Áhrifamáttur auglýsinganna.....

 Ég hef starfað við auglýsingagerð í mörg ár. Það mörg að ég ákvað að gera eitt áhugamálið að aðalatvinnu og auglýsingagerðina að aukavinnu. Hef unnið fyrir 4 stjórnmálaflokka og lofað mér að koma aldrei framar að því helvíti. Kvennalistinn má þó eiga það að hafa borgað uppsett verð og á réttum tíma. Ég átti þátt í því að markaðssetja Jón Baldvin, Össur og Jóhönnu í merkilegum kosningasigri Alþýðuflokksins þar sem Jón Baldvin sýndi 360° snúning og bætti svo 180° við! Hann sagði á fundi þar sem hann réttlætti að fara ekki í stjórn með tæpan meirihluta með allaböllum að það væri ekki hægt að ætlast til þess að þeir hefðu hemil á sínum Hjörleifum. Seinna í sömu ræðu að það væri bara hlutverk Davíðs Oddssonar að hafa hemil á sínum framsóknarmönnum sem voru Halldór Blöndal og fleiri. Menn stóðu upp og klöppuðu fyrir ræðunni og foringjanum sem landaði Viðeyjarstjórninni vitandi það að hann hafði svínbeygt sína flokksmenn til hlýðni. Þetta er markaðssetning!

Það að Jóhannes hafi haft þau áhrif að Björn Bjarnason hafi verið strikaður svona út er bara feluleikur Björns gagnvart veruleikanum. Hann er hrokagikkur sem veður yfir lýðræðið og reglur um stjórnsýslu og ráðningar á sama hátt og Framsóknarmenn hafa stundað. Honum er ekki viðbjargandi og sjálfstæðismönnum er það ljóst. Þess vegna fékk hann þessa útreið. Ég efa það ekki að auglýsing Jóhannesar hafi haft áhrif en hún gerði ekki gæfumuninn. Hins vegar er þetta á gráu svæði þegar einstaklingar eru farnir að gera svona en munum td. auglýsingar Helga í Góu þar sem hann gagnrýnir lífeyrissjóðina. Og með réttu. 

Það er nokkuð súrt að hugsa til þess að hvorki Björn né siðspillingarsamheitið Árni johnsen sjái að það sé ástæða til naflaskoðunar.....

Af hverju mega ekki Framtíðarlandið, Jóhannes eða Helgi halda sínum skoðunum á lofti?

Ég hef ekki efni á 390 þúsund króna (+vsk) heilsíðum en ef ég hefði það myndi ég auglýsa hryðjuverk Landsvirkjunar og nauðsyn þess að stoppa þau.

En ég er blankur............. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þarfagreinir

Undarlegt hjá honum Birni að tala um 'mátt auðvaldsins'. Auðvitað eru nokkrir hundraðþúsundkallar fyrir eina heilsíðuauglýsingu engir smáaurar, en það eru heldur engar gríðarlegar fjárhæðir. Nokkrir tiltölulega fjáðir einstaklingar gætu hæglega tekið sig til og pantað eina heilsíðu saman. Svo ekki sé nú talað um fjöldan allan af vel fjáðum einstaklingum sem gætu borgað fyrir slíkt einir síns liðs - jafnvel þar er Jóhannes ekkert sér á parti. Það var þó aldeilis auðvaldið.

Einnig virðist Björn gera ráð fyrir að kjósendur séu heilalausar kindur sem fylgja hvaða 'höfðingja' sem skipar þeim fyrir. Vissulega er líklegt að auglýsingar Jóhannesar hafi hvatt marga til að strika Björn út, en hinu lítur dómsmálaráðherrann alveg framhjá, að það voru sannarlega 20% kjósenda sem strikuðu yfir nafn hans; það er óvefengjanleg staðreynd, hvað sem líður öllum vangaveltum um ástæður þess. Einnig horfir hann alveg framhjá því að Jóhannes lýsti yfir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn, og hefur hugsanlega aukið kjörfylgi hans í kjördæminu. Skiptir það sumsé engu máli?

Annars held ég að ég tali fyrir daufum eyrum, nema, þá að Björn sjálfur rekist á þessar línur mínar. Ég held að fáir aðrir en hann sjálfur taki mark á þessari yfirlýsingu hans. 

Þarfagreinir, 19.5.2007 kl. 00:51

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Jóhannes hvatti fólk til að kjósa Sjálfstæðismenn. Það hlýtur að hafa haft jafn mikil áhrif og útstrikunartillaga hans ekki satt?

Ævar Rafn Kjartansson, 19.5.2007 kl. 01:09

3 Smámynd: Þarfagreinir

Samkvæmt kenningu Björns um áhrifamátt auglýsinga auðmanna ætti svo að vera, jú ...

Þarfagreinir, 19.5.2007 kl. 01:11

4 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Tvær spurningar um áhrifamátt auglýsinga. 1. Ef hann er enginn hvers vegna þá þetta flóð af auglýsingum sem hellist yfir okkur daglega? 2. Jóhannes rekur fyrirtæki sem hefur hvað mesta velvild hérlendis. " enginn hefur aukið kaupmáttinn meira en hann" er það ekki sagt?  Hefur því auglýsingin ekki enn meira vægi en ella?

María Kristjánsdóttir, 19.5.2007 kl. 05:38

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Einn kómískur vínkill á þetta er, "Hversu margir kusu Sjálfstæðisflokkinn bara til þess að hafa tækifæri til þess að strika Björn Bjarnason út"?

Rúm 20% máske ?

S.

Steingrímur Helgason, 20.5.2007 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband