Lækurinn Þjórsá - Um kunnáttu þrastarins í japanskri Kamakazi hernaðarflugtækni

throsturinnGrein eftir Ævar Rafn Kjartansson og Helgu Guðmundsdóttur:
Það er þröstur að kvaka úti. Grobbinn og stoltur af því að makinn hefur lagt 4 falleg egg í hreiðrið sem hann byggði. Fjarri heyrist í Maríuerlu. Kvenfuglinn er í ætisleit en það er rigning þannig að karlfuglinn heldur sig undir stóru asparlaufi, þurrum og í öryggi trjánna. Trjánna sem við gróðursettum fyrir áratug. Þegar við byrjuðum að gróðursetja aspir, birki, reynitré, mispil, greni og fleira  var þetta svæði þúfnabrekka engum nýt með litlu lífi. Konan byrjaði en eftir að við fórum bæði að taka þátt í að gróðursetja varð þetta partur af lífsstíl. Hvernig heilsast Olgu? Olga er bústin og plássfrek fjallafura sem annað okkar plantaði niður.

Þrastarparið verpti inn í geymslu. Á meðan þau voru að koma upp ungum höfðum við ekki aðgang að geymslunni. Þrastarpabbi vildi það ekki.
Af hverju vitum við það? Jú hann horfði á okkur þegar við nálguðumst geymsluna með svona Clint Eastwoodsvip og helköld augun hvikuðu ekki af okkur. Svona Go ahead, make my day gæi. Af því að við höfum séð Dirty Harry komum við  nær og hann breiddi út bringuna. Afar ógnandi enda jókst ummál bringunar um eina 4-5 mm. Þegar þetta dugði ekki til að við létum okkur segjast risu fjaðrirnar á höfði hans í ógnvekjandi kamb, eina 2-3 mm. upp í loftið. Núna fórum við að hugsa okkar gang en nálguðumst samt varfærnislega. Það var þá sem við kynntumst að eigin raun kunnáttu þrastarins í japanskri Kamakazi hernaðarflugtækni. Hann steypti sér. Flaug upp nokkra sentimetra frá okkur. Steypti sér aftur. Og aftur. Hann ætlaði sér að vernda ungana sína.
Við gátum ekki notað geymsluna í einn og hálfan mánuð. Stórkostlegt 3skipt hreiðrið hans er enn til hjá okkur og fjölskyldan vitjar okkar á hverju ári eins og maríuerlan.

Þegar við göngum eftir túninu niður að árbakkanum rísa upp hneykslaðir spóar, Tjaldurinn heldur kóramót á bakkanum og hrossagaukar, lóur, steindeplar, þúfutittlingur og sólskríkja krydda lífið þarna frekar. Hrafninn krunkar frá Núpnum og Smyrlarnir  sveima eftir bráð.

Í byrjun ágúst má sjá gæsapör í hundraðatali fleyta sér niður Þjórsá með 1-7 unga í halarófu á eftir sér. Við höfum séð afföllin þegar ungarnir verða viðskila við foreldrana og brölta einmana upp á bakkann. Stundum eru þeir í hundraðatali þar með þá einu vörn gegn rándýrum að áin sé þarna. Við höfum meira að segja upplifað það að taka að okkur unga og koma honum í fóstur til geðþekks gæsapars sem við kynntumst í mýrinni við hús Norðurlandsráðs í Reykjavík. Unginn okkar var að vísu kominn á táningsaldur og helmingi stærri en hin afkvæmin en féll strax inn í hópinn.
Þegar af virkjun verður verður ágústmánuður gæsaungahlaðborð fyrir mink og ref sem er farinn að fjölga sér þarna. Áin eða þau 4% hennar sem eftir verða kemur til með að renna í nokkrum rásum niður farveginn með engri fyrirstöðu fyrir rándýr til „að taka slátur" og safna í sarpinn.

Þjórsá  á það til að láta ófriðlega. Hávaðasöm ryðst hún niður farveg sinn tillitslaus gagnvart okkur sem viljum bara hafa nið hennar sem þægilegt undirspil við sveitasælu sumarhúsaeigandans. Sumt eldra fólk í sveitinni segist geta sagt til um væntanlegt veðurfar eftir nið hennar.

Foreldrar annars okkar sem voru fyrstu landnemar sumarhúsaeigenda á þessum friðsæla stað kölluðu það gullnu ströndina þegar þau upplifðu sólarupprás þar sem sólin að morgni speglaði ána og bakka hennar. Saman horfðu þau á þetta í andakt. Það tók okkur hin einhver ár að skilja en í dag er gullna ströndin okkar allra. Hún verður það ekki áfram með endurskini úr vesælum taumum sem 4% árinnar sem eftir verða ásamt sandfokinu  veita okkur.

Við tölum um sveitina okkar þó lögheimilið sé annars staðar. Þar sem áður var voldug á og vatnsmikil, hrífandi útsýni og grösugt láglendi horfum við á frumskóg háspennumastra Landsvirkjunar, þurran jarðveg í uppblæstri, gæsavarp verða varg að bráð, eyju sem hefur verið minnisvarði um hvernig Ísland var við landnám verða að sköllóttum hólma, Urriðafoss og fleiri fossa  verða að minningu hjá þeim sem séð hafa, Jarðskjálftavarnarflautur æpa 2x á ári, fornminjar lenda undir lóni, tún bænda hverfa og á sumum stöðum raskast allur rekstur þeirra, skipulagðar frístundabyggðir rýrna að verðlagi og á sumum stöðum verður ekki hægt að byggja.

Þegar sandfokið gnauðar á gluggunum hjá okkur og Þjórsá er orðin að aumkunarverðri skrípamynd af sjálfri sér vildum við gjarnan getað huggað okkur við það að raforkuverð til almennings hafi jú lækkað. Og að það að þ_rösturinn og maríuerlan séu horfin og gæsavarpið orðið svipur hjá sjón séu „ásættanlegur fórnarkostnaður".

Landsvirkjun er nefnilega eins og stjórnmálamennirnir sem eyða löngum tíma í að svara ekki spurningum. „Ásættanlegur fórnarkostnaður" og „mótvægisaðgerðir" eru svona orð eins og þegar ekki of vitrir stjórnmálamenn okkar segja: „leita skal allra leiða" eða „það er eindreginn ásetningur að ná fram ásættanlegri niðurstöðu í þessu máli". Allur orðhengilsháttur breytir ekki staðreyndum. Staðreyndum eins og við höfum talið upp. Eða þeim að í eitt þessarra lóna sem fyrirhuguð eru berist 100.000 tonn! af aur á hverju ári. Eða þeirri staðreynd að það er veruleg hætta á því að laxaveiði í Þjórsá sem er 5% af veiði á Íslandi sé í hættu. Að þessi sérstaki laxastofn er í hættu. Landsvirkjun afgreiðir allar mótbárur með því „að gripið verði til mótvægisaðgerða". Þetta er svona eins og þegar núverandi Iðnaðarmálaráðherra sem enginn á Íslandi kaus yfir sig segir: „Stóriðjustefnan er dauð"! ÞE. þegar við erum búin að gefa stóriðjum loftslagskvóta okkar og bjóða þeim betra skattaumhverfi en íslenskum fyrirtækjum bjóðast.

Ástæðan fyrir þessum skrifum er sú að þó að við höfum ekki getað notað geymsluna okkar í einn og hálfan mánuð þá lærðum við heilmikið af þrestinum. Við getum þanið út bringuna um einhverja millimetra en það virkar ekki. Við getum reynt að stæla herra Eastwood en það yrði bara klaufalegt. Við getum sett upp kamb með aðstoð hárlakks. En pönkið er búið. Við getum ekki flogið þannig að Kamakaziaðgerðir eru ekki inni í myndinni. Við viljum vernda unga framtíðarinnar eins og þrösturinn.
Þess vegna skrifum við um væntanleg hryðjuverk gagnvart lengstu á landsins sem er meira að segja talið að hafi verið siglt upp í landnáminu.
Við getum beðið fólk um að vera meðvitaðri um náttúruna og þær hörmungar sem Landsvirkjun er að ráðast í. Raforka, hreint vatn, hrein náttúra og hreint loft verða dýrmætari og dýrmætari með hverjum deginum, ekki árinu. Það er allt í lagi að bíða og hugsa málið.
Landsvirkjun er ekkert skrímsli. Þeir hafa staðið sig vel með virkjanir ofar í Þjórsá en þetta er í byggð. Það gilda önnur lögmál. Eigum við ekki alveg eins að hefja malarnám í Heklu?

Stoppum auðmýkingu Þjórsár.


Ævar Rafn Kjartansson
Helga Guðmundsdóttir

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband