Færsluflokkur: Kjaramál

Fjármálafyrirtækin eru að klára drápin á þjóðinni og fyrirtækjunum

Þessi frétt kemur mér ekki á óvart enda veit ég fjölmörg dæmi svipuð þessu. Varðandi bankana var í september - október staðan þannig að ef þú varst kominn í vanskil vildu þeir ekkert gera fyrir þig. Fólk í skilum átti séns á frystingu og skuldbreytingum. Ekki við hin sem gátum ekki lengur borgað. Það sama á við um fyrirtækin í landinu. Ég veit um eitt velrekið fyrirtæki sem hefur alla burði til að lifa þetta af þrátt fyrir um 50% samdrátt í sölu. Fyrirtæki sem getur ekki lengur leyst út vörur vegna þess að bankarnir lána ekki. Þeir sitja á öllu sínu fé til að geta sýnt góða eiginfjárstöðu en um leið sinna ekki hlutverki sínu. Nema gegn margföldum veðum.

Þetta fyrirtæki á eftir 4-5 daga áður en því verður lokað. Ekki af því að það geti ekki lifað af heldur út af því að eðlileg lánastarfssemi og fyrirgreiðsla er ekki lengur til staðar í landinu. Hvað sem segja má um framsóknartillöguna um leiðréttingu lána þá hafa ríkisstjórnarflokkarnir hingað til bara boðið okkur upp á lengingu í hengingarólinni, auðmýkjandi greiðsluaðlögun og óhæft bankakerfi gagnvart fjölskyldum og fyrirtækjum landsins. Því verður að breyta strax nema Steingrímur frændi vilji halda um stjórnartauma meirihluta fyrirtækja landsins og reka leigumiðlun fyrir okkur allan almenning. 

Stjórnin hefur gert á pappírunum ýmislegt til að hjálpa en í praxís er það núll. Ég hefði haldið að fyrr frysi í helvíti en ég hrósaði Framsóknarmönnum og kannski er 20% leiðrétting þeirra yfir línuna röng aðferð en þeir hugsuðu ÚTFYRIR KASSANN! Það held ég að VG komi aldrei til með að geta og miðjumoðssamsullið sem ætlar að láta Evrópu bjarga landinu ókeypis eigi líka bágt með að gera. 

Það eru komnir 6 mánuðir af engu til að reisa við bankakerfið. 6 mánuðir án skýrrar stefnu nema leynistefna IMF sé það sem ríkisstjórnin styðst við. Ef svo er eru það landráð gagnvart þjóðinni að leyna hana skilmálum IMF. 

Við fólkið í landinu viljum vita hvort það sé einhver von. Von til að halda húsinu án þess að greiða af því til 130 ára aldurs. Von til þess að bankakerfið fari að virka. Von til þess að réttlæti milli lánenda og lántakenda verði við lýði. Ingólfur H. Ingólfsson félagsfræðingur benti á það í grein í Fréttablaðinu að það væru tveir gjaldmiðlar í gangi á Íslandi. Verðtryggða krónan og sú óverðtryggða. Sú sem við fáum útborgað í. Sú sem við semjum um launahækkanir í. Oftast upp á 2-4% á ári. Núna með 17% verðbólgu. Hann bendir á að á 30 ára tímabili hefur þessi króna fallið um 3250%!!!!!!!  Ég ætla að gera þessari grein hans betur skil seinna en meðan fjármálastofnanir eru að slátra fyrirtækjum og heimilum eins og það sé sláturtíð hjá þeim þá er eitthvað að ríkisstjórn sem lætur eins og allt sé að þokast í rétta átt. Svoleiðis stjórnvöld eru jafn ónýt og aðrar „Haardandi“ rikisstjórnir.

minning-1.jpg


mbl.is 40 vinnutækjum fátækari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað má bjóða þér langa hengingaról?

Vissulega hefur núverandi ríkisstjórn (loksins) komið frá sér lögum um aðgerðir til að takast á við vanda heimilanna. En eins og einn maður orðaði það er þetta plástur á svöðusár. Heimilunum blæðir áfram út en hægar. Svona svipað og John Perkins talaði um samskipti okkar við IMF. Ef við reynum að borga lengist dauðastríðið. Það sér það hver heilvita maður sem er ekki með hausinn í rassgatinu á sér að þegar leikreglunar eru þannig að þú semur um ákveðna fasta prósentulaunahækkun en lánin þín hækka eftir því hver er að spila með íslensku álkrónuna, hversu margir jeppar eru fluttir inn til landsins og hver hamingjuvísitalan í Örfirisey og álverð á heimsmarkaði er er vitlaust gefið.

proble1_826011.jpg

Og ekki bara vitlaust gefið heldur ósanngjarnt gefið. Af hverju höfum við sætt okkur við það að það sé eins og rússnesk rúlletta að fjárfesta í húsnæði hér á landi. Öryggi okkar í viðskiptum er jafn stabílt og íslensk veðrátta. Nú er ég ekki einn þeirra sem halda að með tilkomu evru lagist það enda man ég að það var talað um að sumar þjóðir hafi upplifað um 20% kjaraskerðingu við upptöku hennar. En krónan er dauð. Steindauð. Og það voru íslenskir braskarar með siðferðiskennd undir frostmarki sem drápu hana.

Í skýrslu IMF sem lak út til Financial Times mæltu þeir með  einhliða upptöku evru hjá sumum austur-evrópuþjóðunum. Stoltið af því að reka eigin mynt og hagkerfið er horfið hjá mér og í staðinn komin skömm þó ég haldi að ég hafi ekki verið neitt verulega sekur um hrunið.

Það er kominn tími á róttækar aðgerðir. Aðgerðir eins og leiðréttingu gengis og vísitölu. Aðgerðir þar sem er gefið jafnt. Ef lífeyrirssjóðirnir sem hafa tapað og tapað vegna lélegra fjárfestinga fara á hausinn við það á það að vera sakamál. Menn sem þiggja milljónir á mánuði fyrir að tapa fé eru  í besta falli vanhæfir, versta glæpamenn.

3_kronur.jpg

Það er engin sanngirni í því að venjulegt fólk beri byrðarnar af því sem stjórnvöld, útrásarhrægammar, lífeyrisjóðir og stjórnmálaflokkarnir hafa klúðrað. Ekki frekar en að taka á sig byrðarnar af dauðri krónu, verðtryggingu, spillingu, fölsku gengi og sýkingu síldarstofnsins.

Það þarf að gefa upp á nýtt og tryggja að allir fái jafn mörg spil á hendi. Þjóð sem eins og virðist vera raunin núna er svínbeygð undir afleiðingar glæps sem hún framdi ekki lætur ekki bjóða sér að setja byrðar glæpsins ofan á sínar eigin og töltir af stað. Ég er alla vega ekki einn þeirra. 

Og Jóhanna..... þessir tveir metrar sem þú bættir við hengingarólina mína. Það eina sem þeir gera fyrir mig er að ég get velt ranglætinu lengur fyrir mér.


mbl.is Byggja þarf velferðarbrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband