Færsluflokkur: Evrópumál
29.6.2009 | 15:49
Er ekki spurningin um að geta greitt.
Í fyrsta lagi og virðist skorta gríðarlega á skilning ráðamanna á því, höfum við landsmenn engar upplýsingar í höndunum né mat hlutlausra sérfræðinga á eignasafni Landsbankans, hvað fellur í hlut íslenska ríkisins og hvað fer til annarra sem eiga kröfur í þetta glæpamál. Þessi ríkisstjórn ætlar að þumbast með málið áfram án þess að gera það í sátt við þjóðina. Hvort að það sé nauðsynlegt eða ekki að láta kúga sig svona er eitt mál. Annað hvernig ríkisstjórn tekur á því og kynnir fyrir þjóðinni. Þar hefur hún fallið á prófinu á sama hátt og skjaldborgin sem hún lofaði heimilum og fyrirtækjum landsins virðist vera skjaldborg um bankana og lífeyrissjóðina.
Alþingi á að fella þennan samning og fara fram á annan eins og Jón Daníelsson hagfræðingur heldur fram. Vaxtalausan samning þar sem við tökum á okkur aukið hlutfall höfuðsstóls skuldarinnar. Og afborganir fari aldrei yfir 1% af landsframleiðslu. Ákvæðið um að ekki sé hægt að leita til dómsstóla geur ekki verið löglegt og er engri siðaðri þjóð sæmd í að setja slík skilyrði. Að skrifa undir slíkan samning jafnast á við landráð að mínu mati. Auðvitað eigum við að skrifa undir samning til að koma þessu frá en með þeim fyrirvörum að við ætlum að láta dómsstóla skera endanlega úr um málið.
Allt annað er gungu- og sleykjuskapur við þjóðir sem hafa árhundraða reynslu af því að kúga minni þjóðir. Hver væri landhelgi okkar í dag ef við hefðum tekið svona á því þegar bretar sendu herskip á fiskimiðin okkar? Hver vann þær orustur?
Getum staðið við Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.4.2009 | 22:20
Af hverju ætti ESB að vera lausn á vandamálum okkar?
Samfylkingin lætur eins og hún sé Framsóknarflokkurinn í þessum kosningum. Kemur með einn frasa, eitt mál sem töfralausn á vanda þjóðarinnar. Framsókn hafa galað Fíkniefnalaust Ísland árið 2000, milljarður í fíkniefnamálin, fólk í fyrirrúmi (sem þeir hafa notað nokkrum sinnum) osvfrv. Samfylkingin er að reyna að selja þjóðinni að innganga í ESB sé það eina sem við þurfum til að allt verði gott.
Það er heimskulegt eða í besta falli barnalegt að veifa ESB aðild að kjósendum sem einhverri lausn á vanda okkar. Í fyrsta lagi er ekkert sem bendir til þess að ESB ætli að taka á móti fleiri löndum á næstunni. Þvert á móti hafa þeir ákveðið að hægja á inngöngu áhugasamra. Í öðru lagi þurfa löndin sem sækja um aðild að sýna fram á efnahagsstöðugleika sem er ekki sjáanlegur hér á landi næstu 3-6 árin. Þetta eitt og sér gerir það að verkum að aðild að ESB er ekki inni í myndinni.
Stjórnmálaleiðtogarnir gerðu mismikið í buxurnar í kosningarsjónvarpi Ríkissjónvarpsins í kvöld. En eiga það sameiginlegt að ólyktin af moðreyk og frasatuggunum er enn í loftinu hér. Meira að segja Ástþór Magnússon skoraði meira en flokksuppalningarnir og atvinnupólitíkusarnir. Þe. fyrst um sinn.
Krafa Borgarahreyfingarinnar um að allt verði upplýst um skilyrði IMF og gegnsæi í bankahruninu er krafa þjóðarinnar.
Nú hef ég horft og hlustað á flest allar kosningasamkomur sem sjónvarpsstöðvarnar hafa boðið upp á. Þar situr tvennt í hásæti hjá mér: Gjörsamlega meiningarlaus frasaframleiðsla án innihalds hjá ÖLLUM fjórflokkaframbjóðendunum. EKKERT á bak við svörin annað en að það væri hægt að túlka þau bæði sem heitt og kalt. Frjálslyndir mega eiga það að vilja virkja allt og eyðileggja náttúruna og veiða alla fiskstofnana í topp. Ekkert hálfkák og skýr skilaboð. Sem ég er ósammála en veit hvar ég hef þá.
Vinstri grænir eru orðnir huggulega settlegir enda komnir í stjórn og svör þeirra eru jafn loðin og Sjálfstæðis- og Samfylkingarmanna. Framsókn býður svo nýja andlitsgrímu með nýju kosningaryfirboði. En sömu flokkseigendaspillingunni. A'la Alfreð Þorsteinson og Finnur Ingólfsson.
Að mínu mati liggur einhver möguleiki í því að vera á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Einhver fríverslunar- eða tengingarmöguleiki þar á milli. Ég hef ekkert fyrir mér í því enda hef ég ekki hugmynd um hvernig þetta virkar. En ef að Ísland gat verið ósökkvandi flugmóðurskip (sem mér finnst skelfileg hugmynd) fyrir Bandaríkin, hlýtur sú tenging að fela í sér samskonar tengingu áfram til Evrópu.
Ég hef áður lýst því hér yfir að Borgarahreyfingin fái mitt atkvæði í þessum kosningum. Það er ekki vegna þess að hreyfingin bjóði upp á töfralausnir við vanda heimilanna eða fyrirtækjanna. Það er vegna þess að þá er ég ekki að kjósa frasajaplandi róbota sem flokkseigendur þeirra ýta á on og off á.
Ekkert samkomulag um ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.4.2009 | 22:17
Geta stjórnmálamenn ekki gefið skýr svör?
Ég horfði á þennan fund eins og svo marga aðra á undan. Breytingin á formi þeirra er helst sú að flokkarnir eru farnir að smala klappstýrum sínum á þá. Hitt hefur ekkert breyst að sama hversu hart er að kveðið eru svörin svo loðin að helst væri tilfinningin sú að þeir sem fyrir svörunum standa séu að tyggja lopa um leið. ALLAR stjórnmálaFÍGÚRURNAR þar á meðal Björgvin G. sem ég hef haft mikið álit á töluðu í stjórnmálafrösunum sem við hin erum komin með upp í kok á. Atli Gíslason slapp kannski best af þeim sem tilheyra gömlu stjórnmálaflokkunum. Hins vegar kom mér á óvart frammistaða konunnar sem var fyrir Borgarahreyfinguna og enn meira mannsins sem kom fyrir hönd Jólasveinsins Ástþórs Magnússonar.
Svo velti ég mikið fyrir mér mærinni frá Sjálfstæðisflokknum. Var þetta Hanna Birna borgarstjóri Reykjavíkur? Nei bara samskonar kona steypt í sama mót með sömu frasana. Kona sem á auman málstað að verja og veit það. Framsóknarmaðurinn kom mér líka svolítið á óvart vegna þess að ég skynjaði skynsemi í kolli hans. Ekki bara í kolli mínum geymi ég gullið. Eins og Finnur Ingólfsson gerði frægt um árið. Kannski er Framsókn að færast frá spillingu í hyglingu.
Lopaloðsboðsskapur starfandi flokka þrátt fyrir grafalvarlega stöðu fjölda heimila og einstaklinga á enn að skapa þeim atkvæði. Það að gefa tvíræð og loðin svör eða benda á evrópumöppudýraveldið sem lausnir á vanda heimilanna á að fá þig til að greiða þeim atkvæði. Þrátt fyrir að þú hafir aldrei fengið já eða nei svör við einni einustu spurningu sem brennur á þér.
Ég er búinn að ákveða að hafna því að greiða þessum STOFNUNUM framar mitt atkvæði. Ég myndi greiða Þorgerði Katrínu, Jóhönnu, Atla Gíslasyni, Guðfríði Lilju og ýmsum fleiri atkvæði mitt ef persónukjör væri í boði. En þangað til ætla ég að kjósa venjulega Íslendinga sem eru einmitt að biðja um að það standi til boða. Ég kýs Borgarahreyfinguna.
Evrópustefnan verði á hreinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |