Þyrnirós skal þessi ríkisstjórn heita.......

Undangengnar ríkisstjórnir hafa flestar fengið á sig nafn eins og Viðeyjarstjórnin, Stefanía, Hágengisstjórnin, Fullveldisstjórnin, Stjórn hinna vinnandi stétta, Ólafía I og II, Nýsköpunarstjórnin, Viðreisnarstjórnin, Einkavæðingarstjórnin (ríkisstjórnir Davíðs Oddsonar).

Það hefur enginn hingað til nefnt þessa ríkisstjórn þannig að ég ætla að koma með tillögu: Þyrnirós! 

Af hverju?  Hefur einhver ríkisstjórn landsins til þessa verið í jafn föstum blundi meðan yfir landið ganga eins margbreytilegir erfiðleikar eins og nú?

Jarðskjálftarnir fyrir austan voru afgreiddir þannig að daginn eftir að forsetinn skoðaði skjálftasvæðið sáu Solla og  Geiri sig tilneydd til að kíkja líka og láta taka af sér myndir til sönnunar um að þau væru með í málunum. Þetta var fjölmiðlaferð fólks sem skiptir meira máli að vera í fréttum fyrir að vera en fyrir að gera.

Viðskiptaráðherra sem hingað til hefur eytt tíma sínum í að afnema hálft stimpilgjald hjá fólki sem getur ekki keypt íbúðir hefur ákveðið að sjálfsábyrgð fólks á tjónasvæðinu sé of há og þurfi að breyta. En bara þar sem skaðinn varð núna. Þetta heitir þröngsýni.

 Lausafjárvandinn er í nefnd og Seðlabankinn hækkar vexti þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að raunveruleikatenging hans við íslenskan veruleika sé finnanlegur. Ekki einu sinni í nákvæmustu smásjám íslenskrar erfðagreiningar.

Samgönguráðherra  er í tómu tjóni með að réttlæta jarðgöng um Séstvallavíkur sem þingmenn hafa fengið í gegn til að halda sér á þingi. Vegakerfið er á sama tíma sprungið og flutningabílum kennt um. Ekki heimskulegum ákvörðunum.

Heilbrigðisráðherra er á fullu við að einkavæða heilsu landsmanna og sér mörg sóknarfæri í stöðunni. Innan skamms verða fjárhagslega óhagkvæmir sjúklingar sendir til  læknadeildar Háskólans sem æfingaverkefni.

Umhverfisráðherra stamar út úr sér að henni finnist miður að ráða minna en gráðugir sveitastjórnarmenn sem fá betra gsm samband frá Landsvirkjun gegn afhendingu náttúrunnar. Og hefur svo ekkert meira um málið að segja.

Fjármálaráðherra ræður glottandi vildarvini frjálshyggjunar í dómarastöður með hliðsjón af því að hafa vandlega farið yfir hæfni þeirri meðan hann borðaði Cheriósið sitt.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilar veiðar á óseljanlegum hval. Samþykkir ósamrýmanlega Ýsu- og Þorskkvóta og hlustar á ráðgjafa sem hafa haft áratugi til að sanna mál sitt með því einu að ráðgjöfin skilar minni og minni þorskafla. Ef þessir menn væru ekki opinberir starfsmenn væri búið að henda þeim. Út á hafsauga.

Iðnaðarráðherra er í stjórnarandstöðu. Eftir kl. 20.00 á kvöldin. Þess utan reynir hann að sópa "Fagra Íslandi" Samfylkingarinnar undir teppið með "vistvænum tölvubúum" sem réttlætingu virkjanaæðis Álhausanna.

 Utanríkisráðherra er erlendis á sinni einkaþotu að kenna Ísraelum og Palestínumönnum að vera góðir við hvern annan um leið og hún sannfærir þjóðir heimsins um að torfkofabörnin sem fóru frá súrmeti og sviðahausum í Mcdonalds og Kentucy Fried á sekúndum séu réttu aðilarnir til að stilla til friðar í heiminum. Hún þvælist allavega ekki fyrir Sjálfstæðisflokknum meðan hún er í þessum óraunveruleikaleik.

 Forsætisráðherra er brosandi úti á túni. Já, já, það eru erfiðleikar en þjóðin hefur áður gengið í gegnum þá. Olíuverð, matarokrið, gengisfelling krónunnar, frysting fasteignamarkaðarins og gjaldþrot einstaklinga eru afgreidd með brosi og því að bráðum komi betri tíð með blóm í haga.

Dómsmálaráðherra heldur sínu striki og stofnar leyniheri, varalið og  aukaextralandhelgisgæslu út og suður ásamt því að gera björgunarsveitamenn að herliðum. Ísland SKAL hafa menn til að verja eða fela gjörðir föður hans og það sem hann sjálfur kann að gera í framtíðinni. Eða til að berja á náttúruverndarsinnum sem virðast vera Talibanar Íslands skv. skilgreiningum Sjálfsöluflokksins.

Menntamálaráðherra hefur hæst látið í sér heyra við að réttlæta greind fjármálaráðherra við bittlingaúthlutun.  Sem er synd. Virðist klár og jarðbundin en greinilega múlbundin af flokkssvipunni. Kemur örugglega með frumvarp um að bjóða menntunina út. Og nýstofnað fyrirtæki flokkssystkynanna hlýtur hnossið í boði fjármálaráðherra sem fékk sér Cherios aftur.

Félagsmálaráðherra er eins og vin í eyðimörk. Það er hægt að svala sér á því að hún sé að meina það sem hún segir. Og berst fyrir því. Sleikjuháttur samflokks hennar við völd og embætti gera hana þó að hjáróma rödd.

Já tilveran er dásamleg. Hjá einhverjum. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.