Þingmenn og ráðherrar verði á lágmarksatvinnuleysisbótum!

Eina leiðin til að þingmenn og ráðherrar skilji nauðina í samfélaginu er sú að setja þá á lágmarksatvinnuleysisbætur. Þeir gætu svo notað alla þessa mánuði sem þeir starfa ekki á þinginu til að vinna sér inn aukapening. Þe. ef einhver vill ráða þá.

Það er starfhæf ríkisstjórn og nægur tími til stjórnarmyndunar er viðkvæði þeirra glaðhlakkalegu ráðherraefna næstu ríkisstjórnar.  Þarna eru þau að reikna dæmin jafnskakkt og Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde gerðu þegar þau héldu að þau gætu hummað sig í gegnum hrunið falskri söngrödd sem breyttist daglega.  Allt þar til Geir bað guð að blessa þjóðina.

Raunveruleiki ráðamanna og okkar hinna eru eins og andstæðir pólar. Veit þetta fólk ekki að þrátt fyrir alls konar tilskipanir og lög lána bankarnir engum? Hvorki einstaklingum né fyrirtækjum. Sem geta fyrir vikið ekki leyst út vörur. Vita þau ekki að það eru ekki til innihurðir í byggingavöruverslunum? Né hillujárn? Vita þau ekki að verslanir sem fá ekki fyrirgreiðslu til að leysa út vörur leggi upp laupana? Vita þau ekki að bankarnir semji ekki við neinn sem er í vanskilum?

Nýju bankarnir með nýju kennitölurnar og stundum nýju-gömlu nöfnin vilja nefnilega ekki láta frá sér fé. Það rýrir efnahagsstöðu þeirra. Ef að þessi staða bankamála er það sem ráðamenn líta á sem endurreisn bankakerfisins geta bæði fjölskyldur og fyrirtæki landsins pakkað saman og slökkt ljósið. 

Steingrímur: Okkur skiptir engu máli hvernig þið skiptið ráðherrasætunum á milli ykkar né heldur hvor ríkisstjórnarflokkanna geti talist sigurvegari flokkanna. Við erum komin með upp í kok á því að vera alltaf tapararnir! 

Jóhanna: Ef að þinn tími er kominn er þá ekki kominn tími til að nota hann?

Gylfi: Hvað varð um manninn sem flutti búsáhaldabyltingarræðu á Austurvelli?

Ef að stjórnvöld hafa skilning á vanda fólks eins og þau halda fram væri  ekki til mikils mælst með að þau sjái þá skrípamyndina sem fólki er boðið upp á með verðtryggingu ofan á okurvexti. Skrípamynd er kannski ekki rétta orðið heldur hryllingsmynd. Það er einfaldlega ekki boðlegt að lánveitendur geti lagt okurvexti ofan á verðtryggingu. En lángreiðandinn með sína 2-3% launahækkun á ári sem rýrnar núna um 10-15% um leið hefur enga verðtryggingu á sínum launum. Fyrir utan það að hafa jafnvel lækkað í launum eða misst atvinnuna.

 Ef að það er mikill ábyrgðarhluti að hvetja til örþrifaráðs eins og greiðsluverkfalls vil ég benda ykkur þingmönnum á annað. Fólk í þessarri stöðu stoppar ekki við að hætta að greiða. Það ver fjölskylduna sína og heimilið. MEÐ ÖLLUM TILTÆKUM RÁÐUM. Það eru miklar líkur á auknum verkefnum hjá sérsveit Lögreglunnar. Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða. Ég hvet fólk til að velta setningunni í heild fyrir sér. Af hverju byggðist Ísland?


mbl.is Varar við örþrifaráðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Góð færsla hjá þér, þvi miður er ekki mikil áhugi "hvorki hjá stjórnvöldum eða verkalýðshreyfingu landsins að verja fjölskyldur landsins, ótrúlegt en satt...!"

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 4.5.2009 kl. 23:10

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ég persónulega ætla að láta bankann hafa fyrir því að hafa af mér húsnæðið. Þar kemur ofbeldi til með að koma við sögu. En hins vegar held ég að ég geti keypt húsnæðið til baka á minna fé en ég skulda í því.

Ævar Rafn Kjartansson, 17.5.2009 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband