Lækjarsprænan Þjórsá og vald Landsvirkjunar

ÁFORM Landsvirkjunar (LV) um virkjanir í neðri Þjórsá hafa farið leynt meðan styrrinn stóð um Kárahnjúkavirkjun. Meðan athyglin beindist þangað faldi LV allt efni um áform sín í Þjórsá undir liðnum "Umhverfismál". Ekki var stafur undir fréttatengdu efni eða framkvæmdum.

Í fréttabréfi LV um Hvammsvirkjun (áður Núpsvirkjun) er ljósmynd af áhrifasvæði virkjunarinnar. Sennilega vegna féskorts hafa þeir valið að nota yfir 30 ára gamla loftmynd af svæðinu vegna þess að enginn þeirra sumarbústaða sem eru þar sjást á myndinni. Er þó sá elsti frá árinu 1971-3. Til að kóróna falsanir sínar setja þeir svartan borða með texta yfir bæinn Minni-Núp og útkoman er sú að þarna sé eingöngu um nokkur ræktuð tún að ræða.

Þess utan teiknar LV Þjórsá eftir virkjun miðað við 50-100 ml3 rennsli þrátt fyrir að rennslið fari niður í 4% af fyrra rennsli eða 10 ml3.

Áhrif þessarra virkjanna gætir víða og hafa verulega slæmar afleiðingar.

Fjölmargir ábúendur og sumarhúsaeigendur verða fyrir mismiklum búsifjum, sumir verulega.

Það er samt ásýnd árinnar og afleiðingar breytinganna sem vega þyngst.

Ef við skoðum það helsta lítur þetta svona út:

Gróðri vaxin frá fjalli til fjöru.

Eyjan Minni-Núpshólmi eða Viðey er þekkt í Gnúpverjahrepp sem fallegur minnisvarði um hvernig landið okkar leit út þegar fyrstu landnámsmennirnir settust hér að. Kjarri vaxin frá toppi til táar enda verndar straumþungi Þjórsár eyjuna fyrir átroðningi. Þegar lækurinn Þjórsá hjalar þar framhjá er ekki langt í að sauðfé endurtaki þann sama leik og allt landið varð fyrir á sínum tíma. LV ætlar að girða af farveginn. Það kemur til með að tefja örlög eyjunnar ekki hindra þau.

Í umsögn Landgræðsla ríkisins til Skipulagsstofnunar við mat á umhverfisáhrifum virkjunar Þjórsár við Núp er lagst gegn þeirri tilhögun að virkja Þjórsá í tveimur þrepum vegna verulegra umhverfisáhrifa þeirrar tilhögunar.

Í ljósi eindregins ásetnings framkvæmdaaðila (LV) í þá veru að græða ekki upp land í stað þess lands sem forgörðum fer við framkvæmdina og með tilliti til ofangreindrar meginreglu þess efnis að leitast skuli við að græða upp land sem raskað er, eða í stað þess sem raskað er sé hið fyrra ekki mögulegt við mannvirkjagerð, hefði Skipulagsstofnun borið að geta sérstaklega um þetta atriði í úrskurðarorði sínu og/eða skilyrðum. Fallast verður því á það sjónarmið kæranda að ekki hafi verið með viðunandi hætti fjallað um mótvægisaðgerðir í úrskurðarorði og/eða skilyrðum.

(Mál 03090121 - Úrskurður skipulagsstofnunar 27. apríl 2004.

 

Lífríki, vatnafar

Í Þjórsá er 5% af árlegri laxveiði Íslendinga. Um 2000 laxar hafa veiðst þar á ári sl. ár.

Laxastofn Þjórsár er sérstæður því fátítt er á heimsvísu að laxar hrygni og alist upp í jökulvatni. Gerð lóns hefur væntanlega þau áhrif að botndýrum fækki og tegundasamsetning þeirra breytist og rýrir því svæðið til uppeldis. Hrygningarstaðir hverfa í farveginum. Neikvæð áhrif eru mest fyrir lax. ((VMST_S/02001) Umhverfisstofnun segir að óvissan sem ríkir um breytingar á straumum, áhrif á laxfiska og skilvirkni mótvægisaðgerða séu talsverð! LV ætlar að koma með mótvægisaðgerðir. Hverjar sem þær verða er ljóst að þessum merkilega laxastofn er stefnt í voða.

Verði af þessum virkjunum tapa 900 fuglapör varplandi sínu.

 

Villibráðarhlaðborð Þjórsár

Í þeim skýrslum og könnunum sem hafa verið gerðar um áhrif virkjunarinnar hefur verið horft framhjá ótrúlegustu hlutum eða þeim stungið undir stól. Vissulega var fugl á svæðinu talinn og reynt að búa til einhvern sannfærandi grunn um áhrif virkjunarinnar. En það var horft framhjá einu stóru atriði. Kannski viljandi? Í byrjun ágúst má sjá gæsapör fleyta sér niður Þjórsá í hundraðatali með 2-4ja daga gamla unga sína örugga fyrir ref og mink. Við virkjun árinnar með allt niður í 4% af henni eftir í farveg sínum þar sem gæsapörin fara frá öflugri á/lóni í læk breytist þetta í hlaðborð fyrir ref og mink með slátrun sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á framtíð gæsavarps á svæðinu. Jafnvel útdauða. Þetta er ekki nefnt einu orði í skýrslu um áhrif virkjunarinnar. Raunar stundar LV það í lokaskýrslum sínum að fjalla um niðurstöður vísindamanna á léttúðugan hátt þar sem viðvörunarorðum er sleppt.

 

Náttúruvá

Hvammsvirkjun verður byggð á virku jarðskjálftasvæði. Nokkrum sinnum á öld verða skjálftar upp á 6-7 á richter oft margir á ári með hreyfingum um allt að 2 metra á jarðskorpu. Skipulagsstofnun telur að mönnum og skepnum geti stafað töluverð hætta vegna stíflubrots af völdum jarðskjálfta. Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftafræði gagnrýna litla umfjöllun á þessu atriði.

1-2 x á ári Gæti LV þurft að hleypa skyndilega auknu vatni í þurran farveginn. Þetta skapar hættu fyrir lífríkið, menn og dýr. Þessu ætlar LV að mæta með viðvörunarflautum og fallhlerum á virkjunum!

 

Ferðaþjónusta

Fyrirtækið Artic Rafting hefur í nokkur ár markaðssett spennandi ferðir niður Þjórsá. Í fyrstu skýrslum LV var aldrei minnst á þetta fyrirtæki. Þeir hafa nú flúið yfir í aðrar ár sem LV er ekki enn búin að ásælast.

Meðfram Þjórsá er ein besta reiðleið landsins sem spillist og verður ekki svipur hjá sjón.

 

Brúin og blekkingin

Í umfjöllun sinni um áhrif á ferðamennsku segir LV margoft í skýrslum sínum að ný brú yfir Þjórsá við virkjun verði til bóta fyrir allar samgöngur auki ferðamennsku osvfrv. Gott og vel og örugglega satt hjá þeim. Það er bara ekki þeirra heldur vegagerðarinnar að taka ákvörðun um svona hluti. Áróðursmáladeild þeirra má þó eiga það að þrátt fyrir að flagga þessu sem gulrót á sveitina tóku þeir fram á einu stað í skýrslu sinni að þetta væri ekki á þeirra könnu.

 

Sumarhúsaeigendur

Við Minni-Núp verður sandfok úr farveginum alvarlegt vandamál. Sumarhúsaeigendur þar mega búast við óbærilegu raski yfir framkvæmdatímann og eftir það sandfoki og uppblæstri ásamt gæsahlaðborði í boði Landsvirkjunnar.

Eignarland sumarhúsaeigenda Lónsholti verður í uppnámi verði af virkjuninni. Afleiðing virkjunarinnar verði sú að lóðir 1 - 5 fari með öllu undir vatn, lóðir 6 - 7 eyðileggist sem byggingarlönd og lóðir 15 - 21 skerðist um 20 - 35 %. Sameiginlegt land 1,5 hektari fari undir vatn og tapist. Lóðir 8 - 14 standi hærra en verði fyrir beinu tjóni hvað sameiginlegt land varðar. (Mál 03080089) Umhverfisráðuneytið.

Byggilegum lóðum fækkar um allt að 50%. Kostnaður eigenda eykst vegna þessa. Þessar kvartanir lítur LV svona á : Fagurfræði er afstæð ! Eigendur þessarra sumarhúsa eiga að éta það sem úti frýs og sætta sig við gjörninginn.

Mikill grjótmulningur mun koma frá fyrirhugðum göngum við Núp. Svæði þau sem fara undir hauga,sem og svæði í næsta nágrenni við þá taka verulegum breytingum.

Talsvert ónæði meðan flutningabílar flytja efni milli gangamunnanna og haugstæðanna.

Mörg sumarhús við árbakka Þjórsár rýrna í verðgildi vegna virkjunarinnar.

 

Ríkið í ríkinu

LV er í eigu íslendinga. Stjórnendur þess telja sennilega samt eins og svo margar ríkisstofnanir að Íslendingar séu til fyrir sig, ekki öfugt. Þetta fyrirtæki heldur úti öflugri áróðurdeild sem vílar ekki fyrir sér að setja ofan í við heilu ráðuneytin ef því er að skipta (Landbún. 1647). Má þá getum leiða að því að til lítils sé fyrir einstakling að mótmæla.

Við fyrri virkjanaframkvæmdir í Þjórsá þurfti LV ekki að lúta eins ströngum kröfum og nú. Það voru aðrir tímar, önnur hugsun. LV má eiga það að hafa gert margt vel, jafnvel stórvel í þeim framkvæmdum án þess að þurfa þess. En málið snýst ekki um það. Virkjanir, lón og stíflur eru staðbundin. Stundum lýti og stundum ekki.

LV stendur fyrir landnauðgun sem á engan sinn líka þar sem háspennumöstur þeirra liggja eins og köngulóarvefur yfir landið og skyggja á sýn okkar á fallegt landslag Íslands. Það sem tapast við þessar virkjanir er að þeirra mati ásættanlegt. Að mínu mati hryðjuverk.

 

Mótvægisaðgerðir Landsvirkjunar

Það kemur oft fyrir í skýrslum LV að grípa þurfi til mótvægisaðgerða. Sem hljómar nokkuð flott. Svona eins og "við reddum þessu"! En staðreyndin er sú ef betur er lesið að mótvægisaðgerðir þýða stundum bara "úps"! LV hefur ekki sýnt á neinn hátt fram á trúverðuga leið til að koma í veg fyrir sandfok úr þurrum árvegi Þjórsár. Enda er sennilega eina leiðin að steypa yfir hann. En þeir hafa þetta flotta orð "mótvægisaðgerðir" til að kasta ryki í augu fólks.

Er Landsvirkjun rekin fyrir almenning eða erlend auðfyrirtæki?

Með stóriðju eru Íslendingar að synda á móti straumnum. Vestræn fyrirtæki forðast þennan iðnað. LV fær að leika lausum hala í stjórnsýslunni með engar kröfur um að sýna arðsemi. Arðsemi LV 1998-2003 var 2,9%. Sem er minni en verðbólgan á þeim tíma. Væri þetta fyrirtæki í einkageira væri búið að reka alla helstu stjórnendur.

66% rafmagns fer til stóriðju. 38% tekna LV kemur frá sömu aðilum. Almennir notendur niðurgreiða semsagt stóriðjuna. Búrfellsvirkjun átti að stuðla að lægra raforkuverði til almennings eftir afskriftir. Það hefur ekki gengið eftir. Hefur það ekki bara frekar hækkað með blekkingum fyrrverandi iðnaðarráðherra við stofnun Landsnets, nýrrar ríkisblóðsugu sem hefur orsakað allt að 60% hækkun raforkuverðs til sumra landshluta.

 

Verði af þessum þremur virkjunum...

Þá verður lengsta á landsins aumkunarverð lækjarspræna.

Við ógnum lífríki hennar.

Lax er í sérstakri áhættu.

Gæsavarp misferst.

Sandfok sem ekki verður hægt að koma í veg fyrir er staðreynd.

Minni-Núpshólmi verður ekki lengur minning um Ísland landsnámsins.

Ein besta reiðleið landsins spillist.

Urriðafoss vatnsmesti foss landsins, hverfur. Það mun hafa verulega skaðleg áhrif á ferðaþjónustu.

4% árinnar verður eftir á köflum á allavega 24 km. kafla.

Stíflur byggðar á virku jarðskjálftasvæði.

Landsvirkjun ætlar að flauta á okkur ef hætta er á ferð.

Fornminjar hverfa undir lón.

Bændur og sumarhúsaeigendur á svæðinu verða fyrir miklu fjárhagslegu og jafnvel tilfinningalegu tjóni.

Sumarhús við árbakka Þjórsár rýrna í verðgildi vegna virkjunarinnar

Frumkvöðlastarf Artic Rafting var drepið af LV.

LV segir að virkjanir í neðri Þjórsá stuðli að lægra raforkuverðI til almennings. Samt eru þeir að

selja þessa raforku til Alcan í Hafnarfirði. Það er sama blekkingin og þeir notuðu með Búrfellsvirkjun.

Háspennufrumskógur LV þéttist.

Álið verður jafn einhæfur útflutningur hjá okkur og þorskurinn var.

Álver sem njóta sérstakra skattalegra meðhöndlunar skekkja samkeppnishæfni íslenskra útrásarfyrirtækja. Jafnvel hrekja þau úr landi.

Mengunarkvótar Íslendinga skv. Kyoto sáttmálanum eru gefnir erlendum auðhringjum.

Þessi sömu fyrirtæki þurfa ekki að greiða sömu skatta og íslensk fyrirtæki. Álverin fá afslátt á fasteignagjöldum, aðstöðugjöldum og öðru því sem íslensk fyrirtæki búa við.

Þetta er ásættanlegur fórnarkostur hjá LV.

Það að við Hafnfirðingar skulu vera í þeirri stöðu að geta ákveðið örlög Þjórsár lengstu ár landsins með atkvæðagreiðslu er allt annar handleggur í þessari sögu.

Í 17. grein um landgræðslu segir: Land skal nýta svo að eigi valdi rýrnun eða eyðingu landkosta. Af hverju er LV undanþegin þessum lögum?

Helstu heimildir:

Úrskurðir umhverfisráðuneytsins mál nr. 03090121 27. apríl 2004, mál nr. 03080089 29.4.2004 og mál nr. 05110127 31. mars 2006.

Rnnsóknir á lífríki Þjórsár og þveráa hennar vegna virkjana neðan Búrfells. Selfossi, september 2002.

Ásgeir Jónsson lektor við Háskóla Íslands. Virkjun lands og þjóðar glærukynning.

Núpsvirkjun, áhrif á ferðaþjónustu, útivist og samfélag. Unnið fyrir Landsvirkjun. Nóvember 2002.

Virkjun Þjórsár við Núp og breyting á Búrfellslínu 1. landsvirkjun skýrsla. Ofl.

 

Höfundur er grafískur hönnuður.

 


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Stefánsson

Það er ekki rétt að áform Landsvirkjunar um virkjanir í neðri Þjórsá hafi fari leynt meðan styrinn um Kárahjúkavirkjun hefur staðið yfir. Algjört bull hjá þér.

Þessar virkjanir hafa verið kynntar (og ekki bara nýverið) og  LV hefur staðið vel að þessum málum. Það er ekkert leynimakk í gangi þar á bæ.

Stefán Stefánsson, 31.3.2007 kl. 01:28

2 Smámynd: Gammurinn

Ég veit ekki hvað Landsvirkjun ætti að gera við 50-100 ml3 (RÚMMILLÍMETRA) rennsli... ég helti einu sinni úr vantsflösku á svona leikfangamylluspaða og þeir snérust smá...

Gammurinn, 1.8.2007 kl. 22:55

3 Smámynd: Benjamín Plaggenborg

Stefán, Landsvirkjun hefur engan veginn kynnt málin nógu vel. Bóndi í sveitinni vissi ekki af neinu fyrr en bor var kominn á hans jörð, vegna rannsóknarborana fyrir brú sem átti að byggja á hans landi. Ef það er það sem þú kallar að standa vel að málum þá lifum við ekki í lýðræðisríki.

Benjamín Plaggenborg, 21.9.2007 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband