Kaghýddir rakkar á flótta eða íslenskir pólitíkusar?

Svandís Svavarsdóttir hefur fyrir hönd siðferðiskenndar þjóðarinnar beitt svipunni ótæpilega á borgarstjóra og meðreiðar....... nei afsakið borgarstjóra og 6,3% manninn Björn Inga þann valdamesta í borginni. Þeir náðu á örskömmum tíma (án meirihlutans greinilega) það sem engum öðrum spillingarverknaði íslenskra ráðamanna hefur tekist. Að fá íslensku þjóðina til gera meira en að hrista hausinn í hneykslan, ropa og reka við og láta þar við sitja.

Kárahnjúkavirkjun, Hellisheiðarvirkjun og væntanlega virkjanir í neðri Þjórsá eru samþykktar með hriplekum rökum og enginn nennir að velta því fyrir sér. Kosningarstjóri Framsóknar kaupir jörð af ríkinu á vinaverði og eignast vatnsréttindi sem Landsvirkjun greiðir honum svo fyrir. Annar kosningarstjóri þeirra er allt í einu orðinn besti maðurinn til að stýra útrás peningahyggju og hugvits Orkuveitunnar og í vasann detta sérsamningar um kaup hlutabréfa. Enginn er að hlusta.

6.3% maðurinn er með hátt í eina og hálfa milljón í laun fyrir að vera langflottasti maðurinn í borgarstjórn. Enginn haggast. Honum tókst að vísu að setja annan mann á lista Framsóknar í launuð störf beggja vegna borðsins hjá Reykjavíkurhöfn og einhver mótmælti þannig að það var fiffað til. 

Bjarni Ármannsson tók 500 milljónir úr rassvasanum, skellti á borðið og keypti hlut í væntingum sínum og annarra. Nokkrum dögum síðan átti hann milljarð í væntingunum. Bjarni er bankamaður þannig að hann veit hvað hann er að gera en við hin höfum ekki hugmynd um hvernig þetta virkar. Og Vilfreð virðist ekki gera sér grein fyrir því heldur. Á örfáum mánuðum hefur hann markaðssett sig sem leiðtogann í slökkviliðsgallanum sem ætlar að endurbyggja í sömu mynd húsin við Lækjargötu. Hann át þau orð hnípinn. Síðan hefur leiðin bara legið niður á við og satt best að segja hefur hann ekki yfir sér neina aðra mynd en að vera Villi Viðutan. Og það er ekki myndin sem borgarstjóri á að sýna kjósendum sínum.

En þessi uppákoma sýnir eitt mjög skýrt. Miðað við skýra hrattspilandi buisnessmenn nýju græðgisbyltingarinnar eru stjórnmálamenn okkar ekki einu sinni aflóga dráttarklárar. Eins og hýddir rakkar ýlfra þeir núna undan þeim gjörning sem þeir sjálfir settu af stað ekki vitandi hversu illa þeir yrðu teknir af hörku viðskiptalífsins.

Það er búið að gefa óveiddan fisk við strendur landsins um ókomna tíð. Bændur eiga ekki lengur stóran part jarða sinna vegna þjóðlendukrafna sem enda á efnahagsreikningum auðmanna. Erlend stórfyrirtæki menga í boði ríkisins. Rétturinn á kalda vatninu sem rennur hér er að verða markaðsvara.

Og loksins, loksins lætur þjóðin í sér heyra. En þó slegið sé á puttana verður lokaniðurstaðan sú sama. Tekur kannski lengri tíma en samt.....

Með pólitíkusa sem hugsa eins og skömmtunarmálaausur velunnara og kosningarstjóra eigum við ekki sjéns í  nítróinnspýtta græðgisvæðingu alþjóðavæðingarinnar.

Er ekki best að setja bara klakann í heild sinni á ebay?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég skal játa það fyrir þér og kannski einhverjum fleirum að á sínum tíma var Björn Bjarna ásamt Davíð Oddssyni mínar hetjur.  Björn kunni á tölvupóst og Davíð sagði bestu brandarana.  En síðan þá hefur allt kalda vatnið runnið til sjávar. 

Arftaki Davíðs virðist þurfa að borga allmarga greiða sem gerðu honum kleift að komast í stól borgarstjóra.   Hjálpsemi Villa á eftir að kosta okkur fleira en bara smá þras um kaupréttasamninga.  Villti Villi á mína samúð en hann virðist vera jafn lélegur borgarstjóri og golfari.  Nýbyrjaður í báðu.

Björn Heiðdal, 11.10.2007 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband