Meðvitundarlaus fjármálaráðherra?

Var með konunni í dag á fundi í Þingborg rétt utan við Selfoss. Umræðan snerist um virkjanir í neðri-Þjórsá og mættir fulltrúar allra flokkanna auk um 100 reiðra bænda og hnefafylli af okkur sumarhúsaeigendunum sem eiga hagsmuna að gæta. Fulltrúar Samfylkingar, Íslandshreyfingar og vinstri grænna komu vel út í þessum umræðum. Höfðu skýr svör, ákveðnar skoðanir og góðan rökstuðning með sínu máli. Ekki það fulltrúi frjálslyndra kom líka sjónarmiðum síns flokks á framfæri. Þau eru nokkurn veginn svona: Virkjum allt helvítis klabbið ef við högnumst á því. Mesta athygli mína vakti þó svör og ekki svör stjórnarflokkanna.
Fyrir Framsóknarflokkinn var fyrir svörum Bjarni Harðarson í 2. sæti Framsóknar á Suðurlandi. Hann fór á kostum og synd að hann skuli tilheyra þessarri spillingarklíku. Hann viðurkenndi að vera á móti þessum framkvæmdum þó Guðni Ágústsson styddi þær og sagði að "ef hægt væri að hætta við þær væri það besti kosturinn". En margtók fram að sennilega væri það orðið of seint sem ég á voðalega erfitt með að skilja. Stjarna kvöldsins var samt fjármálaráðherra Árni Mathiesen. Ég hef aldrei á ævinni heyrt eins lítið frá manni á að vita svo mikið um sinn málaflokk. ......Ja ég bara veit það ekki og þannig svör réðu öllum hans svörum á fundinum. Ef fjármálaráðherra, yfirmaður Landsvirkjunar veit ekkert um málefni lútandi að þessarri stofnun erum við þá ekki í frekar djúpum illalyktandi kúk?

Þetta er allt í réttum farvegi sögðu þessir háu herrar líka um samninga Landsvirkjunar við bændur en gátu engan veginn undanskilið það að gripið yrði til eignarupptöku í skjóli almannahagsmuna. Eins og Bjarni orðaði það með dulinni hótun: Hvað ef einhver einn þver stendur eftir? (Orðaði það ekki svona). Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að það gæti verið nauðsynlegt að grípa til þessa ráðs. Sem sagt þá má hirða af honum landið í skjóli almannahagsmuna. Sem eru ekki almannahagsmunir. Heldur hagsmunir auðhringa sem sennilega borga í sjóði Framsóknar. Ef þessi fullyrðing situr í einhverjum þá vildi ég gjarnan fá frá þeim sömu útskýringar á fyrir hvað Framsókn stendur til hagsbóta fyrir land og þjóð. Þetta hefur nefnilega vafist verulega fyrir mér.

Annars snerist þessi grein um fjármálaráðherra og hans framlag á þessum fundi. Árni gerði eiginlega hálfgert grín að bændunum og þegar kom að skýrum svörum "vissi hann bara ekki"eða "þekkti bara ekki". Það fengust aldrei skýr svör. Einkavæðingu Landsvirkjunar vissi hann ekkert um. Það hvort yrði virkjað í neðri Þjórsá snerist bara um að hafa kaupanda af raforku. Hafnfirðingar hefðu seinkað virkjun í Þjórsá. Það komu engin skýr svör frá honum og fulltrúi Framsóknar talaði í kross við forystu sína.

Spurningar og málaflutningur bændanna á svæðinu byggðist á áratuga reynslu þeirra á svæðinu. Ég er bara búinn að vera þarna frístundagemlingur í 12 ár og hef lært margt á þeim tíma. Þetta fólk les í ána, veðrið og gróðurinn. Það að horfa framhjá visku og vitund þessa fólks sem lifir og hrærist í byggðinni sem á að umbylta er í besta falli heimska. Smiður sem ég vinn hjá núna hefur oft sagt að það sé best að vinna fyrir arkitekta og byggingarverkfræðinga sem hafa lært smíði. Þeir vita muninn á því að teikna og framkvæma. Virkjanir í neðri Þjórsá eiga eftir að verða teiknaðar á ákveðinn hátt. Landsvirkjun á síðan eftir að eyða mörgum árum í að fela mistök sín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.