðisþingmaður eftir að komast ósekur frá henni. Ekki frekar en fjárglæframennirnir sem blekktu bankafólkið til að blekkja innistæðueigendur í bönkunum.
Ríkisstjórnin sem var yfir 70% meirihluta, bankakerfið með sína bullandi góðærisstarfslokasamninga, seðlabankinn með Davíð Oddsson, Halldór Blöndal og Hannes Hólmstein Gissurarson sem helstu starfsmenn eru allir með kreppuskitu upp fyrir háls. Hér eru myndir af stjórnendum Seðlabankans. Hefur einhver þeirra verið ráðinn á FAGLEGUM forsendum?
Hvort þessi fjármálakreppa sé herra Oddssyni, ofurhugum íslenskrar útrásar, amerískum fjármálablöffum eða gerfigjaldmiðli 300 þúsund mörlanda að kenna er nokkuð sem ég nenni ekki að velta fyrir mér.
Veruleikinn sem blasir við mér og fjölmörgum öðrum hefur ekkert með starfslokasamninga, ofurlaun, forkaupsrétti, gjaldeyriskort og það að 200 milljarða króna eignir geti orðið að engu yfir kaffipásu. Raunar nenni ég ekki einu sinni að velta fyrir mér hvernig íslenska útrásin hefur getað blekkt umheiminn svona lengi.
Ég nefnilega veit það að þegar þú blæst í blöðru þá þenst hún út. Meðan hún getur. Og þegar hún hættir að geta þanist út..... já þá spryngur hún.
Þetta sem er að gerast núna er ekkert surprise. Það þarf ekki hagfræðinga til að spá til um að þetta myndi gerast. Ég er ekki einu sinni mikil stærðfræðingur. En vissi þetta. Ég ætlaði að láta hér fylgja með skýrslu frá Willam Buiter, prófessor í London School of Economics þar sem hann varr við íslenska bankakerfinu. (þar sem ég kann ekki að setja pdf skjöl hér inn tengi ég á skýrsluna hjá Láru Hönnu Einarsdóttur. Skýrslunni var stungið undir stól vegna þess hversu viðkvæmt efni hennar var. Góð grein hér hjá Láru Hönnu
Hér er einnig fyrirskipun breska fjármálaráðuneytisins um frystingu eigna Landsbankans. Það eru fullt af íslenskum útflutningsfyrirtækjum sem fá ekki gjaldeyrinn sinn heim þrátt fyrir að heyra ekki undir þessi lög. Bretar láta þetta eins og danir nefnilega yfir alla Íslendinga ganga.
Þyrnirós fær ekki bara falleinkun. Það eiga eftir að líða áratugir áður enn almenningur treystir aftur stjórnmálamönnum, bankakerfinu, seðlabankanum og spútnik peningamönnum landsins.
Það sem gerist á næstu dögum skilur á milli manna og músa. Í augnablikinu virðist meira um mýs en menn á stjórnmálasviðinu.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem er ekkert annað en bandarískur einkavæðingarhrægammur má aldrei ná tökum á þjóðinni. Frekar en rússneskir öfgamenn. Við erum þegar búin að leyfa fjármálaglæframönnum og gersamlega vanhæfum báknið burt ríkisjötukjöftum koma okkur og afkvæmum okkar á kaldan klakann.
Þegar verðtryggingunni var komið á var það til að skuldsetja komandi kynslóðir til að borga skuldir Drakúlakynslóðarinnar sem í óðaverðbólgunni byggði sér hús þar sem lánin brunnu upp. Þú bara skuldaðir sem mest og græddir. þynnkan lenti á okkur. Nú eru verðbréfaglæponar að gera það sama við börnin okkar.
Við látum það ekki gerast. Þessir menn verða dregnir til ábyrgðar. Ef ekki af næstu stjórnvöldum verður það gert af almenningi. Og þá kannski eins óábyrgt og óvandað eins og í uppgjöri andspyrnuhreyfinga seinni heimstyrjaldarinnar við samverkamenn nasista.
Við erum heimsk....... en ekki svona heimsk.
Mjög róttæk viðbrögð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er fáu við þetta að bæta öðru en kvitta undir ágæta greiningu á stöðunni.
Jens Guð, 15.10.2008 kl. 23:42
Ég hreinlega NEITA að stjórnmálamenn eins og Þprgerður Katrín og Ingibjörg Sólrún og Jóhanna Sigurðar. hafi VITAÐ ÞETTA!!!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 15.10.2008 kl. 23:48
Flott skrif og kreppuskita hjá stjórnmálamönnum á vel við.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 16.10.2008 kl. 04:17
Ég hreinlega NEITA að við, almenningur, berum ábyrgð á að fjárglæfrastofnanir skuldsetji þjóðina ekki í algert þjóðargjaldþrot. Það var verkefni stjórnvalda og eftirlitsstofnanna sem eru aftur á ábyrgð stjórnvalda.
Allt þingið er ábyrgt, líka stjórnarandstaðan. Kannski mismunandi mikið ábyrgt, en þetta fólk er þarna til að gæta hagsmuna þjóðarinnar. Það brást.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 08:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.