Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Hryðjuverk banka og ríkisstjórnar

Það er nú gott að heyra að einhver í stjórnarflokkunum sé farinn að skilja að fólk hafi ekki áhuga á að eyða peningunum sínum í hít sem stækkar kannski um tvær milljónir við hverja eina sem það borgar og eignamyndunin verður neikvæðari með hverri greiðslu.

Það þarf ekkert stærðfræðiséní til að skilja þetta þó þetta sé ofar skilningi félagsmálaráðherrafígúrunnar.

Staðreyndir málsins eru einfaldlega þær að launin þín eru í annarri mynt en þú greiðir svo af lánunum þínum með. Þau eru í verðtryggðri mynt en launin í óverðtryggðri. Þetta ógnaróréttlæti er búið að viðgangast hér um áratugi en í 20% verðbólgu með gríðarlegum hækkunum á nauðsynjum og aukinni skattheimtu kemur að því að fólk fái nóg.

Það er heimskulegt að halda tapaðri baráttu áfram. Greiðsluúrræðin sem Kaupþing eru td. að bjóða eru með því heimskulegasta sem hefur verið á borð borið fyrir almenning. En ekki fyrir bankann.

Kaupþing bíður þér greiðsluúrræði á þennan veg: Þú skuldar 27 milljónir í húsi sem kostar í dag 20 milljónir. Til að redda málunum skrifar þú upp á eitt 16 milljón króna bréf til 40 ára, annað 11 millur til 3ja ára og 6 milljón króna tryggingarbréf. Samtals 33 milljónir! Fyrir honum vakir bara eitt. Ef hann getur fengið þig til að þrjóskast við að borga þangað til að fasteignamarkaður og atvinnulíf hafa tekið við sér (þeir miða við 3 ár). Og þú færð að vita þá  hvort að bankinn hirði af þér húsið eða þú þurfir að leggja fram 11 milljónir! Snilld! Fyrir bankann.


Í boði IMF voru Tamílar upprættir....

En það kostaði stjórnvöld 2,6 milljarða dollara sem Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn hefur samþykkt að lána þeim. Ég veit ekki hvort vextirnir séu eins „góðir“ og hjá okkur en á pappírunum heitir þetta „Endurreisn“ landsins eftir átök. Sjá hér og hér. Þessi „Endurreisn“  fól ma. í sér að myrða þúsundir þegna landsins sem bjuggu á átakasvæðunum. En IMF er að „endurreisa“. Rétt eins og hér nema hingað til hafa fáir misst lífið. Bara atvinnuna, húsið sitt og ævisparnað.

Það ætti engum að leynast að starfssemi IMF byggir ekki á góðmennsku eða hjálparhugsjónum. ALLIR stórir bankar alveg eins og blóðsugubankarnir íslensku starfa ekki út frá því að lána og hirða af því vexti eins og flestir halda. Þeir starfa út frá því að BÚA TIL SKULDIR. Þessar skuldir eru ekki bara eign þeirra og ástæða til að geta lánað meira (og þannig búið til meiri skuldir og meiri hagnað) heldur um leið stjórntæki. Með láninu til stjórnvalda í Sri Lanka gerist það sama og hér. IMF hefur ítök og áhrif á allar ákvarðanatökur þeirra sem eru við völd. Áhrif á hvort einkavæða eigi samfélagsþjónustuna (HS veitur-orka).  Þessir bankar starfa útfrá því að gera þig sem einstakling eða þjóð að skuldaþræl og sig að áskrifanda tekna þinna. Hér eru útskýringar IMF gagnvart Íslandi.

Hér hefur ekkert breyst. Sömu félagarnir og unnu hlið við hlið í fjármálasukkinu skipa nú skilanefndir og ráðgjafastöður um leið og brennuvargarnir vinir þeirra og góðgerðamenn plotta um framhaldið. Enn eru afkvæmi stjórnmálamanna og vildarvinir flokksins ráðnir í óauglýstar, jafnvel óþarfar möppudýrastöður og látið er eins og allt gangi sinn vanagang meðan fólk er á vergangi og eignaupptakan framundan sé svo hrikaleg að eigi sér ekki hliðstæðu.

Finnist þér þetta óraunhæft bull  gefðu þér tíma til að skoða þetta.



height="344">
mbl.is Leiðtogi Tamíla handtekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjaldborgin um heimilin og greiðsluaðlögun Kaupþings.

Skjaldborg sú sem ríkisstjórnin boðaði um heimilin hefur verið reist. Hún er úr efnislitlum afgangsbútum  og fyrraársbirgðum sem fengust fyrir lítið í Rúmfatalagernum án þess að ég sé að gera lítið úr þeirri verslun. Greiðsluaðlögunarúrræðið sem felur í sér að þú vinnur áfram en lætur lögmann fá veskið þitt  var álitið henta um 100-200 manns. (Þe. sem eini kosturinn í stöðunni). Nú er allt útlit fyrir að þúsundir manna sæki um þetta ömurlega úrræði króað af út í horn af ástæðum sem allir þekkja. Félagsmálaráðherra sem ég held að eigi met í heimskulegu útfrussi þó af ýmsu sé að taka segir að afskriftir séu ekki valkostur. Maðurinn er svo gersamlega staddur í annarri vídd og veruleika en almenningur að það á að henda honum út í hafsauga. Hann fékk allavega ekki starfið út á hæfileika.

Kaupþing bíður þér svo greiðsluúrræði sem er eitthvað á þennan veg: Þú skuldar 27 milljónir í húsi sem kostar í dag 20 milljónir. Til að redda málunum skrifar þú upp á eitt 16 milljón króna bréf til 40 ára, annað 11 millur til 3ja ára og 6 milljón króna tryggingarbréf. Samtals 33 milljónir! Og færð að vita eftir 3 ár hvort að bankinn hirði af þér húsið eða þú þurfir að leggja fram 11 milljónir! Snilld! Fyrir bankann. 

Ég spái norskum og dönskum óeirðalögreglumönnum í aukavinnu hér í haust. Og sprunginni ríkisstjórn og kaos. Nema eitthvað áþreifanlegt fari að gerast.

Kannski ættum við öll að kæra bankanna bæði nýju og gömlu ma. vegna okurs og stöðutöku gagnvart íslensku krónunni. Ásamt svikum í lánasamningum sem við byggðum greiðslugetu okkar á. Sprengja réttarkerfið með lögsóknum. Það munar nefnilega engann um að skulda lögmanni milljón í viðbót við þær milljónir sem bankarnir hafa haft af þeim.


mbl.is Þúsundir vilja greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á einhver til afgangsmálningu?

Er einmana miðaldra karlmaður nýskilinn án atvinnu og húsnæðis. Bý í brúnum frakka. Stunda listgerninga í frístundum sem vegna atvinnuskorts eru þó nokkrar. Verk mín hafa verið til sýnis í helstu auðhverfum borgarinnar.

Vegna skorts á fjármunum til efniskaupa auglýsi ég hér með eftir allri afgangsmálningu sem hefur fallið til á þeim heimilum landsins sem eru á leið undir hamarinn. Sæki hana þér að kostnaðarlausu. Hef mestan áhuga á rauðri og grænni málningu en aðrir litir líka vel þegnir.

Ef bófinn í brúna frakkanum hefði efni á að auglýsa eftir efni gæti auglýsingin hljómað eitthvað á þennan veg. En hann getur það ekki og er með allt lögreglulið höfuðborgarsvæðisins á hælum sér en þeir gera ráð fyrir að góma þrjótinn fyrr en síðar. Tekinn hefur verið frá fangaklefi sem hýsti áður dópsala sem fær reynslulausn vegna fjölskyldutengsla.

Það skal tekið fram að skilanefnd Kaupþings heitir hverjum þeim sem getur veitt upplýsingar sem leiða til handtöku skúrksins 1 milljón króna verðlaun og yfirdráttaheimild að tvöfaldri þeirri upphæð án ábyrgðarmanna.  kids-gallon-paint.jpg


mbl.is Sást skvetta málningu á húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við að koma saman upp um þá?

Öll vitum við sem erum núna að fá reikninginn fyrir ótrúlegt sukk siðlausra manna að atferli þeirra gat ekk viðgengist nema með samleik jafnsiðlausra pólitíkusa og embættismanna. Embættismanna sem var plantað í áhrifaríkar stöður ekki útfrá kunnáttu og menntun heldur flokkshollystu og ættartengslum. Okkur er sagt að reikningurinn vegna aðgerða flokksgæðinganna sé okkar að greiða. Kurteisislega.

Okkur er vinsamlega bent á það að fáir fjármálaspekúlantar sem náðu að gera fjármálagjerninga sína á kostnað þjóðarinnar hafi skitið á sig. Og það sé okkar að skeina þá. Íslensk stjórnvöld virðast ætla að kyngja þessarri skilgreiningu burtséð frá ólyktinni en er ekki að skilja að almenningur er ekki til í að skrifa undir ólyktina. Þar kemur tvennt til. Annars vegar sanngirnissjónarmið og hins vegar þjóðarstolt gagnvart nauðarsamningum við þjóðir sem eru þekktar fyrir að þvinga aðrar þjóðir.

Vantraustið á embættis- og stjórnmálakerfi landsins er algert. Þannig hafa fáir trú á að rannsóknir sérstaks saksóknara og sannleikanefndar verði neitt annað en allra nauðsynlegasta yfirklór.  Það sagði mér manneskja sem þekkir til starfssemi utanríkisþjónustu Íslands að flestir þeir sem ráðnir væru í störf ma. við mannúðarmál væru dætur og synir embættis- og stjórnmálamanna sem yrðu þannig áskrifendur að launum án þess að gera handtak. Eins hefur verið gagnrýnt að stuttbuxnasjálfstæðismenn hafi sjálfkrafa getað gengið inn í Landsbankann í notarlegt starfsöryggi. Kannski sem partur af greiðslu fyrir bankann? 

Þetta sem ég skrifa hér að ofan eru ekkert annað en dylgjur. Eins og Er. En er ekki hægt að breyta því og komast að hinu sanna? Er ekki til fólk sem hefur aðstöðu, nokkurn afgangstíma og hæfileikana til að raða saman púslunum í púsluspilinu Spilling á Ísland? 

Nú þegar hafa Lára Hanna Einarsdóttir, Hvítbók, Tíðarandinn og Eyjan ásamt fleirum birt mikið magn upplýsinga sem hægt er að vinna upp úr. En það þarf að tengja það saman og raða upp.  Ég er ekki að mæla með neinum nornaveiðum einfaldlega leggja til að almenningur í landinu framkvæmi sína eigin rannsókn og birti það sem út úr henni kemur.  Þeir sem hafa eitthvað að leggja til bendi ég á netfangið hrun2008@gmail.com.


mbl.is Danir æfir yfir lekanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er dómur ekki samningur!

Núna þegar loksins kvissast út sannleikurinn um samskipti Breta, Hollendinga og Íslendinga er ljóst að hreðjartak þeirra fyrrnefndu á dýralækninum sem titlaði sig fjármálaráðherra var slíkt að hann syngur sópran það sem eftir lifir ævinnar. Kannski með vott af samviskubiti en ég efa það.

Við samningagerðinni tók uppgjafa stjórnmálamaður með nokkra embættismenn sér við hlið. Þrautþjálfað lögfræði - og sérfræðiteymi enskra kenndi þeim á undraverðum tíma auðmýkt og þakklæti fyrir að mega draga andann áfram ásamt íslenskri þjóð gegn greiðslu. Í leiðinni var þeim kennt allt þetta helsta: rúlla sér, sitja, standa, sækja og þegja.

Fjármálaráðherra er að vonum glaður að hafa endurheimt gæludýrin sín þó hann sé ósáttur við reikninginn vegna tamninganna. En hann segir að við verðum að borga.  Hann talar ekkert um það að þetta er EKKI samningur heldur samráð evrópuríkja um hvernig skuli tekið á Íslandi!

Samráð sem okkur er svo kynnt sem samningur. ICESAVEDÓMURINN fellur semsagt á íslenska alþýðu en ekki á íslenskan aðal sem stóð fyrir Icesaveósómanum.

Bandaríski fjársvikarinn Bernard Madoff situr nú í fangelsi með 150 ára dóm á bakinu. Íslensku fjárglæframennirnir sitja nú í sólbaðsstól á auðmannaströndu með svalandi kokteil í annarri hendi og farsíma í hinni. Stjórnandi fjölmiðlunum sínum, ímyndarfulltrúum og lögfræðingum sem vinna við að gera hlut þeirra og ábyrgð sem minnsta.

Man einhver eftir hrokafullum bankastjóra Landsbankans frussa út úr sér með fyrirlitningartón: „Eignir Landsbankans duga fyrir Icesave og mikið meira en það!“ Oft. Dag eftir dag. Hvar er hann núna? Hverjar eru eignir Landsbankans og HVER fær þær?


mbl.is Icesave samningi mótmælt á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brunaútsala auðlinda Íslands er hafin!

„Þessi fyrirhuguðu kaup GGE eru nefnilega fjármögnuð með erlendu fjármagni.“ Þetta byrjar sakleysislega. Hitaveitu Suðurnesja er skipt í tvö hlutafélög HS veitur og HS orku. Þú færð reikninga frá báðum fyrirtækjunum. Einn fyrir framleiðslu á heitu vatni og annan fyrir flutning á vatninu til þín. Samanlagt eru þessir reikningar hærri en þeir voru hjá Hitaveitu Suðurnesja en bara lítillega í byrjun svo enginn röfli. Næsta skref er svo einkavinavæðingin. Sem fer þannig fram að Geysir Green Energy fær að kaupa stóran hlut með svona fiffi eins og smá útborgun og svo skuldabréf tryggt með veði í sjálfu sér og eignarhlutur GGE í hinu hlutafélaginu HS veitum metið á 4 milljarða tekið upp í greiðsluna.  GGE er svo með erlendan fjárfesta sem er tilbúinn til að borga þeim margfalt til baka fyrir að koma þeim að mjólkurkúnni. Allir græða og allir eru happy. Nema neytendur sem koma til með að borga þessi kaup með hækkandi reikningum.

Þetta er sem sagt byrjað. Það sem menn vöruðu við að myndi gerast með aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að bankahruninu. Auðlindir landsins lenda í höndunum á erlendum auðhringum og þegar sú yfirtaka verður orðin fullkomnuð byrjar okkur að blæða fyrir alvöru. Hvet alla til að gefa sér tíma í myndböndin hér fyrir neðan.


mbl.is Fréttaskýring: Einkavæðing HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða pukur er á Þistilfjarðarbóndanum?

„Það eru aðrir nærtækari hlutir sem eru okkur hættulegri," sagði Steingrímur. Og ekki útskýrt nánar. Er þetta gagnsæið sem lofað var.? Hvað á maðurinn við? Landið logar í vantrausti og tortryggni gagnvart öllu og öllum og hálfkveðnar vísum og upphitaðir stjórnmálavellingar eru það eina sem er í boði. Veit Steingrímur og ríkisstjórnin ekki að þjóðin er núna eins og Geysir. Sein til og hæg. Óörugg með framtíðina. En ef þessari grænsápu verður ausið áfram upp í vit hennar gýs hún eins og Geysir. Með þunga. Misskilningur stjórnmálamanna um stöðu sína liggur nefnilega í því að af því að þeir voru kosnir en ekki hinir sé fólk ánægt með þá. Það er ekki þannig. Kjósendur eru bara ÓÁNÆGÐARI með hina. Og það getur breyst í hendingskasti.

Það er búið að vera vitlaust gefið frá því að verðtryggingin var tekin upp. Fyrir hennar tíð var vitlaust gefið í hina áttina. En þú bætir ekki ranglæti með öðru ranglæti.

Ef þessi ríkisstjórn ætlar okkur að borga fyrir glæpi örfárra, bjóða upp á okkur 20% verðbólgu (ma. vegna eigin hækkana á lífsnauðsynjum), minnkandi óverðtryggðar tekjur, atvinnuleysi, okurvexti og  lækkað verð á eignunum okkar ásamt ósveigjanlegum og kommúnískum úrræðum gagnvart þeim sem eiga í greiðsluvanda liggur beinast fyrir að spyrja: Hvað fáum við í staðinn? Hvað á að fá venjulega Íslendinga til að gefast ekki upp, flýja af landi brott ef þeir geta eða hætta að reyna að borga skuldirnar?

Hingað til hefur þessi ríkisstjórn ekki boðið upp á neitt annað en aukna myllusteina um hálsinn. Sólstafir í skýjunum væru einir og sér uppörvun. Það er enginn að biðja um sólbaðsveður. Bara að hann hangi þurr.

En pukur og samskiptaleysi ríkisstjórnarinnar við þjóðina er óþolandi. Sérstaklega í ljósi digurbarklegra ummæla um gegnsæi. Allt upp á borðinu osvfrv. 


mbl.is Icesave-skuldbindingarnar ekki hættulegastar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki spurningin um að geta greitt.

Í fyrsta lagi og virðist skorta gríðarlega á skilning ráðamanna á því, höfum við landsmenn engar upplýsingar í höndunum né mat hlutlausra sérfræðinga á eignasafni Landsbankans, hvað fellur í hlut íslenska ríkisins og hvað fer til annarra sem eiga kröfur í þetta glæpamál. Þessi ríkisstjórn ætlar að þumbast með málið áfram án þess að gera það í sátt við þjóðina. Hvort að það sé nauðsynlegt eða ekki að láta kúga sig svona er eitt mál. Annað hvernig ríkisstjórn tekur á því og kynnir fyrir þjóðinni. Þar hefur hún fallið á prófinu á sama hátt og skjaldborgin sem hún lofaði heimilum og fyrirtækjum landsins virðist vera skjaldborg um bankana og lífeyrissjóðina.

Alþingi á að fella þennan samning og fara fram á annan eins og Jón Daníelsson hagfræðingur heldur fram. Vaxtalausan samning þar sem við tökum á okkur aukið hlutfall höfuðsstóls skuldarinnar. Og afborganir fari aldrei yfir 1% af landsframleiðslu. Ákvæðið um að ekki sé hægt að leita til dómsstóla geur ekki verið löglegt og er engri siðaðri þjóð sæmd í að setja slík skilyrði. Að skrifa undir slíkan samning jafnast á við landráð að mínu mati. Auðvitað eigum við að skrifa undir samning til að koma þessu frá en með þeim fyrirvörum að við ætlum að láta dómsstóla skera endanlega úr um málið. 

Allt annað er gungu- og sleykjuskapur  við þjóðir sem hafa árhundraða reynslu af því að kúga minni þjóðir. Hver væri landhelgi okkar í dag ef við hefðum tekið svona á því þegar bretar sendu herskip á fiskimiðin okkar?  Hver vann þær orustur?


mbl.is Getum staðið við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar lagaleg rök?????

Skv. því sem kemur þarna fram hjá Sigurði þá voru það einhverjar yfirlýsingar íslenskra ráðamanna sem orsökuðu þá helkrumlu sem evrópuþjóðirnar með Englendinga og Hollendinga í fararbroddi hafa á íslenskri þjóð og framtíð. Þá kemur aftur að því. Hvað var það og hverjir voru það sem það sögðu? Ekki einu sinni þetta er komið upp á yfirborðið.Hann segir einnig að það vanti lagaleg rök fyrir því að dómsstólaleiðin sé ófær. Þarna talar einn fremsti lagaprófessor okkar.

Við erum eins og sigruð þjóð sem hefur tapað stríði. Og þarf að greiða stríðsskaðabætur. Forystumenn nasista voru hengdir. Hvað erum við að gera gagnvart forystu útrásarinnar? Það eru nokkrir fótgönguliðar þeirra atvinnulausir í dag. Annað hefur ekki gerst.


mbl.is Sigruð þjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband