12.11.2008 | 21:32
Mamma, við skulum bara skila kjúklingnum!
Ég veit ekki hvort hún var einstæð móðirin fyrir framan mig á kassanum í Nóatúni. Ca. 8 ára stelpa og 5-6 ára strákur voru með henni. Þetta var ekki mikið sem hún var að kaupa en þar á meðal var steiktur kjúklingur. Þegar kortinu hennar var rennt í gegn kom synjun. Ekki næg innistæða. Hún átti ekki 4.400.- krónur og ekki kominn miður mánuður. Hún horfði á krakkana og sagði að þau þyrftu að skila einhverju. Mamma, við skulum bara skila kjúklingnum! sagði strákurinn ákveðinn. Reikningurinn 1.290.- lægri og debetkortið samþykkt. Ég horfði á eftir þeim á leið út úr búðinni, konan hokin og þreytuleg, krakkarnir þöglir og alvarlegir í framan.
Ég var að upplifa eina mynd kreppunnar sem er skollin á okkur. Kreppu sem er ekki af okkar völdum. Pétur Blöndal myndi segja við þessa konu að hún væri óráðssíukelling að vera að kaupa kjúkling fyrir krakkana og ekki við neinn annan en hana að sakast að eiga ekki fyrir kjúklingnum.
Þetta eru skilaboðin sem stjórnmálamenn eru að reyna að koma inn hjá okkur núna. Við skulum ekki leita að sökudólgum núna heldur einbeita okkur að því erfiða starfi sem er framundan! Þetta er einn frasinn. Þeir eru margir sem heyrast meðan reynt er að moka yfir mestu spillinguna og tengslin milli stjórnmálamannanna og þeirra sem settu þjóðina á hausinn.
Á meðan er markvisst verið að reyna að koma því inn í kollinn á þessari konu, mér og þér að þær byrðar sem framundan eru, séu óumflýjanlegar.
Svo fáum við smjörklípur: Það á að spara 2,3 milljarða í utanríkisráðuneytinu! Það verður velt við hverjum steini í ÓHÁÐRI RANNSÓKN í boði Björns Bjarnasonar! (Aðstoð) Alþjóða auðhringsins er handan hornsins. Blablabla.
Æra þjóðarinnar er glötuð sem og lánstraust, traust og efnahagur. Lífsskilyrði okkar færð áratugi til baka. Menn með 15-20 föld laun konunnar við kassann segja að við þurfum öll að taka á okkur byrðar. Menn með tæpar tvær milljónir í mánaðarlaun auk allra annarra sporsla ásamt IMF ætla að skipuleggja og stjórna því hvernig konan við kassann tekst á við kreppuna.
Hvað gerði hún af sér til að eiga þetta skilið? Fyrir utan að ætla að bruðla með kjúkling handa krökkunum. Kjúkling sem er búinn að hækka um tugi prósenta sl. mánuði.
Jú, stjórnmálamenn og auðjöfrar eru sammála um að íslenska þjóðin hafi verið á neyslufylleríi! Bíddu, sendiráðsbyggingin í Tókíó kostaði milljarð, einkaþotan hans Björgúlfs minnst 2 og rekstur á 40 starfsmönnum tugi milljóna á dag hjá FL-Group! Var þjóðin á fylleríi? Haldið þið að þessi kona hafi verið í verðbréfabraski?
Til að fullkomna lénsveldið Ísland sem hefur verið í þróun sl. áratugi hafa lénsherrarnir sett sína menn í allar áhrifastöður bróðurlega skipt eftir stjórnarflokkum þannig að allt embættiskerfið er gegnumsýrt af frændsemi, flokksgæðingum og vinagreiðum. Lénsherrarnir vilja að við trúum því að innan þessa kerfis séu góðir og gildir HLUTLAUSIR menn sem komi til með að skoða og greina hvað fór úrskeiðis. Fella dóm sinn og þá getur yfirlénsherrann ávarpað lýðinn og sagt honum sannleikann. Sem verður sennilega á þá vegu að íslenska þjóðin hafi spennt bogann of hátt og farið óvarlega. Mistök hafi verið gerð sem þurfi að læra af til að þetta endurtaki sig ekki. Blablabla.
Þegar það gerist verður konan við kassann fyrir löngu búin að missa lífslöngunina, íbúðina (ef hún á hana til) börnin hennar búin að fara á mis við tómstundir og eðlilega skólamenntun.
Íslendingar hafa um tvær leiðir að velja núna. Leið lénsherrana eða leið fólksins í landinu.Ég sætti mig ekki við leið lénsherranna.
100 þúsund kröfur vegna Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:26 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er hrikaleg lesning og kreppan bara rétt að byrja!
Kjartan Pétur Sigurðsson, 12.11.2008 kl. 21:45
Ömurlegt!! Sniff sniff....... Og já ballið er bara rétt að byrja! Sjáum hvernig við verðum eftir jól!! Skelfilegt að hugsa til þess......
Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 21:47
Slíkar sögur ættu að vera á forsíðum blaða og í fréttatímum sjónvarpa, því þetta er hin blákalda staðreynd sem blasir við íslendingum. Ekkert slíkt getum samt sem áður átt von á, nei ó nei. Ragnheiður, trúir þú ennþá á jólin? Ekki ég. Ekki svo lengi Alþingi situr. Ekki svo lengi FME finnst. Ekki svo lengi sama hyski situr í Seðlabankanum. Á laugardaginn skeður eitthvað við Austurvöll. Ég ætla ekki að missa af því. Takk fyrir þetta Ævar.
Hreggviður Davíðsson, 12.11.2008 kl. 21:55
Þakka þér Ævar, lénsskipulag er alveg hárrétt greining á því sem koma skal, og vonandi að við getum risið úr dvalanum og komið í veg fyrir þetta í tíma. Ég vil ekki sjá fólkið í vanda með lífsnauðsynjar eða húsnæði, ég vil ekki sjá meira af þessu hér http://gretaulfs.blog.is/blog/saumakona/entry/706285/#comments
Gullvagninn (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 21:58
Miðað við ráðaleysið sem svífur yfir vötnunum hjá ráðherra- og þingmannakórnum mætti halda að það væri eitthvað sett í vatnið sem þeir drekka í Steininum við Austurvöll. Hinsvegar held ég að sorgarsvipurinn og ráðaleysið sé allt saman partur af leikriti sem þetta lið kann orðið alltof vel og gengur útá að missa ekki völd. Útkoman úr hremmingunum skal aldrei vera á kostnað ylvolgs bakhluta ráðamanna og fyrr skal allt til helvítis en að flórinn sé mokaður. Það var merkileg grein í Mogganum í morgun frá konu sem hefur búið erlendis um nokkurn tíma. Greinin fjallaði um afsagnir og hvernig þær eru skilgreindar með mismunandi hætti. Allstaðar í kringum okkur taka menn pokann sinn ef einhver minnsti grunur er um mistök eða misferli eða bara að það gæti hugsanlega komið upp einhverskonar trúnaðarbrestur eða tortryggni í garð þeirra sem treyst er til að stjórna. En ekki á Íslandinu góða. Nema hann Bjarni H sem ég held reyndar að hafi bara verið orðinn hundleiður á að rápa í reiðuleysi um þingsali. Meira að segja er þetta lið svo hortugt að það eyðir dýrmætum fréttatíma í að skammast útí forystumann í stærstu verkalýsðsamtökum landsins fyrir það að hafa þá skoðun að ráðherrar ættu að taka pokann sinn. Nei enginn víkur. Það sem hinsvegar er komið á fullt er vinna við endurreisn toppanna. Aðeins breyttar forsendur en byrjað að raða í plássinn, styrkja völdin, passa að ekkert fari úrskeiðis í deila og drottna deildinni. Á meðan fara einstaklingarnir sem eiga ekki fyrir kjúkling á hausinn.
Pálmi Gunnarsson, 12.11.2008 kl. 23:25
Skilgreiningin "að fara á hausinn" er orðin gildisþrotin. Nú er svo komið að við Kalkofnsveginn er hópur vel launaðra ríkisstarfsmanna að moka sauðsvörtum almúganum ofan í kvörn sem malar daga og nætur og skilar daglega stórum hópi fjölskyldna sem tæknilega gjaldþrota eru að stritast við að greiða bönkunum okurleigu á íbúðum sem ekki hefur þótt praktiskt að skiptu um eigendur vegna innheimtu á fasteignagjöldum og öðrum ámóta gjaldskyldum fyrirbærum.
Stjórnvöld eru veruleikafirrt og helsjúk af sjálfsblindu í sögulegu neyðarástandi eigin þjóðar. Dómsmálaráðherrann gengur í átt að vinnustað sínum, Alþingishúsinu við Austurvöll og sér húsið umkringt þöglum mótmælendum. Hann spyr agndofa:"Um hvað snýst málið?"
Til hvaða ráða grípur þessi þjóð þegar kurteisleg krafa þjóðarinar um þjóðstjórn skilar sér ekki inn í innsiglað heilabú stjórnvalda á neyðartímum?
Það er mikil alvara á bak við þessa spurningu mína gott fólk!
Árni Gunnarsson, 13.11.2008 kl. 00:33
Sæll Ævar, þetta er mikil grein hjá þér eins og alltaf, og það sem meira er að ég mikið sammála þér og mér finnst þú setja þetta vel upp, og ég get vel trúað þessu öllu saman því ég hef haft það á tilfinningunni að auðvaldið stjórni landinu þó að sumir stjórnmálamenn séu ekki sammála mér. Kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 13.11.2008 kl. 00:43
Takk fyrir að deila þessu Ævar.
Því miður er ég hrædd um að þjóðin eigi eftir að upplifa meira af þessu á næstunni.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.11.2008 kl. 12:28
Hrikaleg saga, en því miður sá veruleiki sem stöndum frammi fyrir í dag.
Persónulega finnst mér allt þetta tímabil minna frekar mikið á Sturlungaöldina, nema hvað nú berjast 'stórgoðarnir' um yfirráð á viðskiptamörkuðunum. Við kotbændurnir, leiguliðarnir, niðursetningarnir, og svo framvegis þurfum að sætta okkur við valdleysi okkar gagnvart þessum valdaættum - sem svo að endingu draga okkur öll með sér niður í svartan hylinn.
Hversu margir útrásarvíkinganna svokölluðu ætli eigi erfitt með að finna fram nokkra þúsundkalla fyrir brýnustu nauðsynjum? Líklegast enginn. Þeir virðast einhvern veginn alltaf halda sjó, á meðan við hin drukknum í svörtum sæ skulda og fátæktar.
Haukurinn, 13.11.2008 kl. 13:17
Góð grein! Förum leið fólksins og veljum okkur nýja forystu:
www.kjosa.is
Héðinn Björnsson, 13.11.2008 kl. 14:33
Þetta og margt annað er átakanlegt en umhverfið sem þú teiknaðir upp þarna undirstrikar kannski hvað þarf að gerast. Þessi kona ákvað að kaupa tilbúinn kjúkling og með því í Nóatúni, dýrustu búð á höfuðborgarsvæðinu. Ekki vil ég gera lítið úr manneskjunni sjálfri enda hræðilegt ástand en lausnin sem Íslendingar hafa hreinlega ekki nennt að sjá er aðhald, aðhald sem fæst með því að spara og leggja fyrir. Það er vissulega ekki hægt í dag, en það var hægt síðustu 4 árin a.m.k. Hún hefði líklega getað farið í Bónus og keypt svipaða körfu fyrir 2.200 en ekki 4.400 og þannig líklega átt eitthvað eftir til að nota síðar. Mórallinn með umræðunni er að koma því á framfæri að sorglega hafi Íslendingar þurft svona hressilega kreppu til að breyta lífsmynstrinu sem enduspeglast ekki bara í glæsibifreiðum og flatskjám (eins og einhver sagði), heldur í óhóflegri eyðslu á glæsivarningi og dýrkeyptri munaðarvöru. Ég þekki jú fólk sem framfleytir sér enn á lágmarkslaunum þótt skammarlegt sé að segja frá hver eru (launin).
Frosti Heimisson, 13.11.2008 kl. 14:44
Misskiljið mig samt ekki... ástandið er bæði sorglegt og skammarlegt í senn!
Héðinn: Ég segi það sama við þig og ég hef sagt við aðra sem benda á kjosa.is. Eina leiðin til að fá marktækar niðurstöður úr svona er að leyfa fólki að kjósa, kjósa um annaðhvort kosningar eða ekki. Öðruvísi veistu aldrei hve margir í raun vilja kosningar.
Frosti Heimisson, 13.11.2008 kl. 14:47
Mjög góð grein. Hroki og yfirlæti ráðherranna er algjört sem dómsmálaráðherra toppaði með glotti sínu í fréttunum í gær.
Sumarliði Einar Daðason, 13.11.2008 kl. 14:47
Frosti: Ég staldraði við það sama og þú þegar ég las, en ekki lengi. Það sem upp úr stendur er ályktun litla drengsins sem greinilega hefur verið búinn að gera sér ljóst að fjárhagur móðurinnar var ekki alltaf reiðubúinn til átaka við þarfirnar. Og hann vissi að við því varð ekki brugðist með neinum lausnum öðrum en þeirri að neita sér um eitthvað á óskalistanum og forgangsraða.
Út af fyrir sig er það ekki slæmur lærdómur. En þetta bendir fingri á hitt sem er það hversu hörmulega var vitlaust gefið á spilaborði þjóðar sem vakti heimsathygli fyrir bruðl og utanáliggjandi auðmannarembing "hinnar venjulegu fjölskyldu."
Árni Gunnarsson, 13.11.2008 kl. 15:05
Frosti: Það er alveg út í hött að gefa það í skyn að það fólk sem nú á í erfiðleikum með matarinnkaup eigi það vegna skorts á ráðsæld í góðærinu. Við vorum bara bara þónokkur sem lifðum spart í góðærinu og horfum samt upp á lán okkar blása út vegna skulda auðmanna sem hefur verið fleytt yfir á okkur gegnum verðbólgu og verðtryggingu. Við þurfum nú að sýna því fólki sem verst hefur orðið fyrir barðinu á þessu glæpagengi samstöðu og ekki bara benda því á að það ætti að borða meira pasta og minna grænmet og kjöt. Hvað kjosa.is varðar að þá eru undirskriftasafnanir ekki skoðanakannanir og ekki hugsaðar sem slíkar. Þær eru leið til að mótmæla undir nafni. Þegar maður skrifar undir segist maður vera tilbúinn ásamt öðrum að standa við þessa kröfugerð. Þess vegna var t.d. 'varið land' svo öflugt á sínum tíma þó að ekki hefði meirihluti þjóðarinnar skrifað undir það og setti í raun Keflavíkurgöngurnar skák og mát.
Héðinn Björnsson, 13.11.2008 kl. 15:34
Árni: Rétt er það, ég á sjálfur börn og þakka guði mínum fyrir að við erum tvö sem um búið sjáum. Ég hugsa með hryllingi til þeirra einstæðu foreldra sem þurfa að reka heimili, og ekki síst um þá sem missa vinnuna. Mismununin er svo enn annað sem ég er ekki tilbúinn að verja, enda er líklega víða met slegið hvað það snertir hér á Fróni.
Héðinn: Ég ætla alls ekki að mótmæla þér en vil að það sé alveg ljóst að við höfum haft aðstöðu til að safna og lifa sparsamar þótt það eigi ekki við um alla þjóðfélagshópa. Neyslumynstrið sem hér um ræðir er eitthvað sem hjálpar a.m.k. ekki og um það snýst málið.
Enn og aftur hvað varðar kjosa.is. Vandinn er formið. Ég get hæglega farið inn og skráð alla familíuna og reyndar alla sem ég vil ef mér sýnist. Þú gætir t.d. ekki gengið úr skugga um hvort þegar sé búið að skrá þig og þína kennitölu þarna inn. En framtakið er gott þrátt fyrir að ég telji kosningar aðeins skapa 5 vikna aukatöf sem getur af sér sama ríkistjórnarpakkann, bara með öfugum hlutföllum.
Frosti Heimisson, 13.11.2008 kl. 15:48
Ég þekki þessa sögu á eiginn skinni.
Ég og mín fjölskylda erum búin að þurfa að þola svona niðurlægingu í rúm tvö ár líkt og móðirin með börnin í Nóatúni.
Íslenzk stjórnvöld hafa með öllum ráðum reynt að tortýma mér vegna gagnrýni á kvótakerfið í mörg ár.
Íslenzk stjórnvöld með Fiskistofu að vopni hafa hneppt okkur í fátækt og þrældóm kvótaleigu og tíðra veiðileyfissviftinga sem oft hafa varað mánuðum saman.
Níels A. Ársælsson., 13.11.2008 kl. 16:24
ástandið í hnotskurn og bara byrjunin ..
mér frýs hugur við því að mæðrastyrksnefnd eigi ekki eftir að hafa undan við að aðstoða fjölskyldur þeirra sem missa vinnuna fyrir jól.. nú er rætt um aðstöðu sveitarfélaga á alþingi og það er það næsta.. þau fara á hausinn.. Ólína það verður verra.. og firra alþingismanna er algjör ., það er verið að setja lög um niðurfellingu stimpilgjalda á skilmálabreytingu húsnæðislána tímabundið til 1.janúar !! Halda menn að allt verði komið í lag þá.. hvað með endurskoðunarákvæði húsnæðislánanna sem kikka inn 2009 hvað með það að lítið fé er eftir í atvinnutryggingasjóði..
Hinrik Þór Svavarsson, 13.11.2008 kl. 16:43
Vel skrifað hjá þér og vekur mann til umhugsunar.
Hallgrímur Óskarsson (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 17:45
Dæmið er miklu einfaldara en fólk gerir sér grein fyrir. Ríkisvaldið ætlar að koma íslensku þjóðinni á kné. Setja fyrirtæki og fólk á hausinn! Þessi atburðarrás er ekki bara einhver tilviljunarkennd heimska sem ráðamenn elta svefnlausir og í vondu skapi.
Með því að skrúfa fyrir innflutning margra smáfyrirtækja rétt fyrir Jól er verið að búa til atvinnuleysi og gjaldþrot. Þegar lítil sölu- og þjónustufyrirtæki fá ekki lengur nauðsynlegar vörur er starfseminni sjálfhætt eftir 2-3 mánuði. Þetta er staðreynd sem lítið hefur borið á í fréttum.
Björn Heiðdal, 13.11.2008 kl. 20:10
Frosti, kannski á þessi kona ekki bíl og kemst ekki í Bónus. Ég trúi ekki að fólk skuli gangrýna hvar hún verslar.
Við erum tvö á heimilinu og það er ekki eðlilegt að matarinnkaupin eru komin upp í 12 þús á viku í Bónus. Samt sleppi ég kjöti eða fisk 3 í viku. Það kostaði 5 þús. krónur að versla út vikuna í apríl? Það getur engin eðlileg fjölskylda búið hérna lengur. Ég spái því að margir fari úr landi eftir áramót.
Ballið er ekki einu sinni byrjað. Það eru mörg fyrirtæki sem fara á hausinn eftir áramót
Stríða, 13.11.2008 kl. 21:52
góður pistill
Hólmdís Hjartardóttir, 13.11.2008 kl. 22:58
Sæl Stríða.
Ég reyndi að koma því á framfæri að ég er ekki að fetta fingur út í þessa konu sérstaklega. Neyslumynstrið er vandinn sem áður segir. Möguleikinn sem þú veltir upp er mér alveg í huga og því alls ekki ætlað að setja út á persónuna heldur heildina. Sem fyrr er ástandið alvarlegt í mínum huga og ástæða til að taka á málum - fyrir alla Íslendinga. Biðst velvirðingar séu ummæli mín misskilin.
Frosti Heimisson, 14.11.2008 kl. 00:10
Eyrún, þegar þetta gerðist átti ég akkúrat 5.000 krónur á mínu korti. Ég er orðinn atvinnulaus í fyrsta sinn í 32 ár. (Fyrir utan eitt og eitt smáverk). Konan mín hefur líka fengið uppsagnarbréf. Við getum ekki lengur borgað af lánunum okkar. Ég fattaði það ekki fyrr en konan var farin að ég hefði getað borgað fuglinn. Ég er enn að hugsa um að ég hefði átt að leysa þetta.
Ég er sammála þér með að samhjálp Íslendinga sé ábótavant. Eða hafi verið. Ég held að það komi til með að breytast.
Ævar Rafn Kjartansson, 14.11.2008 kl. 11:41
Sæll, þetta er sorglegt. virkilega sorglegt. og eins og einhver bendir hér á því miður það sem koma skal.
kv.Kristín
Kristín Bjarnadóttir, 14.11.2008 kl. 22:20
Já þetta er sorglegt, eg hefði boðið konunni að borga fyrir vörurnar sem hún var með, hef einu sinni gert það að vísu hafði sú kona gleymt veskinu heima. En mér finnst að allir eigi að hjálpa öllum ef þeir geta eins og ástandið er núna.
Gísli Már Marinósson, 14.11.2008 kl. 22:35
Þetta er rosalega vel skrifað hjá þér. Vekur mann til umhugsunar og yddar staðfestuna. Vona að það dugi til!
En ég spyr mig samt hvort það er virkilega vilji stjórnvalda að gera stéttaskiptinguna í íslensku samfélagi enn sýnilegri!? Hún er til staðar þó margir hafi viljað og komist upp með að líta fram hjá henni. Íslenskur almenningur verður að leggajst á eitt til að losna við þetta spillingarlið sem er algjörlega dottið úr sambandi við líf venjulgs fólks!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.11.2008 kl. 05:07
Heill og sæll; Ævar Rafn, og aðrir skrifarar og lesendur !
Þetta er djöfullegt ástand; hreint út sagt. Eftir; að hafa lesið þessa raunalegu færzlu þína, efast ég ekki um hlýtt hjartaþel þitt, sem manngæzku, en,...... enginn getur reiknað með, að þú hafir verið svo skjóthuga til, sem þú hefðir vljað, undir öðrum skaplegri kringumstæðum, hvar þið hjón standið jú; svo illa að vígi sjálf, sem fjöldi annarra, hér á Fróni, Ævar minn.
Það þarf; að koma þessum himpigimpum frá völdum, hvað sem það kostar !!!
Með kærum kveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 20:59
Mikið rosalega er þetta flott skrifað hjá þér, þetta er bara að verða Ísland í hnotskurn, og það er bara skelfilegt. Við almúginn erum svo varnarlaus eitthvað að maður veit ekki einu sinni hvað maður á að gera
Guðborg Eyjólfsdóttir, 19.11.2008 kl. 08:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.