Fréttatilkynning


 


Fréttatilkynning
Eftirfarandi fréttatilkynning var send fjölmiðlum 7. september síðastliðinn.
Andstæðingum virkjana við Þjórsá var verulega brugðið við ummæli oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps og stuðningsmanna hans í sjónvarpi í vikunnni. Fjölmörgum sveitungum hnykkti við við að heyra því blákalt haldið fram að meirihluti heimamanna sé hlynntur Holta- og Hvammsvirkjun og að ekki séu neinar sérstakar náttúruperlur í sveitinni. Sól á Suðurlandi og unnendur Þjórsár hafa allt aðra sýn á stöðuna við Þjórsá í þessu mikla deilumáli. Skemmst er að minnast stórrar landgræðsluráðstefnu á Selfossi þar sem varað var við allri jarðvegseyðingu, eins og þeirri sem fylgir þessum virkjunum. Sól á Suðurlandi telur sig miklu fremur tala fyrir hönd meirihluta bæði heimamanna og ferðamanna þegar fullyrt er að umhverfi fyrirhugaðs Hagalóns sé náttúruperla. Landið sem tilheyrir jörðunum Fossnesi og Haga tengist beint helstu sérkennum sveitarinnar, sem sjá má á nýju merki sveitarfélagsins Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Fari þetta land forgörðum, auk annars stórtjóns á náttúru sveitarinnar bíður hreppurinn þess aldrei bætur. Landeigendur óttast um sinn hag því þeir gætu fyrr en varir verið í heljargreipum eignarnáms. Unnendur Þjórsár kannast ekki við "hinn þögla meirihluta" sem vísað er til að sé hlynntur þessum áformum og efast um að hann sé til.

Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar segir orðrétt í blaðinu Umhverfið, sem fylgir Sunnlenska fréttablaðinu...." að virða beri almenn sjónarmið. Deilurnar um virkjanir snúist um afstöðu og sýn þeirra sem búa með ánni og annarra sem ekki vilja virkjanir. Það er eðlilegt að áin og umhverfi hennar eigi ríkan þátt í hugum margra og að þeir séu á móti þeim breytingum sem frekari virkjun hefði í för með sér. Árniðurinn þagnar þar sem verða lón. Landshættir með bökkunum og útsýni yfir sveitirnar breytist. Það er alltaf eftirsjá eftir landi undir vatn. Það er eðlilegt að fólk óttist hið óþekkta og sé efins um að það sem kemur í staðinn bæti upp það sem hverfur. Það ber að virða sjónarmið af þessu tagi reynist þau almenn."
Þetta er gott að heyra frá upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar. Þessvegna er mikilvægt að það komi í ljós hver skoðun meirihluta hreppsbúa raunverulega er. Þar duga ekki orð örfárra manna sem vísa til þöguls meirihluta. Þar duga aðeins staðreyndir. Þær verða að koma fram.

Sól á Suðurlandi

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég leyfi mér að efast um að Þorsteinn Hilmarsson hefði sagt þetta nema að hafa áður haft veður af því að fleiri væru með en á móti. Það er nú svo að þegar fjármunir eru í húfi hefur það áhrif á afstöðu manna. Svo eru margir þeirrar sköðunar að hverjum manni sé skylt að taka afstöðu með sínum flokki. Það sparar mönnum að mynda sér skoðanir.

Árni Gunnarsson, 1.10.2007 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband