Draumurinn um Ísland

Kæru kjósendaflón,

 

af Kögunarhóli glæstrar fortíðar flokka okkar horfum við yfir þessa fallegu hjörð af sauðfé sem lýtur til okkar til forystu í nánustu framtíð.

 

Við ykkur viljum við segja að við skorumst ekki undan því erfiða verkefni að  endurreisa gamla klíkuveldið okkar eftir að rannsóknarskýrsla Alþingis „flæktist“ tímabundið fyrir okkur.

 

Við munum Vafningslaust lækka skatta á alla landsmenn aðra en aumingjana hans Þráins og mest á vini okkar sem borguðu kosningabaráttu okkar.

 

Við munum halda í heiðri hina fornu helmingaskiptareglu okkar þar sem annar hver embættismaður með eitthvað vægi er valinn af hinum flokknum.

 

Hækjuflokkurinn í sambandinu viðurkennir þörf hins fyrir að eiga fleiri dómara á efri stigi og nauðsyn þess að sem flestirættingjar, vinir og briddsfélagar yfirmanns morgunbaðsins séu þar á launaskrá.

 

Á móti kemur að hækjuflokkurinn má ráða fyrrum kosningastjóra í alls konar fallega orðuð einskisnýt embætti sem greiðslu fyrir fórnfýsi í starfi.

 

Þó þau embætti séu vita getu- og gagnslaus skuldbindur FLokkurinn sig til að tala fallega um þessa starfssemi og láta sem hún sé gagnleg.

 

Við heitum því að yfirbjóða hvern annan í kosningaloforðum eftir því hvernig vindar blása án samráðs um ásættanlegan fórnarkostnað en leysa það með kosningaloforðasvikum eftir kosningar.

 

Við erum sammála um að þegar öllu sé á botninn hvolft skipti traust efnahagsstjórn mestu máli.

 

Millistéttaraulinn sem tók mark á okkur, hélt að þjónustufulltrúinn sinn í bankanum væri edrú og verðbólgumarkmið Seðlabankans væru ekki byggð á Norður-Kóreskri hagfræði getur sjálfum sér um kennt.

 

Efnahagsstjórn okkar var örugg og traust skv. greiningardeildum bankanna.

 

Í góðmennsku okkar ætlum við að leyfa þessum aula að taka út allan sinn lífssparnað til að borga inn á stökkbreyttu húsnæðislánahýtina án þess að skattleggja hann sérstaklega.

 

Við heitum því líka að þegar við komumst aftur til okkar réttborinna valda verður allt gott aftur.

Fyrir okkur.

 

Við heitum því að virkja allar helvítis drullusprænur sem geta snúið hverfli og selja rafmagnið undir kostnaðarverði til margdæmdra umhverfissóða og koma þannig ferköntuðum hjólum atvinnulífsins aftur á hökt.

 

Við heitum því að stoppa geðveikina við að 25 misþóknanlegir einstaklingar krukki í þá stjórnarskrá sem hefur þjónað spillingu okkar og sérhagsmunum svona dyggilega í gegnum tíðina.

 

Við heitum því að óveiddi og ófæddi fiskurinn í sjónum geti áfram verið grundvöllurinn af því að útgerðarmaður geti keypt sér pizzastað, bílaumboð og þyrlu.

 

Við skiljum fullkomlega þann hluta endurreisnar Orkuveitu Reykjavíkur þar sem kær vinur okkar Finnur Ingólfsson var fenginn til að kaupa hitaveitumæla landsmanna á 260 milljónir og fái næstu áratugina 200 milljónir í leigutekjur frá landsmönnum á hverju ári.

Þetta er nauðsynlegur partur af fjárhagslegri endurreisn landsmanna. Þe. sumra.

 

Við höfum skilning á því að fé án hirðis sé hirðulaust. Þar af leiðandi fögnum við aðkomu Íslandsvinarins Finns Ingólfssonar og annarra mætra Framsóknarmanna að því að hirða þá tugi milljarða sem Samvinnutryggingar eða Gift ætlaði á ábyrgðarlausan hátt að endurgreiða fyrrverandi tryggingartökum sínum.

 

Við viljum að Þingvellir verði áfram sérstakt útivistar- og hvíldarsvæði fyrir fyrrum foringja og útrásarpakkið okkar og Þingvallarnefnd skipuð uppþornuðum og atvinnulausum flokkshækjum.

 

Við höldum fast í þá farsælu stefnu að vanhæfni sé dyggð og munum áfram ráða td. dýralækni sem fjármálaráðherra, fallna ráðherra sem Seðlabankastjóra, vini okkar sem ráðuneytisstjóra osvfrv.

 

Fólk með rétt tengsl á ekki að líða fyrir að fólk með rétta menntun sæki um frátekin störf.

 

Við heitum því að standa vörð um bankaleyndina, yfirstéttina, fákeppnina, efnahagsóstjórnina, getuleysið og spillinguna sem hefur sett okkur Íslendinga á þann stall að geta rekið okkar eigin mynt án trúverðugleika eða viðurkenningar í alþjóðaviðskiptum.

 

Kæru bjánar,

 

við deilum kjörum ykkar og líðan í daglegu lífi og erum best fallnir til að beina Íslandi aftur á réttu brautina.

 

Með okkur við stjórnvölinn verður allt gott aftur.

 

Með vinsemd og virðingu:

 

Silfurskeiðabandalagið.

 

(Þarna vaknaði ég og fattaði að þetta var bara slæm martröð).

 

469641_545440848807271_1285483669_o

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

En er þetta bara draumur?  er þetta ekki einmitt að ganga eftir?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.4.2013 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.